Spenna Allir nemendur söngleikjadeildar Söngskólans í Reykjavík eru með hlutverk í sýningunni.
Spenna Allir nemendur söngleikjadeildar Söngskólans í Reykjavík eru með hlutverk í sýningunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Söngleikjadeild Söngskólans í Reykjavík setur upp söngleikinn Bugsy Malone í Kassanum í Þjóðleikhúsinu eftir páska. Uppselt er á fyrstu og aðra sýningu, 4. og 5. apríl, og vel gengur að selja miða á síðustu sýninguna 6

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Söngleikjadeild Söngskólans í Reykjavík setur upp söngleikinn Bugsy Malone í Kassanum í Þjóðleikhúsinu eftir páska. Uppselt er á fyrstu og aðra sýningu, 4. og 5. apríl, og vel gengur að selja miða á síðustu sýninguna 6. apríl. „Vonandi getum við boðið upp á aukasýningar en eins og staðan er núna eru aðeins þessar þrjár sýningar í boði,“ segir Garðar Thór Cortes, aðstoðarskólastjóri og söngkennari, en hann stýrir jafnframt nýju deildinni ásamt Valgerði Guðnadóttur.

Söngskólinn í Reykjavík hefur sérmenntað og útskrifað einsöngvara og söngkennara í hálfa öld og á 50 ára starfsafmæli skólans í fyrra var ákveðið að auka námsframboðið enn meira og bæta við söngleikjadeild með áherslu á söngleikjaformið. Garðar Thór segir að tími hafi verið til kominn. „Við sáum að mikill vilji og áhugi var fyrir söngleikjum enda er söngleikjaformið vinsælt og hefur í rauninni alla tíð verið.“

Í Söngskólanum eru um 100 nemendur og þar af 17 í söngleikjadeildinni. Garðar Thór segir að byrjunin hafi verið vonum framar, mikil aðsókn og góður hópur nemenda. „Við getum ekki verið ánægðari á þessu fyrsta ári söngleikjadeildarinnar.“

Fyrsta sviðsetta sýningin

Nemendur deildarinnar hafa þegar verið með tvær uppfærslur í tónleikaformi, sýninguna Siglt í gegnum söngleiki og jólatónleika, en Bugsy Malone er fyrsta sviðsetta sýningin. „Hún er jafnframt 50 ára afmælissýning skólans,“ vekur Garðar Thór athygli á.

Margir söngleikir komu til greina en að vel ígrunduðu máli varð Bugsy Malone fyrir valinu. „Okkur fannst verkið mjög viðeigandi fyrir hópinn,“ segir Garðar. „Þetta er virkilega skemmtilegur söngleikur og margir þekkja bíómyndina klassísku með Jodie Foster.“ Söngleikjadeildin leggi ekki síður áherslu á leikinn en sönginn og verkið sé góð blanda. „Við vildum heldur ekki vera með verk sem hefur verið sýnt fyrir stuttu.“

Allir nemendur deildarinnar taka þátt í sýningunni undir leikstjórn Níelsar Thibaud Girerd. Júlía Kolbrún Sigurðardóttir er danshöfundur og Sigurður Helgi tónlistarstjóri, en hann er tónlistarstjóri deildarinnar. Garðar segir að eins og í öllum leikhúsum hafi nemendur farið í prufur fyrir hlutverkin, en Óskar Snorri Óskarsson er í hlutverki Bugsy Malone og Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir setur sig í spor Blousey Brown.

Garðar Thór segir stuðning Þjóðleikhússins við þessa nýstofnuðu söngleikljadeild ómetanlegan og mjög svo ánægjulegan. „Við erum mjög þakklát fyrir það og gaman er að vera með 50 ára afmælissýningu Söngskólans í Reykjavík í Kassanum í Þjóðleikhúsinu.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson