Dropinn Krakkar og fullorðnir bíða í röð eftir að fá áfyllingu af drykkjarvatni úr vatnsbíl í landamærabænum Rafah, syðst á Gasasvæðinu.
Dropinn Krakkar og fullorðnir bíða í röð eftir að fá áfyllingu af drykkjarvatni úr vatnsbíl í landamærabænum Rafah, syðst á Gasasvæðinu. — AFP/Said Khatib
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Andrés Magnússon andres@mbl.is Tölur um fallna borgara á Gasasvæðinu hafa vakið óhug flestra; einkum hve konur og börn hafa verið stór hluti hinna föllnu, sem í heild eru sagðir meira en 30 þúsund talsins. Sú tölfræði dauðans er ein helsta ástæða þess að æ fleiri ríki þrýsta á Ísrael að hætta hernaðinum, en er hún sönn?

Baksvið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Tölur um fallna borgara á Gasasvæðinu hafa vakið óhug flestra; einkum hve konur og börn hafa verið stór hluti hinna föllnu, sem í heild eru sagðir meira en 30 þúsund talsins. Sú tölfræði dauðans er ein helsta ástæða þess að æ fleiri ríki þrýsta á Ísrael að hætta hernaðinum, en er hún sönn?

Í fyrri viku birtist grein í bandaríska tímaritinu The Tablet eftir Abraham J. Wyner, tölfræðiprófessor við Pennsylvaníuháskóla. Hann rannsakaði þessa óhugnanlegu tölfræði og komst að þeirri niðurstöðu að hún gæti ómögulega verið rétt.

Tölfræði um fallna á Gasasvæðinu hefur frá upphafi verið vafa undirorpin. Einu heimildirnar um fjölda hinna föllnu eru talsmenn Hamas, samsetningin í valnum skrýtin og fjöldi grafa í engu samhengi við uppgefinn fjölda fallinna.

Of reglubundnar tölur

Wyner bendir á að tölfræðin sjálf sýni að tölurnar geti ekki verið sannar. Áberandi sé hvernig heildarfjöldinn jókst nær fullkomlega línulega hvern einasta dag, sem sé einstaklega ólíklegt. Þvert á móti mætti búast við verulegum dagsveiflum.

Samkvæmt tölum Hamas féllu um 270 á hverjum degi og dagsfrávikið allt tímabilið er aldrei meira en 15%. Það telur Wyner ómögulegt. Vænta mætti daga þar sem tvöfalt fleiri en meðaltalið væru vegnir, en einnig annarra daga þar sem aðeins helmingur þess hefði fallið.

Meðan dagleg frávik í heildarmannfalli ættu að vera mikil ætti munur á dánarhlutfalli hópa að vera miklu minni: Á dögum þar sem margar konur féllu, ættu einnig mörg börn að falla. Samkvæmt tölum Hamas er fylgnin þar hins vegar nær engin, sem er afar ólíklegt.

Tölur yfir mannfall ættu einnig að sýna fylgni milli karla og kvenna. Þar reynist fylgnin minni en engin, hún er neikvæð tala, sem gengur engan veginn upp nema tölurnar séu skáldskapur.

Fleira er bogið við tölurnar. Tölur fyrir 29. október ganga í berhögg við tölurnar degi fyrr, líkt og þá hafi 26 karlar risið upp frá dauðum. Það gætu auðvitað verið mistök, rétt eins og suma daga þegar fallnir karlar eru sagðir nær engir, en þá mætti búast við því að fallnar konur væru líka í færra lagi. Þá bregður hins vegar svo við að óvenjumargar konur eru sagðar hafa fallið, þannig að heildartalan er eins og vanalega.

Dánartölur ákveðnar

Hvað getur skýrt þetta? Wyner telur augljóst að þar búi að baki einhver aðferðafræði ótengd raunveruleikanum. Hinn ótrúlega jafni heildarfjöldi fallinna á dag, þykir honum benda til þess að heilbrigðisráðuneyti Hamas hafi einfaldlega ákveðið hver sá fjöldi ætti að vera um það bil, að um 70% hans ættu að vera konur og börn, sem skiptist misjafnlega eftir dögum, en afgangurinn karlar. Það skýri öll fyrirliggjandi gögn.

Þetta háa hlutfall barna og kvenna hefur skiljanlega gengið fram af mörgum, en það hefði líka átt að vekja grunsemdir; hlutfallið er miklu hærra en í fyrri átökum á Gasa.

Um það hefur rannsóknarblaðamaðurinn Salo Aizenberg raunar fjallað áður og bent á að væru þessar tölur réttar, gæfi það til kynna að Ísraelsher hefði varla nokkurn Hamas-liða fellt. Eða tölurnar væru ómarktækar ef ekki beinlínis falsaðar.

Lengi vel vildi Hamas raunar ekki gangast við því að neitt nema óbreyttir borgarar féllu fyrir Ísraelsmönnum. Um miðjan febrúar var þó játað að um 6.000 vígamenn Hamas lægju í valnum, sem þá er meira en 20% þeirra sem sagðir voru hafa fallið. Það kemur engan veginn heim og saman við að 70% hinna föllnu séu konur og börn, því það gæfi til kynna að engir karlar í hópi óbreyttra borgara – öfugt við konur og börn – yrðu fyrir barðinu á Ísraelsher. Nú eða hitt, að nánast hver einasti karlmaður á Gasasvæðinu sé virkur vígamaður Hamas. Hvort tveggja er fjarstæðukennt.

Minna mannfall en vænta má

Ísraelsher telur sig reyndar hafa fellt um tvöfalt fleiri vígamenn Hamas en hryðjuverkasamtökin vildu játa, um 12.000. Sé því þannig farið undirstrikar það enn frekar hversu röng tölfræðin um mannfallið á Gasa er, hvort sem heildarfjöldi fallinna reynist 18, 24 eða 30 þúsund.

En það ber þá líka annað og óvæntara með sér: að hlutfall fallinna óbreyttra borgara sé afar lágt. Það hlutfall er yfirleitt mjög hátt í borgarhernaði eins og menn þekkja jafnt úr seinni heimsstyrjöld og frá Úkraínu, að jafnaði um níu fallnir borgarar á hvern fallinn hermann.

Samkvæmt óáreiðanlegum tölum Hamas er hlutfallið 4:1 á Gasasvæðinu, en virðist vera nær 1,4:1 niður í 1:1. Ef sú er raunin, væri það til marks um að Ísraelsher fari með ýtrustu gát í hernaðinum, en hvort heldur er, þá blasir við að tal um þjóðarmorð stenst enga skoðun.

Höf.: Andrés Magnússon