Ingólfur Ómar gaukaði að mér tveimur vísum á mánudag: Hreiminn braga hlýna við hljómar bagan slynga. Ekki plagar andleysið okkur Skagfirðinga. Elska lipurt tungutak og tónaflóðið þýða. Hreyfir þó sér bregði á bak best af öllum ríða

Ingólfur Ómar gaukaði að mér tveimur vísum á mánudag:

Hreiminn braga hlýna við

hljómar bagan slynga.

Ekki plagar andleysið

okkur Skagfirðinga.

Elska lipurt tungutak

og tónaflóðið þýða.

Hreyfir þó sér bregði á bak

best af öllum ríða.

Birtingaljóð og laust mál heitir góð bók sem kom í hendur mínar ekki alls fyrir löngu. Þar er margvíslegan fróðleik að finna sem fólkið frá Birtingaholti hefur skrifað. Sigurður Ágústsson bóndi þar gefur heilræði:

Láttu sífellt söngsins mál

seytla daga og nætur

inn í þína ungu sál

inn í hjartarætur.

Á leið í réttirnar í himinblíðu veðri orti hann:

Eftir þetta sólarsumar

sýnist ekkert hneykslismál

þó að frjálsir fjallagumar

fái sér eina réttarskál.

Og af sama toga:

Þó að eg sé aurafár

og oft í kröggum þéttum

þá skal ég alltaf eiga tár

í öllum Hrepparéttum.

Dóttir Sigurðar, Ásthildur húsfreyja í Birtingaholti, vaknaði snemma einn vormorgun, sólin var að koma upp. Hún hripaði niður í fljótheitum:

Í austri roðar árdagssól

svo undur fagurt himininn

og bjarma slær á hæð og hól.

Hvílík fegurð drottinn minn!

Öðru sinni kvað hún:

Það bætir geð og léttir lund

að leika sér að orðum,

að yrkja vísu á yndisstund

eins og skáldin forðum.

Jakob Aþanasíusson kvað:

Þar sem dökkleit þrenning býr

þrífst ei nokkur friður;

blessun guðs í burtu snýr;

bölvan rignir niður.

Enn kvað Jakob:

Hylur gæran sauðar svarta

soltinn úlf með geði þungu,

dúfu augu, höggorms hjarta,

hunangsvarir, eiturtungu.

Öfugmælavísan:

Hrafninn talar málið manns,

músin flýgur víða,

kettlingurinn kvað við dans,

kaplar skipin smíða.