Orri Björnsson, forstjóri Algalífs, segir vel ganga að selja aukna framleiðslu fyrirtækisins.
Orri Björnsson, forstjóri Algalífs, segir vel ganga að selja aukna framleiðslu fyrirtækisins. — Morgunblaðið/Eggert
  Það er ekki bara að orkan sé ódýrari heldur notum við svo miklu minni orku heldur en hinir til að fá eitt kíló af astaxanthíni.

Nýr samningur líftæknifyrirtækisins Algalífs mun tryggja fyrirtækinu milljarða tekjur á næstu árum. Jafnframt tryggir hann að fyrirtækið hefur selt stóran hluta af aukinni framleiðslu.

Algalíf framleiðir fæðubótarefnið astaxanthín úr örþörungum.

Fyrirtækið hóf framleiðslu á Ásbrú árið 2014 og er nú að taka í gagnið nýja og stærri verksmiðju við hlið þeirrar fyrri. Með því eykst framleiðslugetan úr 1.500 í 5.000 kíló á ári.

Astaxanthín er fituleysanlegt andoxunarefni sem þykir hafa ýmis heilsubætandi áhrif.

Samið til þriggja ára

Orri Björnsson, forstjóri Algalífs, segir nýja samninginn eiga sér árs aðdraganda.

„Ég er bundinn trúnaði um nafnið á fyrirtækinu en get sagt að um er að ræða mjög öflugt fyrirtæki í fæðubótarbransanum. Samningurinn er til þriggja ára með þeim ásetningi að hann verði lengri. Lágmarkskaupin eru 1.250 kíló af astaxanthíni á ári fyrir að verðmæti yfir 1.100 milljónir króna á ári en við ábyrgjumst að geta útvegað þeim efnið fyrir allt að 1.700 milljónir króna á ári. Magnið mun mögulega aukast en það veltur svolítið á því hvort við eigum laust efni af því að þetta er um fjórðungur af framleiðslunni hjá okkur eftir stækkun. Það er mjög líklegt að söluverðmætið verði meira en 1.100 milljónir á ári,“ segir Orri.

Skilar hreinum hagnaði

Hvaða þýðingu hefur þessi samningur?

„Mjög mikla. Hann tryggir að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að selja ekki nóg til að standa undir rekstrinum. Og það sem við eigum óselt í magni núna er hreinn hagnaður af því að við erum komin með næga sölu til að borga allan rekstrarkostnað og fjármagnskostnað.“

Þið ríflega þrefaldið framleiðsluna með nýju verksmiðjunni. Framleiðslan eykst um 3.500 kíló á ári. Hvernig gengur það?

„Við erum að taka nýju verksmiðjuna í notkun og þurfum að láta það ganga hratt.“

Hvernig gengur að selja hið aukna magn?

„Þessi samningur er mikilvægur liður í að tryggja kaupendur að þessari aukningu.“

Annar samningur í bígerð

Hvað með hinn óselda hluta þessarar framleiðsluaukningar?

„Með þessum samningi erum við búin að selja vel rúmlega helminginn af því sem við erum að framleiða á heilu ári og svo reiknum við með að skrifa undir samning við annað fyrirtæki á næstu vikum. Það er minni samningur upp á 250 til 500 milljónir á ári en til lengri tíma eða fimm ára.“

Hvenær reiknið þið með að geta selt alla framleiðslugetuna?

„Við reiknum með að það gangi núna af því að þessir tveir samningar taka svo mikinn hluta af aukningunni að við höfum ekki áhyggjur af því að geta ekki selt allt það sem við getum framleitt á næstu árum.“

Hvað eruð þið að selja samtals mikið af framleiðslunni með þessum tveimur samningum?

„Hér um bil 2.000 kíló og þá alls um 3.500 kíló með því sem við höfum þegar selt öðrum kaupendum. Við eigum því eftir að gera samninga um sölu að hámarki 1.500 til 2.000 kílóa á ári en við erum búin að efla söluteymið og erum sannfærð um að við náum að selja þetta magn.“

Munu nýju samningarnir skila ykkur umtalsverðum hagnaði?

„Við erum komin með góðan rekstrarhagnað á þessu ári og mjög góðan hagnað á næsta ári.“

Með góða dreifingu

Rætt er um neikvæð áhrif stríðsreksturs á efnahagskerfi heimsins. Hvaða áhrif hefur það á markaðinn með astaxanthín í heiminum?

„Salan fer að umtalsverðu leyti fram í Bandaríkjunum og Asíu en svo er drjúgur hluti hennar í Evrópu. Við erum með góða dreifingu á sölunni þannig að við erum ekki of háð einum markaði umfram annan. Við höfum því ekki beinar áhyggjur af því að efnahagslífið valdi vandræðum hjá okkur.“

Hvernig hefur starfsmannafjöldinn breyst með auknum umsvifum?

„Við vorum með 30 starfsmenn en með stækkuninni förum við í 80 starfsmenn.“

Hvernig hefur gengið að finna fólk?

„Það hefur gengið nokkuð vel og okkur hefur haldist vel á fólki. Staðan hefur verið nokkuð góð. Það er ekki hlaupið að því en okkur hefur tekist það.“

Hafa jarðhræringar við Grindavík haft áhrif á starfsfólkið?

„Nei. Þau vita um hvað þetta snýst og skilja stöðuna.“

Annað á leiðinni

Þið hafið verið í vaxtarham. Hafið aukið framleiðsluna. Hvað tekur svo við?

„Við erum að vinna að því að koma með annað efni á markað sem mun gerast í litlu magni á þessu ári og svo aðeins aukast á næsta ári. Það heitir fucoxanthín. Framleiðslan verður á litlum skala í ár og mun svo vaxa á næstu árum. Við eigum í viðræðum við fyrirtæki um að auka þá framleiðslu verulega. Framleiðslan er lítil núna en við gerum okkur vonir um að hún muni aukast nokkuð hratt á komandi árum og verði innan nokkurra ára orðin eitthvað sem skiptir verulegu máli fyrir okkur.“

Þannig að þið ætlið að halda þeirri framleiðslu hjá ykkur?

„Já. Við erum með mikinn styrkleika í framleiðslu og með forskot þar.“

Munuð þið þá þurfa að bæta við ykkur fólki?

„Við notum sama mannskap að hluta til en ef framleiðslan eykst verulega munum við þurfa að bæta við okkur fólki.“

Ekki áhyggjur af orkunni

Hvaða áhrif hefur staðan hjá HS Orku vegna jarðhræringanna?

„Ef illa færi hjá þeim verður erfiðara fyrir þá að útvega þá orku sem við erum búin að kaupa af þeim. En ég á nú von á því að við fáum að lokum orku í gegnum aðra orkuframleiðendur, af því að HS Orka gerir sitt besta til að standa við samninga og við erum það lítil að ég hef ekki áhyggjur af því að þeir geti ekki útvegað okkur orku.“

Hvernig getum við lýst upphaflegu verksmiðjunni og svo þeirri nýju?

„Gamla verksmiðjan er byggð inn í byggingar sem voru fyrir og voru ekki hannaðar fyrir svona verksmiðju. Hún var byggð í tveimur áföngum á árunum 2014 og 2016 og 2017. Þar vorum við að setja saman eins mikið gler og við gátum komið fyrir. En í nýju verksmiðjunni er í raun verksmiðjan fyrst hönnuð og svo eru byggingar byggðar utan um það sem búið var að hanna áður. Þannig er miklu betra flæði á vöru, framleiðslunni og fólkinu. Það þýðir meiri framleiðni út úr öllu kerfinu og er hagkvæmara og betra.“

Lækkar um tugi prósenta

Hvernig er framleiðslukostnaður á einingu að breytast?

„Hann er að þróast í mjög jákvæða átt. Hann lækkar um tugi prósenta með þessari nýju verksmiðju.“

Hvernig breytist orkuþörfin hjá Algalífi við að fara úr 1.500 kílóa framleiðslu á ári í 5.000 kílóa framleiðslu á ári?

„Hún fer úr hér um bil 2,2 MW í rúmlega 7 MW á klukkustund og miðast það við stöðuga notkun allt árið.“

Þú talaðir á sínum tíma um að Algalíf myndi jafnvel auka framleiðsluna í 10.000 kíló á ári? Hvernig standa þau áform?

„Við ætlum að klára þetta fyrst og ná andanum og svo förum við strax að hugsa um hvað verður í næstu stækkun. Við erum með samning sem styður þá stækkun og við erum með land við hliðina á núverandi verksmiðjum. Þannig að við höfum öll tækifæri til stækkunar en förum ekki af stað fyrr en við getum séð fyrir okkur að geta selt framleiðsluna örugglega.“

Horfa til ársins 2026

Þú sagðir í samtali við Morgunblaðið í mars í fyrra að þið stefnduð á skráningu innan þriggja ára. Hvernig standa þau áform?

„Það er enn hugmyndin að skrá félagið en það yrði þá frekar á árinu 2026 en 2025. Við viljum ná allavega einu rekstrarári þar sem allt er á fullu og þá fæst betri mynd af því hvernig fyrirtækið er.“

Þú sagðir við ViðskiptaMoggann fyrir ári hvernig þið væruð að sækja fram í Asíu og að það væru að skapast tækifæri á þeim mörkuðum. Nefndir að kaupendur í Asíu væru áhugasamir um notkun efnisins til að framleiða heilnæmari og verðmætari eldisvöru og væru Suður-Kórea, Taíland og Víetnam meðal markaða. Sölunetið í Evrópu væri að þéttast og áform um aukna sölu í Kína og Japan. Hvernig hefur þetta gengið eftir?

„Það hefur gengið vel. Nýi samningurinn er einmitt gerður við fyrirtæki í Asíu. Þannig að við getum sagt að það hafi gengið upp.“

Bjartar horfur í Kína

Þú nefndir stóra markaði í þessu samhengi. Suður-Kóreu, Taíland og Víetnam meðal annars?

„Salan í Suður-Kóreu hefur gengið vel. Það hefur líka gengið ágætlega í Taílandi og Víetnam og svo höfum við verið lengi í Kína og reiknum með að það fari að ganga hraðar núna. Síðan eru okkar vörur að fara á markað í Indlandi og Japan og um alla Asíu.“

Þú sagðir jafnframt fyrir ári að samkeppnisstaða verksmiðjunnar á Ásbrú hefði styrkst á undangengnum misserum. Meðal annars hefðu keppinautar í Evrópu þurft að draga úr framleiðslu vegna orkukreppunnar sem fylgdi innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022. Jafnframt hefði stórri verksmiðju í Síle verið lokað vegna erfiðra rekstraraðstæðna. Hvernig hefur samkeppnisstaðan breyst síðan þú lést þessi orð falla?

„Hún hefur lítið breyst. Við erum enn með gott forskot þar.“

Framleiðnin betri

Þannig að afkoman er betri en hjá keppinautum?

„Já og við erum líka með meiri vissu en áður að okkar framleiðni er betri. Við fáum bæði meira af astaxanthíni út á hvern lítra af kerfinu sem við erum með og við notum miklu minni orku til að framleiða hvert kíló. Þannig að það er ekki bara að orkan sé ódýrari heldur notum við svo miklu minni orku heldur en hinir til að fá eitt kíló af astaxanthíni og það er algjört lykilatriði. Því orkuverð getur farið upp á Íslandi eins og annars staðar og þótt við séum með langan samning sem enn eru 13 ár eftir af er það ekki eilífðarvernd. Hins vegar er það mjög gott að vera með meiri framleiðni en samkeppnisaðilar. Þ.e.a.s. að fá fleiri kíló af astaxanthíni á orkumagnið sem við notum.“

Betri en árið 2022

Þegar við töluðum saman á sínum tíma hafði salan dregist saman. Hún var 1,2 milljarðar 2022 en 1,5 milljarðar 2021. Hvernig var salan í fyrra?

„Hún var betri en árið 2022 en við hefðum gjarnan viljað selja meira. Hins vegar fer árið 2024 mjög vel af stað og þessir samningar sem við höfum náð bætast svo við þá sölu. Þeir eru nú fyrst virkilega að komast í gang. Þannig að síðustu tíu mánuðir þessa árs verða mjög góðir miðað við allt sem við höfum gert áður.“

Fer salan þá yfir þrjá milljarða í ár?

„Segjum að hún verði yfir tvo og hálfan milljarð.“

Nánast tvöfaldast

Hvernig er að fjármagna slíka uppbyggingu í þessu vaxtaumhverfi?

„Það er dýrt,“ segir Orri og hlær við. „Það er ekkert annað orð yfir það. Vextir hafa hækkað mjög mikið – hafa nánast tvöfaldast síðan við tókum ákvörðun um að fara af stað [með stækkunina með nýju verksmiðjunni] hvort sem það er í evrum, dollurum eða krónum.“

Þannig að það er þá kannski til vitnis um hversu vel reksturinn gengur að þið hafið engu að síður haldið áfram?

„Já. Við höfum mjög góðan hagnað út úr því sem við munum framleiða og þolum þetta. En það væri skemmtilegra að hafa lægri vexti.“

Hvað eru mörg fyrirtæki að framleiða astaxanthín í heiminum?

„Við getum sagt að það séu um tíu alvöru framleiðendur og svo eru margir minni aðilar sem koma og fara. Margir sem fara af stað og gefast síðan upp þegar þeir komast að því að það sé ekki alveg að ganga upp.“

Þannig að þið óttist ekki offramboð?

„Nei. Og þótt að það yrði offramboð erum við með lægsta framleiðslukostnaðinn. Þannig að við erum þau síðustu sem finna fyrir því ef verð fer niður.“

Um ári á eftir áætlun

Loks sagðirðu í samtali við ViðskiptaMoggann í febrúar 2022 að verksmiðjan yrði 25 milljarða virði þegar stækkun lyki árið 2023. Nú er komið fram á árið 2024 og þú ert að spá því að salan verði um tveir og hálfur milljarður í ár. Hversu verðmætt er fyrirtækið þá núna?

„Af ýmsum ástæðum erum við hér um bil einu ári á eftir með að klára þessa stækkun. Þannig að allt sem við höfum áætlað að framkvæma er um það bil ári á eftir áætlun og það er meira og minna vegna þess að við réðum ekki við stöðuna. Birgjar voru seinir til og svo framvegis. Ég held að verðmæti félagsins hafi síst minnkað. Við erum með mjög góða stöðu fram á við og ef salan verður sem áður segir tveir og hálfur milljarður í ár gefur það ekki rétta mynd. Það gefur miklu réttari mynd af rekstrinum þegar við erum komin á full afköst og búin að semja um allt en þá verður salan um 5 milljarðar og framlegðin 2-3 milljarðar á ári,“ segir Orri Björnsson, forstjóri Algalífs, að lokum.

Ýmsar afurðir mögulegar

Hjónin Örn Almarsson og Brynja Einarsdóttir hafa ásamt frumkvöðli á Bretlandi, John Lucas, stofnað lyfjaþróunarfyrirtækið Axelyf ehf. Það mun hafa aðsetur í Lækjargötu í Hafnarfirði og einbeitir fyrirtækið sér að þróun lyfja úr astaxanthíni sem framleitt er af Algalífi á Ásbrú.

Orri Björnsson, forstjóri Algalífs, segir aðspurður að fleiri slík verkefni séu í undirbúningi um vinnslu afurða og lyfja úr astaxanthíni.

„Það eru minni verkefni í gangi en Axelyf er sennilega með því öflugasta sem hefur gerst í þessum hluta starfseminnar. Við höfum í því fyrirtæki mjög gott fólk sem veit hvað það er að gera.

Þannig að ég hef mikla trú á að það muni ganga upp hjá þeim.“

Þannig að fleiri aðilar sjá tækifæri í virðisaukandi framleiðslu?

„Já, og þessi lyfjapæling er þá frekar vaxandi en hitt.“