Húsavík Bjarnahús fær hæsta styrkinn í flokki friðaðra húsa.
Húsavík Bjarnahús fær hæsta styrkinn í flokki friðaðra húsa. — Morgunblaðið/Atli Vigfússon
Úthlutað hefur verið tæplega 298 milljónum króna úr húsafriðunarsjóði fyrir árið 2024 til alls 176 verkefna, einkum vegna viðhalds og endurbóta, en sjóðnum barst 241 umsókn um styrk fyrir yfirstandandi ár þar sem sótt var um tæplega 1,3 milljarða króna

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Úthlutað hefur verið tæplega 298 milljónum króna úr húsafriðunarsjóði fyrir árið 2024 til alls 176 verkefna, einkum vegna viðhalds og endurbóta, en sjóðnum barst 241 umsókn um styrk fyrir yfirstandandi ár þar sem sótt var um tæplega 1,3 milljarða króna.

Meðal hæstu fjárhæða í flokki friðlýstra húsa og mannvirkja sem samþykktar voru er 8 milljóna króna styrkur til timburhússins á Laugavegi 44 sem byggt var árið 1908. Gamli bærinn Múlakot í Fljótshlíð fær 4 milljónir, 3,5 milljónir fara til Duushúss, bryggjuhúss í Keflavík, Kópavogsbýlið á Kópavogstúni fær 3,5 milljónir, Laxabakki við Sog fær 3,5 og 3,5 milljónir fara til Tjarnargötu 18 í Reykjavík. Alls voru veittir 26 styrkir, samtals 55,2 milljónir króna, til friðlýstra húsa og mannvirkja.

87 friðuð hús og mannvirki fá samtals tæplega 140 milljónir króna í styrki. Hæstu upphæð í flokki friðaðra húsa fær Bjarnahús, safnaðarheimili á Húsavík, eða fimm milljónir, 4,5 milljónir fara til skólahússins á Hesteyri í Jökulfjörðum, gamla íbúðarhúsið Brautarholti á Kjalarnesi fær 4 milljónir, Grænavatnsbærinn í Mývatnssveit fær 4 milljónir og veittar eru 4 milljónir úr húsafriðunarsjóði vegna Vesturgötu 10 og 10a.

Friðlýstar kirkjur hlutu 35 styrki samtals að upphæð 68 milljónir króna. Saurbæjarkirkja á Rauðasandi fær 6 milljónir króna. Innri-Njarðvíkurkirkja fær 5 milljónir, Hofteigskirkja í Jökuldal fær 4 milljónir og Silfrastaðakirkja í Blönduhlíð fær 4 milljónir króna.

Viðhald handverkshefða

Hæsti styrkurinn í flokknum önnur hús og mannvirki fer til læknisbústaðarins á Vesturbraut 4 í Grindavík, eða 2,5 milljónir króna, og 2 milljónir fara til sumarhússins Höfða í Mývatnssveit. Alls voru veittir 18 styrkir í þessum flokki, samtals 19,2 milljónir króna.

Íslenskar sundlaugabyggingar frá fyrrihluta 20. aldar fá hæsta styrkinn í flokknum rannsóknir og húsakannanir. Torfhús í Húnavatnssýslum fá 2,5 milljónir og Fornverkaskólinn: viðhald handverkshefða fær einnig 2,5 milljónir króna.

Höf.: Ómar Friðriksson