Í Búdapest
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
„Þetta er stórt tækifæri fyrir okkur sem lið,“ sagði Sverrir Ingi Ingason, miðvörður og varafyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, þegar Morgunblaðið ræddi við hann á hóteli liðsins í miðborg Búdapest í gær.
Íslenska liðið býr sig undir umspilsleikinn mikilvæga gegn Ísrael annað kvöld þar sem sigurliðið kemst í hreinan úrslitaleik gegn Úkraínu eða Bosníu um sæti í lokakeppni EM í Þýskalandi í sumar.
„Við höfum gengið í gegnum mikil kynslóðaskipti síðustu ár, erum með marga unga leikmenn, en samt erum við bara tveimur leikjum frá því að komast inn á stórmót. Það myndi gefa þessu liði mikið fyrir framtíðina að fara alla leið. Þetta eru stórir og þýðingarmiklir leikir, allt undir, og við erum bjartsýnir.
Við vitum að við höfum spilað vel og höfum líka spilað illa, þannig að það er undir okkur komið að vera tilbúnir á fimmtudaginn, og að því beinist öll okkar einbeiting fyrir leikinn gegn fínu liði Ísraels,“ sagði Sverrir Ingi, sem er þrítugur og hefur spilað 47 landsleiki.
Mitt að miðla reynslunni
Hann lék með Íslandi á EM 2016 og HM 2018, þá einn af yngri leikmönnum landsliðsins, en er núna í allt öðru hlutverki sem einn af þeim reyndustu í hópnum. Sverrir sagði að þátttakan í stórmótunum hefði verið sér dýrmæt reynsla.
„Það gaf mér rosalega mikið á sínum tíma að fá að vera partur af þessu liði og öðlast þessa reynslu. Maður lærði mikið og fann hvernig eldri leikmennirnir lögðu sig fram um að hjálpa okkur þessum yngri. Núna er ég hinum megin við borðið og það er mitt að miðla reynslu til ungu leikmannanna okkar eins og ég gekk sjálfur í gegnum.
Margir af þessum ungu leikmönnum hafa tekið stór skref, sérstaklega á þessu tímabili, eru komnir í stór hlutverk í sterkum liðum og eru líka komnir í landsliðið. Þetta er snemma í ferlinu hjá mörgum, fyrstu skref með landsliðinu og fyrstu skref með sterkum liðum, og þetta eru því spennandi tímar fyrir marga. Ég tel möguleika okkar fyrir leikinn við Ísrael fína og við erum fullir sjálfstrausts.“
Hefur vantað stöðugleika
Sérðu mun á yngri leikmönnunum núna og frá landsleikjunum í haust?
„Já, klárlega. Þeir eru líka að venjast betur umhverfinu og hópnum. Þetta eru góðir strákar og góðir leikmenn. Það getur verið öðruvísi fyrir þá að koma og spila með okkur í staðinn fyrir félagsliðinu, getur verið öðruvísi leikstíll og oft að spila við sterkari þjóðir.
Við reynum að halda í okkar gildi og gera vel það sem við viljum gera. Stöðugleikinn er klárlega eitthvað sem okkur hefur vantað, bæði á milli leikja, og svo höfum við átt góða og slæma fyrri og seinni hálfleiki á víxl. Við þurfum að ná góðum heilum 90 mínútum á fimmtudaginn til að eiga sem bestan séns.
Allt sem við gengum í gegnum í undankeppninni á síðasta ári, bæði gott og slæmt, kemur okkur til góða núna og það er gott að fá leikinn á þessum tímapunkti.
Við vitum hvar okkar styrkleikar liggja og sáum það ekki síst í síðasta glugga í nóvember þegar við áttum slæman leik í Slóvakíu og sýndum síðan góða frammistöðu í Portúgal. Við þurfum að taka með okkur það sem við gerðum vel í Portúgal og reyna að finna stöðugleikann,“ sagði Sverrir.
Tæknilega góðir
Hann kvaðst þekkja takmarkað til ísraelsku leikmannanna.
„Ég þekki voðalega lítið til þessara leikmanna. Þeir eru með unga og spennandi leikmenn eins og við, og með reynda menn líka, þannig að þeirra staða er líklega mjög svipuð og okkar. Ég býst við skemmtilegum leik tveggja jafnra liða. Við förum vel yfir þá fram að leik og það á ekkert að koma okkur sérstaklega á óvart. Við eigum að geta nýtt okkar styrkleika á móti þeim.
Á 90 mínútum í fótbolta getur allt gerst og úrslitin geta ráðist á smáatriðum. Við þurfum að vera 100 prósent í öllu sem við gerum og megum ekki gefa nein færi á okkur. Við höfum sýnt að við getum skorað og skapað færi gegn hvaða liði sem er.
Við vitum að margir Ísraelanna eru tæknilega góðir, flinkir, liprir og snöggir. Margir okkar yngri leikmanna hafa þessa eiginleika líka en við eigum líka að geta spilað fast og nýtt líkamlega styrkinn á móti þeim. Við höfum stærð og styrk fram yfir þá og ættum að geta nýtt það, sérstaklega í föstum leikatriðum.
Ísraelar voru ekkert frábærir í undankeppninni, þeir eru á svipuðum stað og við þannig að þetta verður áhugaverð viðureign,“ sagði Sverrir Ingi Ingason, leikmaður danska toppliðsins Midtjylland.