Ásdís Ásgeirsdóttir
Skrítið hvað allt sem endurtekur sig getur orðið hversdagslegt. Jafnvel eldgos og fréttir af þeim. Það verður svolítið eins og endurtekið efni þegar fréttamenn sjónvarpsstöðvanna standa í rokinu með eldgos fyrir aftan sig og reyna að lýsa aðstæðum. Þegar fór að gjósa nú á laugardag nennti ég ekki í halarófuna á Reykjanesbrautinni heldur lét mér nægja að kveikja á tíufréttum á RÚV. Þar var hinn skeleggi fréttastjóri Heiðar Örn Sigurfinnsson við stjórnvölinn. Eftir viðtal við hinn yfirvegaða Víði, nú með gleraugu eins og Derrick, hringdi hann í aðgerðastjórann á Suðurnesjum, Bjarneyju S. Annelsdóttur. Sem blaðamaður fann ég aðeins til með honum því í viðtölum kýs maður að fólk svari með fleiri orðum en færri.
Þessi ágæti varðstjóri hafði auðvitað í nógu að snúast; það er ekki við hana að sakast, en samtalið varð heldur snubbótt. Heiðar spurði ýmissa spurninga og alltaf svaraði hún stuttlega. Hann lét það ekki slá sig út af laginu og spurði bara því meira. Meðal annars hvort þau hefðu orðið vör við mikla umferð á Reykjanesbrautinni. Svarið var ekki langt:
„Já, við finnum alltaf fyrir því.“
Hún var ekkert að drepa okkur með orðaflaumi. Enda endurtekið efni.