Búdapest Åge Hareide býr lið Íslands undir leikinn við Ísrael.
Búdapest Åge Hareide býr lið Íslands undir leikinn við Ísrael. — Ljósmynd/Szilvia Micheller
Åge Hareide, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, og Knattspyrnusamband Íslands sendu í gær frá sér afsökunarbeiðni vegna ummæla sem Hareide lét falla á blaðamannafundi síðastliðinn föstudag. Norðmaðurinn sagði á fundinum að það yrðu mikil vonbrigði…

Åge Hareide, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, og Knattspyrnusamband Íslands sendu í gær frá sér afsökunarbeiðni vegna ummæla sem Hareide lét falla á blaðamannafundi síðastliðinn föstudag.

Norðmaðurinn sagði á fundinum að það yrðu mikil vonbrigði fyrir íslenska liðið ef niðurfelling héraðssaksóknara í máli Alberts Guðmundssonar yrði kærð.

Albert var kærður fyrir kynferðisbrot, en héraðssaksóknari ákvað á dögunum að ákæra landsliðsmanninn ekki. Hefur sú ákvörðun nú verið kærð, en þrátt fyrir það getur Albert spilað leikinn mikilvæga við Ísrael í undanúrslitum umspils um sæti á lokamóti EM á fimmtudag, eins og fram kemur hér á opnunni.

„Varðandi ummæli sem voru höfð eftir mér á blaðamannafundi síðastliðinn föstudag, varðandi reglur um val á leikmönnum í íslenska landsliðið, þá vil ég gjarnan skýra að ég átti aðeins við að sem knattspyrnuþjálfari vil ég auðvitað geta valið bestu leikmennina hverju sinni. Það hefur ekki alltaf verið hægt.

Þá vil ég líka nefna að ég var alveg skýr á blaðamannafundinum með það að reglurnar eru eins og þær eru, og að ég myndi virða þær reglur. Ég biðst afsökunar á að hafa valdið misskilningi varðandi þetta, enda var það alls ekki ætlun mín að særa eða móðga neinn,“ er haft eftir Hareide í yfirlýsingu KSÍ.