Hetjan Bandaríkjamaðurinn Remy Martin fór á kostum fyrir Keflavík og skoraði 39 stig í undanúrslitum gegn Stjörnunni í Laugardalshöllinni.
Hetjan Bandaríkjamaðurinn Remy Martin fór á kostum fyrir Keflavík og skoraði 39 stig í undanúrslitum gegn Stjörnunni í Laugardalshöllinni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tindastóll og Keflavík leika til úrslita í bikarkeppni karla í körfubolta á laugardaginn kemur eftir að liðin fögnuðu sigri í undanúrslitum í Laugardalshöllinni í gærkvöldi. Keflavík hafði betur gegn Stjörnunni, 113:94, í seinni leiknum

Bikarkeppnin

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Tindastóll og Keflavík leika til úrslita í bikarkeppni karla í körfubolta á laugardaginn kemur eftir að liðin fögnuðu sigri í undanúrslitum í Laugardalshöllinni í gærkvöldi.

Keflavík hafði betur gegn Stjörnunni, 113:94, í seinni leiknum. Keflavík hefur sex sinnum orðið bikarmeistari, en er aðeins á leiðinni í úrslit í annað sinn frá árinu 2004. Keflavík vann einmitt Tindastól í úrslitaleik liðanna árið 2012.

Stjarnan hefur verið mesta bikarlið landsins undanfarin ár en árið 2024 verður fyrsta árið frá 2018 sem Stjörnumenn leika ekki til úrslita. Þá varð Tindastóll einmitt bikarmeistari í fyrsta skipti.

Úrslitaleikurinn er kærkominn fyrir Keflavík, sem er stórveldi í íslenskum körfubolta. Uppskeran hefur verið rýr í Bítlabænum síðustu ár. Keflavík hefur einu sinni leikið til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn frá árinu 2010 og aðeins einu sinni farið í bikarúrslit undanfarinn rúman áratug. Stuðningsmönnum Keflavíkur finnst kominn tími til að sjá bikar á lofti.

Keflvíkingar voru með yfirhöndina stærstan hluta leiks í gær. Var staðan í hálfleik 50:41 og stóðust Keflvíkingar öll áhlaup Stjörnunnar og sigldu að lokum sannfærandi sigri í höfn.

Bandaríkjamaðurinn Remy Martin fór á kostum fyrir Keflavík og skoraði 39 stig. Hann gaf einnig sex stoðsendingar. Marek Dolezaj átti einnig mjög góðan leik og skilaði 26 stigum.

Hjá Stjörnunni kom Júlíus Orri Ágústsson mjög sterkur af bekknum og skoraði 24 stig. Þar á eftir var íslenski landsliðsmaðurinn Ægir Þór Steinarsson með 18 stig, sjö fráköst og níu stoðsendingar.

Þriðji úrslitaleikur Stólanna

Í fyrri leik gærkvöldsins vann Tindastóll sannfærandi sigur á Álftanesi, 90:72, en Álftanes var í undanúrslitum í bikar í fyrsta skipti.

Tindastóll var með yfirhöndina nánast allan tímann en Álftanesi tókst að minnka muninn í tvö stig með góðum þriðja leikhluta, 65:63.

Íslandsmeistararnir unnu hins vegar fjórða og síðasta leikhlutann 25:9 og leikinn sannfærandi í leiðinni.

Sigtryggur Arnar Björnsson skoraði 22 stig fyrir Tindastól og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson gerði 18 stig og tók 12 fráköst. Norbertas Giga skoraði 24 stig og tók 11 fráköst fyrir Álftanes. Ville Tahvanainen bætti við 16 stigum.

Skagfirðingar eru komnir í úrslit í þriðja sinn. Tindastólsliðið tapaði naumlega fyrir Keflavík árið 2012 en vann sannfærandi sigur á KR, 90:67, í bikarúrslitum árið 2018 og varð bikarmeistari í fyrsta og eina skiptið í sögunni.

Tindastóll varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti á síðustu leiktíð og ætlar sér að bæta þriðja stóra titlinum í hús á sjö árum.

Tindastóll á mikið hrós skilið fyrir þann styrk sem það liðið sýnt. Þjálfarinn Pavel Ermolinskij er í veikindaleyfi og gengið í deildinni hefur ekki verið upp á marga fiska. Gæti liðið jafnvel misst af sæti í úrslitakeppninni ef allt fer á versta veg. Þrátt fyrir mótlæti í vetur var Tindastóll sterkari aðilinn þegar mest var undir og tryggði sér verðskuldað sæti í bikarúrslitum.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson