Jón Eldon Logason
Jón Eldon Logason
Ráðherranum voru léð eftirfarandi orð: „Það hafa menn sagt um gæði skólabyggingarinnar að varla hafi þurft að huga að viðhaldi undanfarin 80 ár.“

Jón Eldon Logason

Nýliðin er ráðstefna um skaðsemi myglu og mögulegar leiðir til varnar og eyðingar myglu úr híbýlum manna. Var að venju farið um víðan völl og margt talað.

Samkvæmt fréttum af ráðstefnunni eru menn enn við sama heygarðshornið, ekki sé hægt að kenna um sinnuleysi í eftirliti og viðhaldi húsa, segir prófessor.

Ummæli menntamálaráðherra, viðhöfð á merkisdegi í Laugarnesskóla, lýsa ágætlega viðhorfi margra er ættu að vita betur en hafa samt léð ráðherranum eftirfarandi orð: „Það hafa menn sagt um gæði skólabyggingarinnar að varla hafi þurft að huga að viðhaldi undanfarin 80 ár.“

Umsagnir manna um ástand Laugarnesskóla í dag eru skrautlegar, að ekki sé meira sagt. Einn segir steinsteypuna einstaklega lélega, annar lýsir uppgötvun í lagnakjallara sem bendir til þess að menn séu að vanda sig eftir herfilegt fúsk við mygluhreinsun í Fossvogsskóla og leikskóla á Granda sem kostað hefur borgarbúa milljarða króna. Það er eðlilegt að illa fari þegar enginn lítur á það sem sitt verkefni að taka ábyrgð á viðhaldi skólabygginga, nóg hefur verið af skrifstofum mönnuðum menntamönnum hjá borgarverkfræðingi, byggingarfulltrúa, áhaldahúsi, skólaskrifstofu. Eftirlitsmenn með framkvæmdum eru ekki allir þjakaðir af verkviti.

Utanaðkomandi vatn hefur leikið Laugarnesskóla illa, það er vitað að þakgluggi var opinn frá vori fram á haust eitt árið. Staðreyndin er sú að viðhaldi var ekki sinnt í 80 ár, aðeins var lagfært það sem bilaði í lögnum, gluggar á skólastofum láku áratugum saman og umgengni í lagnakjallara sýnir vel hvernig óvandvirkir menn hafa verið að verki í lagnaviðgerðum.

Íslenski útveggurinn hefur verið talaður niður af ýmsum en þegar grannt er skoðað þá er það af völdum hirðuleysis sem ástand skólabygginga og spítala er eins og það er. Sú veðurkápa á steinsteypt hús sem stenst íslenskt veðurfar er einföld og ódýr til langs tíma litið, svokölluð hraunhúðun annars vegar og steining hins vegar. Það eina sem getur eyðilagt þessar veðurkápur er trassaskapur, skortur á reglubundnu eftirliti og viðhaldi. Íslenski útveggurinn sem slíkur er góður í dag með allri nútímaþekkingu. það er auðvelt að sjá með eigin augum hvernig hann reynist þar sem ábyrgir húseigendur hafa haldið húsakosti sínum við með reglubundnu eftirliti og sinnt viðhaldi. Því miður hafa menn í fljótfærni steinað utan á einangrun, plast og eða steinull, en það gengur ekki á Íslandi þó það gangi á meginlandi Evrópu.

Það er fyrir tilstuðlan lækna á Landspítala að umræðan um myglu í húsnæði fékk byr undir báða vængi. Kom reyndar ekki til af góðu. Heimilislækningar hafa verið stundaðar um árabil með þokkalegum árangri. Því ekki að bæta við húsalækningum sem sérgrein, setja saman teymi, manna með reynslu af mörgum ólíkum sviðum sem sameiginlega geta lesið húsbyggingar og gert greiningu á vanda hverrar byggingar fyrir sig og loks setja saman sjúkraskrá sem verður tiltæk þegar á þarf að halda?

Stærstu skaðvaldar í nýjum húsum fyrir utan rangar byggingaraðferðir eru meðal annars notkun á innfluttu, ónothæfu byggingarefni, vottuðu sem óvottuðu, þekkingarskortur byggingarstjóra, breytingar á iðnnámi, afnám ábyrgðar iðnmeistara og margt fleira.

Loftútsogsdælur án inntaks fyrir loft rústa nýkláruðu húsi á nokkrum mánuðum. Ég hef séð dæmi þess. Mál er að linni.

Höfundur er fv. byggingameistari.

Höf.: Jón Eldon Logason