Felix Eyjólfsson fæddist í Reykjavík 5. apríl 1949. Hann lést á Landspítala – háskólasjúkrahúsi 3. mars 2024.

Foreldrar Felix voru hjónin Eyjólfur Arthúrsson málarameistari, f. 7. febrúar 1926, d. 10. janúar 2010, og Guðrún Ingimundardóttir, f. 11. apríl 1929, d. 6. mars 1963. Seinni kona Eyjólfs var Hrefna Svava Þorsteinsdóttir, f. 22. janúar 1932, d. 25. janúar 2007.

Felix var átti sjö systkini: Arthúr Karl, f. 20.12. 1946, d. 22.3. 2021, Önnu, f. 2.4. 1948, Þorstein Eyvar, 13.6. 1950, d. 7.7. 1994, Ingimund, f. 28.6. 1951, d. 22.1. 2012, Guðrúnu Gerði, f. 15.3. 1955, Ástu Steinunni, f. 26.3. 1956, og Óskar, f. 10.1. 1962.

Felix var um tíma í sambúð með Hrafnhildi Helgadóttur og eignuðust þau soninn Helga Þorgeir Felixson. Hann er kvæntur Katherine Dabe og á tvö börn; Benjamín Magnús Dabe Helgason og Þorgeir Dabe Helgason. Þau búa og starfa í Seattle í Bandaríkjunum.

Útför Felix fór fram frá Fossvogskapellu 19. mars 2024.

Minningarbrotin eru um góðan dreng og bróður sem elskaði listina og lifði fyrir hana. Felix hafði unun af því að taka að sér smáhlutverk í kvikmyndum og auglýsingum, honum þótti gott að vera innan um þá sem tengdust þessum hluta listheimsins. Hann var mikill áhugamaður um gamlar kvikmyndir og kynnti sér ýmislegt úr Kvikmyndasafni Íslands. Hann stúderaði verk meistaranna í málverkinu, fór mikið á sýningar og málaði sjálfur myndir. Felix hélt sýningar á verkum sínum á hinum ýmsu stöðum auk sem verk eftir hann eru til í nokkrum opinberum stofnunum og í einkaeigu.

Hans starf auk listarinnar var að hlúa að sjúkum en hann starfaði í mörg ár sem sjúkraliði í heilbrigðisgeiranum og tók auka vaktir til haustsins 2023.

Draumur Felix var að verða flugmaður, en í prófi þar að lútandi kom í ljós að hann var heyrnarskertur og þannig endaði sá draumur. Ferðalög voru Felix hugleikin og ferðaðist hann meðan hann gat til fjarlægra landa og var hann oft að plana ferðir í huganum. Nýjasti draumurinn var að fara til Rómar að skoða fornmuni, byggingar og listina. Auk ferða erlendis ferðaðist hann mikið innanlands með veiðistöng og nestisbox. Felix elskaði landið okkar og sögu þess enda var hann oftast sá sem svaraði strax spurningum pabba um staði og staðarhætti í einum af fjölmörgum spurningaleikjum sem pabbi okkar fann upp á. Bræðurnir voru þjálfaðir í hlaupi og boxi þegar við vorum lítil enda pabbi svo ungur þegar við vorum að alast upp. Hann var 36 ára þegar hann missti mömmu okkar frá átta börnum en hún dó 33 ára.

Felix bjó nokkur ár í Kaupmannahöfn og var í tengslum við ýmsa listamenn sem sóttu þangað þar sem frelsið var á hippatímanum svokallaða.

Eftir heimkomuna lá leið hans í ýmsar áttir, hann málaði með pabba, fór á sjóinn og vann ýmis tilfallandi störf í landi þar til hann fór að vinna á Kleppi en þá lá leið hans til starfa fyrir þá sem glímdu við andleg veikindi. Tvisvar sinnum lenti Felix í lífsháska þegar hann féll útbyrðis, ekki bara einu sinni heldur tvisvar á togara sem hann var á um tíma og hann fékk berkla upp úr þeim hremmingum og varð aldrei samur til heilsunnar á eftir. Hann var slæmur í lungum alla tíð eftir óhappið.

Við fjölskylda mín þökkum Felix fyrir samfylgdina og samveruna gegnum lífið en við áttum samleið með hléum frá því ég var eins árs gömul.

Anna Eyjólfsdóttir.