Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Charles Michel, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sagði í gær að aðildarríki Evrópusambandsins yrðu að senda Úkraínumönnum skotfæri oftar og í meira magni til þess að gera þeim kleift að takast á við Rússa. Sagði Michel að Rússar hefðu nú yfirhöndina í skotfæraframleiðslu, og að það þyrfti að yfirstíga þann mun.
Hann sagði jafnframt að nauðsynlegt væri að segja íbúum Evrópusambandsríkjanna sannleikann um þá stríðsógn sem nú ríkti í Evrópu. „Innrás Rússa í Úkraínu er áskorun á okkur öll. Ég er algjörlega sannfærður um að þetta sé alvarleg ógn,“ sagði Michel, en hann varaði við því í fyrradag að ríki Evrópu yrðu að koma hagkerfum sínum í „stríðsham“ til þess að undirbúa varnir sínar gegn mögulegri árás Rússa.
Taki ábyrgð á eigin öryggi
Varnaðarorð Michels birtust í aðsendri grein sem birt var í yfir 20 dagblöðum í aðildarríkjum sambandsins, sem og á heimasíðunni euractiv.com. Þar kallaði Michel eftir því að ESB-ríkin tækju ábyrgð á öryggi sínu, þar sem ljóst væri að Rússland myndi ekki hætta landvinningum sínum, jafnvel þótt Úkraína félli.
„Rússland er alvarleg hernaðarógn við álfu okkar og öryggi heimsins,“ sagði Michel og bætti við að ef ESB næði ekki að svara innrás Rússa í Úkraínu og veita Úkraínumönnum nægan stuðning til þess að stöðva þá yrðu aðildarríki sambandsins næsta skotmarkið.
Michel benti á að þó að hergagnaiðnaður Evrópu hefði aukið framleiðslugetu sína um 50% frá því að innrás Rússa hófst, væri enn þörf á frekari hergögnum. Kallaði hann eftir því að aðildarríkin tvöfölduðu hergagnakaup sín frá evrópskum framleiðendum fyrir árið 2030, sem myndi veita þeim meiri fyrirsjáanleika í framleiðslu sinni og hvetja þá til þess að bæta í hana.
Þá þyrftu ríki Evrópu að tryggja að á sama tíma og hergagnaframleiðsla væri aukin yrði Úkraínumönnum tryggður allur sá stuðningur sem þeir þyrftu á að halda til þess að ná árangri á vígvellinum. Sagði Michel þörf á að beita fjárlögum Evrópusambandsins til þess að kaupa hergögn fyrir Úkraínu, og lagði hann einnig til að þær fjármagnstekjur sem hefðu orðið til af frystum eignum Rússa yrðu notaðar í þeim tilgangi.
Hann nefndi einnig þann möguleika að gefa út „varnarmálaskuldabréf“ til þess að auka fjárfestingu í hergagnaiðnaðinum, auk þess sem ástæða væri til að endurskoða stefnu evrópska fjárfestingabankans varðandi varnarmál. Vísaði Michel í lok greinar sinnar í þekkt rómverskt orðatiltæki: „Ef við viljum frið, verðum við að undirbúa okkur fyrir stríð.“
Fundu fleiri skotfæri
Aðildarríki ESB samþykktu sama dag og greinin kom út að senda Úkraínuher fimm milljarða evra í viðbót í hernaðaraðstoð, eða sem nemur um 744 milljörðum íslenskra króna. Þá mun leiðtogaráð ESB funda á morgun, fimmtudag, í Brussel undir forsæti Michels og ræða þar næstu skref í stuðningi aðildarríkjanna við Úkraínu. Michel sagði í gær að þar yrði reynt að stíga mjög ákveðin skref til að styðja frekar við Úkraínu.
Josep Borrell utanríkismálastjóri ESB sagði að í dag yrði lögð fram áætlun um að tekjur af frystum eignum Rússa innan ESB yrðu nýttar til að styðja við Úkraínumenn, líkt og Michel lagði til í grein sinni. Sagði Borrell að ef aðildarríkin samþykktu það, væri þar um að ræða um þrjá milljarða evra á hverju ári sem gætu nýst Úkraínumönnum, eða sem nemur um 446 milljörðum íslenskra króna.
Þykir þetta greiðfærari leið til þess að nýta hinar frystu eigur en að gera þær alfarið upptækar, þar sem óljóst er um lögmæti slíkra aðgerða.
Gert er ráð fyrir að skotfæraskortur Úkraínumanna verði einnig ræddur á leiðtogafundinum, en enn er þess beðið að fulltrúadeild Bandaríkjaþings afgreiði frumvarp öldungadeildarinnar um hernaðaraðstoð við Úkraínu, Ísrael og Taívan. Hafa um 60 milljarðar bandaríkjadala verið eyrnamerktir Úkraínumönnum í frumvarpinu, en þar munar mestu um skotfæri í stórskotalið.
Tékkar hafa að undanförnu tekið forystu meðal Evrópuríkja í að útvega slík skotfæri, sem eru fyrir 155 mm hlaupvídd, og hafa þeir þegar náð með aðstoð annarra ríkja að kaupa um 800.000 slík skotfæri frá hergagnaframleiðendum víða um veröld. Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal (WSJ) greindi frá því um helgina að Tékkar hefðu fundið um 700.000 skotfæri til viðbótar en ekki fest kaup á þeim ennþá.
Kom fram í umfjöllun WSJ að Tékkar hefðu þar meðal annars leitað til fyrrverandi bandamanna sinna á tímum kalda stríðsins, en þá var Tékkóslóvakía undir járnhæl Sovétríkjanna. Hafa Tékkar því ekki viljað hafa hátt um hvaðan sum skotfærin koma, en talið er að þar á meðal séu ríki sem teljast vinveitt Rússum. Þá áætla tékkneskir embættismenn samkvæmt umfjöllun blaðsins að heildarkostnaðurinn við að tryggja 1.500.000 skotfæri handa Úkraínumönnum hlaupi á um þremur milljörðum evra.
Áætlað er að Úkraínumenn muni fá fyrstu skotfærasendingarnar frá Tékklandi á næstu vikum, en Belgar, Frakkar, Hollendingar, Kanadamenn, Litháar, Norðmenn, Svíar, Portúgalir og Þjóðverjar hafa lýst yfir stuðningi sínum við framtak Tékka. Antti Häkkänen varnarmálaráðherra Finnlands tilkynnti í gær að Finnar myndu einnig taka þátt og styrkja verkefnið með 30 milljónum evra.
Segjast sækja fram í austri
Rússneska varnarmálaráðuneytið sagðist í gær hafa náð að hertaka þorpið Orlívka, en það er í nágrenni Avdívka sem féll Rússum í hendur fyrr á árinu. Úkraínumenn tjáðu sig ekki um yfirlýsingu Rússa í gær, en þorpið er eitt af nokkrum vestan við Avdívka þar sem þeir ætluðu sér að reyna að mynda nýja varnarlínu.
Rússneskir andspyrnuhópar, sem barist hafa með Úkraínumönnum, hafa haldið áfram árásum sínum á landamærahéruð Rússlands, einkum Belgorod-hérað og Kúrsk-hérað. Vjatsjéslav Gladkov, héraðsstjóri í Belgorod, sagði í gær að 16 manns hefðu fallið í héraðinu í árásum uppreisnarmanna og fyrirskipaði hann brottflutning um 9.000 barna frá héraðinu vegna árásanna.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti fundaði í gær með yfirmönnum rússnesku leyniþjónustunnar FSB. Ræddi hann þar árásir uppreisnarhópanna, og sagði að rússneski herinn hefði valdið miklu mannfalli meðal þeirra. Kallaði Pútín þá Rússa sem hefðu snúist á sveif með Úkraínumönnum „úrþvætti“ og hét því að þeim yrði refsað.