Bankasýsla ríkisins gerði í gærkvöld miklar athugasemdir við ákvörðun og upplýsingagjöf Landsbankans vegna kaupa hans á TM tryggingum af Kviku banka fyrir 28,6 milljarða króna, sem greint var frá um helgina

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Bankasýsla ríkisins gerði í gærkvöld miklar athugasemdir við ákvörðun og upplýsingagjöf Landsbankans vegna kaupa hans á TM tryggingum af Kviku banka fyrir 28,6 milljarða króna, sem greint var frá um helgina.

Bankaráði Landsbankans eru gefnir sjö dagar til þess að skila ýtarlegri greinargerð um viðskiptin, en jafnframt krefst Bankasýslan þess að fyrirhuguðum aðalfundi bankans, sem halda átti á morgun, verði frestað um fjórar vikur.

Jón Gunnar Jónsson forstjóri Bankasýslunnar, sem annast umsýslu með eignarhlutum ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum, sendi bæði fjármálaráðherra og bankaráði Landsbankans bréf í gær sem birt voru í gærkvöld og er óhætt að segja að hann hafi með þeim skakkað leikinn.

Kaup Landsbankans á TM hafa valdið miklum titringi, bæði í viðskiptalífi og stjórnmálum. Þórdís Gylfadóttir fjármálaráðherra hafði fyrir kaupin lýst andstöðu við að ríkisbankinn færði út kvíarnar með þessum hætti og ítrekaði það eftir að greint var frá þeim, en Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans sagði í gær að það breytti engu um kaupin.

Af bréfum Bankasýslunnar er ljóst að hún hefur allan fyrirvara á þessum viðskiptum bankans og er fjármálaráðherra fullvissaður um að stofnuninni hafi verið alls ókunnugt um viðskiptin og tekur Bankasýslan „undir þau rök og þær áhyggjur sem fram koma í bréfi ráðherra“.

Mestum tíðindum sætir þó bréfið til bankaráðs Landsbankans, en þar er minnt á að Bankasýslan fari með 98,2% hlut í Landsbankanum fyrir hönd fjármálaráðherra og lýst yfir „vonbrigðum með ákvarðanatöku og upplýsingagjöf“ um kaupin á TM.

Vísað er til þess að „Landsbankanum [beri] án tafar að upplýsa hluthafa um öll mikilvæg mál sem upp kunna að koma, eða eru ákveðin af bankanum og gætu haft afgerandi áhrif á rekstur og efnahag“. Tilboð í 100% eignarhlut í TM falli tvímælalaust undir það og hafi bankanum borið að gera það „með skýrum og formlegum hætti og með eðlilegum fyrirvara“.

Í ljósi þeirrar vanrækslu bankaráðsins er því gefinn sjö daga frestur til þess að skila greinargerð um viðskiptin, þar sem m.a. skal lýsa aðdraganda tilboðsins, framvindu þess og ákvarðanatöku, forsendum og rökum viðskiptanna, skyldum bankans við Bankasýsluna samkvæmt samningi og ákvæðum eigendastefnu.

Í þessu felast ljóslega víðtækar efasemdir um störf bankaráðsins, en einnig er þar óorðuð spurning um fjármögnunina, því sérstaklega er óskað eftir útskýringu um „hvernig þessi viðskipti hafa áhrif á áhættu í rekstri bankans og getu hans til arðgreiðslna til hluthafa eða annars konar ráðstöfunar á umfram eiginfé“.

Höf.: Andrés Magnússon