Feðgin Kim Jong Il og Ju Ae fylgjast með heræfingu um helgina.
Feðgin Kim Jong Il og Ju Ae fylgjast með heræfingu um helgina. — KCNA/KNS/AFP
Vísbendingar eru um að Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, hafi valið unga dóttur sína sem arftaka sinn. Ríkisfjölmiðlar í Norður-Kóreu vísuðu um helgina til dóttur Kims með titlinum „hyangdo“ eða miklsverðs leiðtoga en þetta hugtak er eingöngu …

Vísbendingar eru um að Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, hafi valið unga dóttur sína sem arftaka sinn.

Ríkisfjölmiðlar í Norður-Kóreu vísuðu um helgina til dóttur Kims með titlinum „hyangdo“ eða miklsverðs leiðtoga en þetta hugtak er eingöngu notað um æðstu leiðtoga landsins og tilvonandi eftirmenn þeirra.

Í frétt sem kóreska ríkisfréttastofan, KCNA, sendi frá sér bæði á ensku og kóresku um heimsókn feðginanna í gróðrarstöð var vísað til þeirra beggja með þessum titli.

Sérfræðingar segja, að þetta sé í fyrsta skipti sem dóttur Kims sé lýst með þessum hætti. Hún hefur aldrei verið nefnd með nafni í norðurkóreskum fjölmiðlum en leyniþjónusta Suður-Kóreu segir að hún heiti Ju Ae og sé á unglingsaldri.

Stúlkan hefur að undanförnu oft komið fram með föður sínum á opinberum viðburðum og gera margir því skóna að hún hafi verið valin sem eftirmaður hans. Koo Byoung-sam, talsmaður sameiningarráðuneytis Suður-Kóreu, sagði á blaðamannafundi í gær að stjórnvöld þar fylgdust grannt með þróun mála.

Sást fyrst árið 2022

Ju Ae kom fyrst fram ásamt föður sínum árið 2022 þegar hún fylgdist með því þegar langdrægu flugskeyti var skotið á loft. Síðan hafa norðurkóreskir fjölmiðlar oft vísað til hennar með ýmsum hætti og sagt hana vera „morgunstjörnu Kóreu“ og „ástkært barn“. Hún hefur komið fram á ýmsum viðburðum ásamt föður sínum, svo sem heræfingum, heimsóknum í vopnaverksmiðjur og kjúklingabú.

Stjórnvöld í Pyongyang birtu á laugardag mynd þar sem Ju Ae sást nota kíki til að fylgjast með heræfingu ásamt föður sínum og háttsettum hermálafulltrúum.

Fyrir árið 2022 hafði eina staðfestingin á að Ju Ae væri til komið frá bandarísku körfuboltastjörnunni Dennis Rodman, sem heimsótti Norður-Kóreu árið 2013 og sagðist þar hafa hitt barnunga dóttur Kims sem héti Ju Ae.

Suðurkóresk stjórnvöld höfðu áður sagt að fyrsta barn Kims og Ri, eiginkonu hans, væri drengur sem fæddist árið 2010 og að Ju Ae væri næstelsta barnið. En á síðasta ári sagði suðurkóreski sameiningarráðherrann að suðurkóresk stjórnvöld hefðu ekki getað staðfest að Kim ætti son.

Kim Jong Un tók við völdum árið 2011 eftir að Kim Jong Il, faðir hans og sonur Kim Il Sung, stofnanda Norður-Kóreu, lést. Á valdatíma Kims hafa Norður-Kóreumenn gert fjórar tilraunir með kjarnorkuvopn, þá síðustu árið 2017.