Ríkjandi Íslandsmeistararnir í Skautafélagi Reykjavíkur eru komnir í 1:0-forystu gegn Skautafélagi Akureyrar í úrslitaeinvígi liðanna um Íslandsmeistaratitil karla í íshokkí eftir 4:3-útisigur á deildarmeisturunum frá Akureyri í Skautahöllinni fyrir norðan í gærkvöldi.
Liðin mættust einnig í úrslitaeinvíginu á síðasta ári og þá vann Reykjavíkurliðið nokkuð óvæntan sigur, eftir að SA hafði orðið deildarmeistari með sannfærandi hætti.
SA vann einmitt deildina með 19 stiga mun í vetur, vann 21 af 24 leikjum, og var með yfirburði. SR varð í öðru sæti með 45 stig, en liðið vann 15 af 24 leikjum og tapaði níu. Þrátt fyrir það voru það SR-ingar sem tóku sigurinn með sér í rútuna heim frá Akureyri.
Kári Arnarsson var maður leiksins í gær, því hann skoraði þrjú fyrstu mörk SR-inga. Fyrst jafnaði hann í 1:1 á 19. mínútu eftir að Hafþór Sigrúnarson hafði komið SA yfir á 7. mínútu.
Kári kom sínum mönnum síðan í 2:1-forystu á 22. mínútu. Birkir Einarsson jafnaði fyrir SA á 35. mínútu en strax í næstu sókn fullkomnaði Kári þrennuna og kom gestunum í 3:2.
Petr Stepanek kom SR í tveggja marka forystu á 47. mínútu, en þremur mínútum síðar minnkaði Gunnar Arason muninn fyrir SA. Þrátt fyrir stórsókn Akureyringa tókst þeim ekki að jafna, en þeir voru hársbreidd frá því í lokin.
Annar leikur einvígisins fer fram í Skautahöll Reykjavíkur annað kvöld, en þrjá sigra þarf til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.
SR er komið í kjörstöðu og búið að taka heimavallarréttinn af Akureyringum, en ljóst er að SA-ingar hafa lítinn áhuga á að tapa í úrslitum annað árið í röð.