Peningastefnunefd Seðlabanka Íslands mun tilkynna um vaxtaákvörðun í dag.
Peningastefnunefd Seðlabanka Íslands mun tilkynna um vaxtaákvörðun í dag. — Morgunblaðið/Golli
Arion banki, IFS Greining og Hagfræðideild Landsbankans spá því að peningastefnunefnd muni tilkynna í dag um óbreytta stýrivexti. Íslandsbanki telur þó að nefndin muni ákveða að lækka stýrivexti um 25 punkta

Arion banki, IFS Greining og Hagfræðideild Landsbankans spá því að peningastefnunefnd muni tilkynna í dag um óbreytta stýrivexti. Íslandsbanki telur þó að nefndin muni ákveða að lækka stýrivexti um 25 punkta.

„Ég tel að peningastefnunefnd muni vilja hafa vaðið fyrir neðan sig og halda vöxtum óbreyttum um sinn. Það er ekki ýkja hættulegt að bíða aðeins með þessa ákvörðun en það væri ekki fýsilegt að hefja vaxtalækkunarferlið of snemma,“ segir Kári S. Friðriksson, hagfræðingur hjá Arion banka, í samtali við Morgunblaðið.

Kári segir að helstu rökin fyrir óbreyttum vöxtum séu að það hafi ekki mikið breyst frá síðustu vaxtaákvörðun.

„Vissulega er búið að semja við 2/3 hluta af almenna vinnumarkaðnum en það er 1/3 og hið opinbera eftir. Verðbólgan hefur verið umfram væntingar og ekki er að sjá að verðbólguvæntingar hafi farið lækkandi,“ segir Kári og bætir við að ákvörðunin um að hefja vaxtalækkunarferli sé stór.

„Það hefur meiri áhrif en hversu stór lækkunin er og ég tel að peningastefnunefnd vilji vanda til verka og sjá nýja hagspá sem gefin verður út í maí. Það er ekki nema einn og hálfur mánuður í næstu vaxtaákvörðun,“ segir Kári.

Í rökstuðningi IFS Greiningar fyrir óbreyttum vöxtum segir meðal annars að aðkoma ríkis og sveitarfélaga í nýgerðum kjarasamningum sé talsverð en heildarumfang aðgerða er metið á um 80 milljarða næstu 4 árin og birtist hún sérstaklega í gegnum tilfærslukerfin, þ.e. hækkun barnabóta og húsnæðisbóta, auk tímabundins vaxtastuðnings.

„Enn á hið opinbera eftir að sannfæra Seðlabankann (og almenning) um að það geti framkvæmt þær aðgerðir sem krafist er af því í samningunum með hagræðingum í stað þess að auka enn frekar á hallarekstur sem getur haft neikvæð áhrif á verðbólgu og þ.a.l. vexti,“ segir í spá IFS Greiningar.

Hagfræðideild Landsbankans spáir óbreyttum vöxtum en deildin telur þó að það kveði við bjartari tón í yfirlýsingunni og að vaxtalækkun kunni að vera handan við hornið.

Greining Íslandsbanka spáir því að vextir verði lækkaðir um 25 punkta. Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur bankans segir að það sem vegi þyngst í þeirri spá sé aukinn fyrirsjánleiki í launaþróun næstu árin. „Það var samið til langs tíma og samningarnir eru tiltölulega hagfelldir fyrir peningastjórnunina því það er búið að semja fyrir stóran hluta vinnumarkaðarins. Síðan fjölgar sífellt merkjum um að hagkerfið sé að kólna hratt,“ segir Jón Bjarki.

Spurður hvers vegna hann haldi ekki að Seðlabankinn taki stærra skref og lækki til dæmis um 50 punkta ef hann á annað borð hefji vaxtalækkunarferlið segir Jón Bjarki að hann telji ástæðu til að fara að með gát. „Það er tvennt í því að hefja vaxtalækkunarferlið. Annað er sjálf slökunin á vöxtunum en hitt er merkjasendingin. Hvort tveggja hefur áhrif á væntingar, á fjárfestingaákvarðanir og hvernig fólk skiptir milli neyslu og sparnaðar. Ég tel að það sé skynsamlegt að gefa merki án þess að slaka mikið á raunvöxtunum á sama tíma,“ segir Jón Bjarki að lokum.