Stjórnvöld geta ekki látið reka á reiðanum

Margur virðist gefa sér að kjörnir fulltrúar almennings séu verst allra til þess fallnir að eiga lokaorð í íslenskri stjórnsýslu. Á hinn bóginn er almenningur kallaður til leiks, ekki sjaldnar en á fjögurra ára fresti, og stundum tíðar. Skipað er til sætis í þinghúsinu, og kjörnir fulltrúar fá sín herbergi.

Næst er kannað hvort meirihlutinn í húsinu komi sér saman um að axla ábyrgð á ríkisstjórn. Þeir, sem upplifa þetta í fyrsta sinn, eru vongóðir um að nýfengið vald dugi til að gera breytingar til bóta, eins og kjósendum var lofað. Og þeir, sem setjast í ríkisstjórn í fyrsta sinn, horfa bjartsýnir til næsta dags, ákveðnir í að láta til sín taka. En það eru aðrir fyrir á fleti. Sumir hafa hagrætt sér vel og lengi í stjórnsýslunni og vilja að sögn allt fyrir þá nýkomnu gera. Nema hvað.

Það er eðlilegt að hugsað sé til kjósenda, almennings og sérlegra fulltrúa þeirra á fyrsta vinnudeginum. Kjósendur eru fjarri því að vera alltaf sáttir við „sína“ fulltrúa, hvort sem horft er á þingið eða til borgar- og bæjarstjórna. Borgarstjórn undir leiðsögn Dags B. Eggertssonar fór oftar en ekki á skjön við allt það sem hann hafði margoft lofað. En það gera fleiri. Þeir sem mesta ábyrgð hafa borið í ríkisstjórn hafa iðulega farið á bak við kjósendur og raunar allan almenning í landinu.

Það er lítið lýðræði í því, en ekki bætir úr skák sú ásýnd stjórnleysis eða jafnvel hreint stjórnleysi, sem hlýst af því þegar látið er reka á reiðanum af ótta við átök innan ríkisstjórnar og treyst á að „kerfið“ leysi vandann einhvern veginn.

Hvernig getur staðið á því að ríkisstjórnin steypti sér í slíkar ógöngur? Hún galopnaði þetta litla land fyrir fólki, sem margt vill ekkert hafa með þá að gera sem fyrir eru. Rétt nýkomið er öskrað á þá sem fyrir eru, eins og þingmenn þekkja öðrum betur. Þá er búið að eyðileggja skólakerfið vegna stjórnlauss innflutnings til landsins. Vegna hans er tilkynnt að nú sé nauðsynlegt að tvöfalda stærð ríkisfangelsisins! Ekkert af þessu kom þó á óvart. Af hverju sá ekki það fólk, sem var þó skyldugt til að stjórna með augu sín opin?

Ungviði okkar á þetta ekki skilið. Allur fjöldinn bíður þess aldrei bætur. Stór hluti af vegi þess til menntunar við forsvaranlegar aðstæður hefur verið eyðilagður. Dæmin lágu galopin fyrir allra augum. Ógöngur Svía, sem ráða illa við sín mál og geta ekki tryggt öryggi þeirra sem fyrir voru, blasa við öllum þeim sem vilja sjá. Það fólk var aldrei spurt. Foreldrar barnanna voru aldrei spurðir. Allur almenningur var ekki spurður.

Fullyrt er að þjóðin hafi „komið sér“ í þessar ógöngur án þess að þing og ríkisstjórn hefði kynnt nokkrum hvað stóð til. Áhugamenn og „álitsgjafar“ leiddu ráðamenn fram af brúninni. Hvernig gat þetta gerst? Það veit enginn hvaða einstaklingar felast í þessum taumlausa innflutningi.

Stærstu flokkar landsins hafa aldrei rætt þessi mál við flokksmenn og stuðningsmenn. Af hverju ekki? Landið var fámennt og það sem við getum tekið á móti með góðu breytir engu um stöðuna. Afríka stendur í ljósum logum. Haítí stendur á brún helvítis. En það er í tísku að flytja hingað fólk frá Gasa, þar sem stiginn var stríðsdans þegar konur og börn voru líflátin með hræðilegasta hætti handan landamæranna. Lagt er að jöfnu hverjir hófu stríð þar og hverjir neyddust til að bregðast við árásunum. Af hverju hefur enginn ríkisstjórnarflokkanna rætt þessar ógöngur við fólkið sitt?

Nýjasta dæmið um stjórnleysið og reiðarekið er í Landsbankanum, þar sem stjórnendur fóru fram með offorsi gegn eigendastefnu og samningi við eigendur. Bankastjórinn segir að ríkisstjórninni og almenningi komi málið ekki við. Bankinn sé ekki ríkisbanki heldur sé hann banki að verulegu leyti í eigu ríkisins. Af hverju leyfist þessu fólki að standa uppi í hárinu á fulltrúum fólksins í landinu? Það fólk hefur aldrei heyrt þennan bankastjóra nefndan. Af hverju er þessum bankastjóra með derring gagnvart ríkisstjórninni ekki falið að leita sér starfa annars staðar? Það getur ekki verið vandamálið og eflaust slegist um svona opinberan starfsmann.

Hugmyndir um armslengd frá ráðherra voru ekki ætlaðar til þess að veita starfsmönnum ríkisfyrirtækja olnbogarými til þess að fara sínu fram. Það er tímabært að kjörnir fulltrúar, sem almenningur velur og hafnar reglulega og með beinum hætti, verði aftur í aðalhlutverki á sviði hins opinbera, þeirra á valdið að vera og þeir þurfa að axla þá ábyrgð. Almannavaldinu má ekki „útvista“.