Það styttist svo sannarlega í Ólympíuleikana sem fram fara í París í Frakklandi og verða settir við hátíðlega athöfn í frönsku höfuðborginni hinn 26. júlí. Sundmaðurinn Anton Sveinn McKee er eini íslenski íþróttamaðurinn sem hefur tryggt sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum enn sem komið er

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Það styttist svo sannarlega í Ólympíuleikana sem fram fara í París í Frakklandi og verða settir við hátíðlega athöfn í frönsku höfuðborginni hinn 26. júlí.

Sundmaðurinn Anton Sveinn McKee er eini íslenski íþróttamaðurinn sem hefur tryggt sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum enn sem komið er.

Þann 5. janúar tilkynnti Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands Ólympíuhóp ÍSÍ sem samanstendur af níu íþróttamönnum í mismunandi íþróttagreinum en karlalandslið Íslands í handbolta verður því miður ekki á meðal þátttakenda í París.

Í tilkynningu ÍSÍ, sem birtist hinn 5. janúar, kemur meðal annars fram að á næstunni sé ætlun ÍSÍ og sérsambanda að vekja athygli á þessu íþróttafólki.

Þá stóð einnig til að vekja athygli á þeim viðburðum sem þau eru að keppa á til að vinna sér þátttökurétt á leikunum í París en í tilkynningunni var ekki talað um nákvæma tímasetningu, heldur „á næstunni“.

Núna eru liðnir tæpir tveir og hálfur mánuður síðan Ólympíuhópur ÍSÍ var tilkynntur en fréttirnar af íþróttafólkinu hafa eitthvað látið á sér standa, sem er miður.

Íþróttaunnendur þurfa hins vegar ekki að örvænta þar sem mbl.is og Morgunblaðið mun ekki bregðast okkar fólki.

Markmiðið er að kynna Ólympíuhópinn vel og vandlega fyrir þjóðinni í Dagmálum Morgunblaðsins.

Þar fær íþróttafólkið okkar góðan vettvang til þess að koma sér á framfæri, sem þau þurfa svo sannarlega á að halda.