Sláturtíð Rekstur kjötafurðastöðva í landbúnaði hefur verið erfiður.
Sláturtíð Rekstur kjötafurðastöðva í landbúnaði hefur verið erfiður. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis leggur til að lögfest verði ákvæði sem gefur kjötafurðastöðvum í landbúnaði heimild með ákveðnum skilyrðum til að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli afurðastöðva varðandi framleiðslu…

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis leggur til að lögfest verði ákvæði sem gefur kjötafurðastöðvum í landbúnaði heimild með ákveðnum skilyrðum til að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli afurðastöðva varðandi framleiðslu einstakra kjötafurða og hafa samstarf til að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Þetta kemur fram í nefndaráliti meirihluta nefndarinnar og breytingatillögum við frumvarp matvælaráðherra um breytingar á búvörulögum og framleiðendafélög, sem er til meðferðar á Alþingi.

Í frumvarpinu er lagt til að fyrirtækjum sem eru í eigu eða undir meirihlutastjórn bænda sem frumframleiðenda landbúnaðarafurða verði heimilt að eiga með sér samstarf um afmarkaða þætti líkt og tíðkast í nágrannalöndum. Í umfjöllun atvinnuveganefndar kom fram í umsögnum að frumvarpið gengi ekki nægilega langt og að heppilegast væri að lögleiða sambærilega undanþágu frá samkeppnislögum fyrir afurðastöðvar í kjötiðnaði og nú er í gildi skv. 71. grein búvörulaga fyrir afurðastöðvar í mjólkuriðnaði. Telur meirihlutinn rétt að leggja til breytingar sem styðji við endurskipulagningu og hagræðingu í slátrun og kjötvinnslu. Með aukinni hagkvæmni í slátrun megi draga úr kostnaði við framleiðslu, sem sé afar mikilvægt við þær erfiðu aðstæður sem uppi eru í landbúnaði. Verði tillögurnar lögfestar gætu þær flýtt fyrir endurnýjun í sláturhúsum og ýtt undir úreldingu.

Getur skipt sköpum

Að sögn Þórarins Inga Péturssonar formanns nefndarinnar geta breytingarnar skipt sköpum í landbúnaðinum og rekstri kjötafurðastöðva. „Þetta gerir að verkum að þarna erum við komin með ákveðin verkfæri í hendurnar sem snúa að hagræðingu og skipulagningu og öðru sem snýr að þessum geira. Ekki er vanþörf á því nýtingin á þessum húsum er allt of lítil,“ segir hann.

Þórarinn segir að með breytingatillögunum taki meirihluti nefndarinnar aðeins stærra skref en lagt var upp með í frumvarpinu en tilgangur og markmiðið nefndarinnar og matælaráðherra séu þau sömu; „að afurðageirinn hér í kjöti takist á við breytta tíma. Það er vaxandi innflutningur á kjöti og menn þurfa að vera betur undirbúnir í samkeppnina sem er hér á markaði. Þetta snýst fyrst og fremst um það.“

Með umræddum breytingum er gert ráð fyrir ákveðnum undanþágum frá bannákvæðum í 10., 12. og 17. grein samkeppnislaga að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Tekur undanþáguheimildin eingöngu til afurðastöðva sem eru að hluta eða öllu leyti í eigu framleiðendafélaga bænda eða stýrt af bændum sem sinna slátrun og vinnslu á kjötvöru frá framleiðendum.

„Meirihlutinn leggur til að nýrri grein verði bætt við frumvarpið þar sem kveðið er á um að veitt verði almenn undanþága frá samkeppnislögum sem nái til sameininga og jafnframt samninga milli framleiðendafélaga varðandi verkaskiptingu og aðrar aðgerðir sem miða að því að halda kostnaði niðri. Tillaga meirihlutans endurspeglar orðalag 71. gr. búvörulaga, nr. 99/1993. Munu þannig hvorki samrunareglur né bannákvæði samkeppnislaga varðandi samráð eiga við verði heimildin nýtt. Það verði hins vegar hlutverk Samkeppniseftirlitsins að kanna hvort skilyrði 2. mgr. 71. gr. a séu uppfyllt,“ segir í nefndarálitinu.

Undanþágan nær hins vegar ekki til 11. greinar samkeppnislaga sem leggur bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Meirihlutinn telur að hagræðingin eigi að geta skilað sér í hærra afurðaverði til bænda án þess að hækka þurfi verð til neytenda. Þórarinn leggur áherslu á að með þessum breytingum eigi bændur kost á að verð til þeirra hækki og sömuleiðis verði hægt að halda áfram að bjóða neytendum upp á gæðavöru á góðu verði.

Höf.: Ómar Friðriksson