Njarðvík valtaði yfir Breiðablik er liðin mættust í úrvalsdeild karla í körfubolta í Njarðvík í gærkvöldi. Urðu lokatölur 120:86.
Njarðvíkingar eru nú einir í öðru sæti með 30 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Vals og tveimur stigum á undan grönnum sínum í Grindavík og Keflavík. Er Njarðvík nú í afar góðri stöðu í baráttunni um heimaleikjarétt í úrslitakeppninni, en fjögur efstu liðin eru með heimaleikjarétt í átta liða úrslitum.
Breiðablik er í 11. sæti með aðeins fjögur stig og fallið úr deildinni.
Njarðvíkingar hafa verið í baráttunni um efstu sætin stóran hluta tímabils og bjuggust flestir við öruggum sigri gegn föllnu Blikaliði, sem varð raunin.
Var staðan í hálfleik 73:48 og eftirleikurinn auðveldur fyrir Njarðvíkinga í seinni hálfleik.
Dwayne Lautier-Ogunleye skoraði 27 stig fyrir Njarðvík og Chaz Williams gerði 24 stig og gaf tíu stoðsendingar. Zoran Vrkic skoraði 20 stig fyrir Breiðablik og Ólafur Eyjólfsson gerði 19.
Njarðvík mætir Keflavík í stórleik í næstu umferð í hörðum slag um annað sætið.