Viðtal
Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
Þrjú ár voru liðin í gær frá því að eldgos hófst í Geldingadölum, 19. mars 2021. Síðan þá hefur hvert gosið rekið annað og síðustu þrjá mánuði hafa jarðhræringar verið með slíkum eindæmum að fjórum sinnum hefur gosið frá því 18. desember og heilt bæjarfélag verið rýmt vegna ástandsins á Reykjanesskaga, sem enn sér ekki fyrir endann á.
„Þegar við horfum í baksýnisspegilinn vil ég horfa lengra aftur, því atburðarásin hefst talsvert fyrr en þegar fyrsta gosið verður í Geldingadölum fyrir þremur árum,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur og prófessor emeritus við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.
Flekaskilin rót atburðanna
„Það eru orðnir ansi margir kaflar í þessari atburðarás og miklu meira en bara gosin, sem er mjög þýðingarmikið að átta sig á. Upphaf þessara atburða má rekja til desember 2019 þegar mikil jarðskjálftahrina hefst við Fagradalsfjall og síðan rekur hver atburðurinn annan. Næsti marktæki atburður er landris í Svartsengi í lok janúar 2020, mánuði seinna. Síðan koma tveir risaatburðir í viðbót í Svartsengi fyrri hluta árs 2020,“ segir Páll og bætir við að segja megi um alla atburðarásina á Reykjanesskaganum að hún tengist flekaskilum milli tveggja meginfleka jarðskorpunnar sem liggja eftir endilöngum Reykjanesskaga, alveg frá Kleifarvatni og út í Eldey, líklega um 70 km, þ. á m. beint yfir Sundhnúkagíga.
„Seinni hluta ársins 2020 verður síðan landris í Krýsuvík, sem er líka hluti af þessari atburðarás. Síðan kemur gangainnskot undir Fagradalsfjalli 24. febrúar 2021 og sá gangur nær síðan til yfirborðs 19. mars með gosi í Geldingadölum, sem er lengsta gosið til þessa og stóð í sex mánuði.“
Páll segir að þótt gosið í Geldingadölum hafi verið máttlaust gos hafi það staðið yfir í hálft ár og þannig orðið stærsta gosið í heild sinni fram til þessa. „Næsti atburður er landris í Svartsengi í maí 2022. Síðan koma eldgos við Fagradalsfjall, í Meradölum, 3. ágúst sama ár,“ segir Páll og rifjar upp að það gos hafi staðið yfir í 18 daga.
Möguleiki á gosi í Grindavík
„Þriðja gosið í Fagradalsfjallseldstöðvakerfinu er síðan í Litla-Hrút 10. júlí 2023, sem stóð til 5. ágúst,“ segir Páll og bætir við að þegar komi fram í október á síðasta ári hafi syrpa af örum atburðum hafist. „Landris byrjar í Svartsengi í fimmta skiptið og síðan rekur hver atburðurinn annan. Stórt gangainnskot verður í 10.-11. nóvember, sem er langstærsti atburðurinn í þessari sögu, alla vega sá sem valdið hefur mestu tjóni. Þá fer gangur undir Grindavík og sennilega enn þá lengra út undir hafsbotninn. Gangurinn er líklega 15 km langur og olli miklu tjóni í Grindavík. Þetta er kvikugangur, þannig að ein sviðsmyndin var á þessum tíma að það gæti gosið hreinlega inni í bænum og þess vegna var ekkert í stöðunni annað en að rýma bæinn.“
Sundhnúkagígar
Næstu þrjú gos verða öll við Sundhnúkagíga, sem liggja á flekaskilunum og þau eru mjög skammvinn, 18.-21. desember sem var á 4 km sprungu, 14.-16. janúar þar sem tvær sprungur opnast, önnur 1 km að lengd og hin styttri rétt við norðurhluta Grindavíkur og hraunflæði eyðilagði þar þrjú hús í bænum. 8. febrúar gýs aftur á sama svæði og gosið stendur í tvo og hálfan sólarhring. Síðasta gosið við Sundhnúkagíga hófst síðasta laugardag þegar 3 km löng sprunga opnaðist á milli Hagafells og Stóra-Skógfells, og það gos hefur þegar staðið lengur en fyrri þrjú gos.
„Janúargosið olli mestu tjóni og febrúargosið líka þegar hitavatnsleiðslurnar fóru,“ segir Páll. Upphaf gossins núna hafi verið mjög svipað gosunum á undan. „En strax á sunnudaginn tók það aðra stefnu og náði einhverjum stöðugleika og það er búið að vera stöðugur gosórói síðan.“
Gosið mallar enn
Þegar Páll er spurður hvað valdi þá hægu hraunflæði núna segir hann að fyrsta gusan hafi verið mjög áköf og þá myndist langir hraunstraumar. „Þetta er eitt af því sem Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur hefur kennt mönnum. En þegar dregur úr ákafanum nær gosið ekki að halda löngum straumum lengur, þannig að núna þykknar hraunið en lengist ekki. En þegar maður horfir á svartar tungurnar þar sem þær eru lengstar lítur út fyrir að gosið sé hætt, en það er það alls ekki.“
Páll segir ómögulegt að segja hversu lengi gosið muni standa yfir núna. Margt núna rími við reynslu okkar af síðasta gosinu í Kröflu árið 1984. „En það er erfitt að spá fyrir um byrjun gosa og enn erfiðara að spá fyrir um endalok svona gosa og gostímabils. En atburðarásinni á Reykjanesskaga er ekki lokið.“