Ásdís Helga Ágústsdóttir er fædd 19. mars 1964 í Reykjavík og bjó fyrst á Laugarásvegi í sama húsi og amma hennar og afi.
„Ég fluttist til Garðahrepps eins árs í hús sem pabbi byggði sjálfur. Það var frábært að eiga heima og alast upp í Garðahreppi sem var hálfgerð sveit þegar ég ólst upp þar. Ég gekk í skátana, tónlistarskóla, lúðrasveit, myndlistaskóla og kór sem barn.“
Eftir barnaskóla í Garðahreppi gekk Ásdís í Verslunarskóla Íslands og varð stúdent þaðan 1984. „Ég fór síðan út í arkitektanám, menntaði mig í Bretlandi, fyrst í Edinborg í þrjú ár og svo í London í tvö ár.“
Hún útskrifaðist 1989 með BA-gráðu í arkitektúr, RIBA PART I, frá Edinburgh College of Art, Heriot Watt University í Edinborg og 1992 með diplomu í arkitektúr, RIBA PART II, frá Bartlett School of Architecture and Planning, University College í London.
Ásdís bjó fjögur ár með fjölskyldunni í Brussel í Belgíu og vann þar sem arkitekt meðan maðurinn hennar vann hjá EFTA OG ESA. Ágúst sonur þeirra gekk þar í skóla þrátt fyrir ungan aldur.
Hún stofnaði síðan Yrki arkitekta árið 1997 ásamt Sólveigu Berg. Stofan var stofnuð í framhaldi af 1. verðlaunum sem þær hlutu fyrir Lækningaminjasafnið við Nesstofu á Seltjarnarnesi. Ásdís leggur áherslu á að hjá Yrki ríkir mikill faglegur metnaður. Verkefnin eru fjölbreytt að gerð og stærð og af ýmsum toga. Sköpunar- og hönnunarverk stofunnar er að finna vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið og víðar. Sum verkanna eru fullkláraðar byggingar eða skipulagsreitir en önnur eru tillögur sem á eftir að útfæra nánar eða hrinda í framkvæmd.
Auk Náttúruminjasafnsins á Seltjarnarnesi hefur Yrki hlotið 1. verðlaun í alþjóðlegu samkeppninni Reinventing Cities, 1. verðlaun í samkeppni um ráðhús Akureyrar og 1. verðlaun í lokaðri samkeppni um hönnun hjúkrunarheimilis, íbúða og þjónustumiðstöðvar aldraðra í Mörkinni, svo eitthvað sé nefnt.
Meðal fleiri verkefna og viðurkenninga má nefna sex söluhús við Ægisgarð, tilnefning til Hönnunarverðlauna Íslands og viðurkenning fyrir tilnefningu arkitektúrvefsins A+ á söluhúsunum við Ægisgarð; Sveinatungu í Garðabæ sem var tilnefnd til Dezeen Awards 2020 í flokki innanhússhönnunar; vigtarhúsið í Þorlákshöfn sem hlaut heiðursviðurkenningu A’Design Award, var tilnefnt til Mies van der Rohe verðlaunanna og tilnefnt til menningarverðlauna DV á sviði byggingarlistar; sambýli – Blikaási 1, Hafnarfirði sem var tilnefnt til menningarverðlauna DV á sviði byggingarlistar, og hjúkrunarheimilið í Mörkinni sem var tilnefnt til menningarverðlauna DV á sviði byggingarlistar.
Auk þess hefur Yrki unnið að hönnun stúdentagarða, sambýli, skólahúsnæðis, sjúkrahótels, skrifstofuhúsnæðis fyrirtækja og stofnana og fyrir utan það hefur Yrki hannað raðhús, einbýlishús og fjölbýlishús svo flóran hefur töluverða breidd og fjölbreytni.
„Skipulag hefur einnig verið stór hluti af starfsemi Yrkis og hvar sem borið er niður þá eru öll verkefni skemmtileg. Það felst mikil gæfa í því að vera arkitekt á Íslandi því við fáum svo fjölbreytt verkefni að vinna með og flóknar úrlausnir sem eru um leið áskoranir sem gaman er að glíma við. Verkefnin spanna allt frá hinu smæsta til hins stærsta.“
Ásdís sat í dagskrárnefnd Arkitektafélags Íslands 1992-1995 og í stjórn Samtaka arkitektastofa (FSSA) 2013-2015. Hún hefur setið í dómnefndum fyrir Arkitektafélagið og hefur unnið sem stundakennari hjá Listaskóla Íslands.
Áhugamál Ásdísar eru skíði, veiði, ferðalög og útivera. „Fjölskyldan er alltaf númer eitt. Við förum í ferðalög mikið saman og veiðum bæði með börnum okkar og vinum.“
Fjölskylda
Eiginmaður Ásdísar er Páll Ásgrímsson, f. 18.4. 1964, lögmaður. Þau eru búsett í Fossvoginum í Reykjavík. Foreldrar Páls: Ásgrímur Pálsson, f. 13.8. 1930, d. 17.12. 1984, framkvæmdastjóri, bjó á Stokkseyri og í Hafnarfirði, og Anna Þorgrímsdóttir, f. 29.3. 1939, fyrrverandi ráðgjafi, býr í Reykjavík.
Börn Ásdísar og Páls eru Ágúst Pálsson, f. 21.12. 1993, tölvunarfræðingur og sálfræðingur og býr í Garðabæ. Maki: Bryndís Þorsteinsdóttir sálfræðingur. Sonur þeirra er Hilmir Þór Pálsson, f. 27.10. 2020; 2) Anna María Pálsdóttir, f. 25.1. 1998, BSc í sálfræði frá HÍ og mastersnámi við HR í Stjórnun nýsköpunar og býr í Reykjavík. Maki: Hlynur Örn Hrafnkelsson, nemi í flugnámi.
Systur Ásdísar eru Ragnheiður Ingunn Ágústsdóttir, f. 13.7. 1965, listamaður og býr í Reykjavík, og Þórdís Erla Ágústsdóttir, f. 24.12. 1961, ljósmyndari og býr í Reykjavík.
Foreldrar Ásdísar eru hjónin Ágúst Þorsteinsson, f. 9.4. 1939, fv. öryggisfulltrúi og María Helga Helga Hjálmarsdóttir, f. 28.2. 1942, félagsráðgjafi. Ágúst er búsettur í Garðabæ en María Helga dvelur á Hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík.