Áform Svona sjá íbúar hverfisins að svæðið gæti nýst. Á lóðinni gæti verið lystigarður og aðstaða til útivistar. Húsnæðið gæti verið samkomustaður.
Áform Svona sjá íbúar hverfisins að svæðið gæti nýst. Á lóðinni gæti verið lystigarður og aðstaða til útivistar. Húsnæðið gæti verið samkomustaður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íbúar í Vesturbæ Reykjavíkur hafa sýnt tillögu um að lóðin við Ægisíðu 102 verði nýtt sem útivistarsvæði og fyrir menningartengda þjónustu mikinn áhuga. Tillagan er komin frá íbúum á svæðinu sem eru ósáttir við þau áform að Festi fái lóðina gefins…

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Íbúar í Vesturbæ Reykjavíkur hafa sýnt tillögu um að lóðin við Ægisíðu 102 verði nýtt sem útivistarsvæði og fyrir menningartengda þjónustu mikinn áhuga. Tillagan er komin frá íbúum á svæðinu sem eru ósáttir við þau áform að Festi fái lóðina gefins til að reisa þar stór fjölbýlishús og að bensínstöðin verði rifin þrátt fyrir óskir um friðlýsingu af hálfu Minjastofnunar og Borgarsögusafns. Fjörlegar umræður hafa sprottið upp í ýmsum hópum á samfélagsmiðlum og mikill vilji virðist vera fyrir því að slíkar hugmyndir fái brautargengi.

„Við höfum fengið eintóm jákvæð viðbrögð íbúa. Þá höfum við talað við alla borgarfulltrúa í minnihlutanum og þeir hafa tekið vel í þessar hugmyndir. Við höfum reynt að ná tali af borgarstjóra en það hefur ekki tekist ennþá,“ segir Sólveig Nikulásdóttir, einn forsprakki þessara hugmynda. Þær ganga út á að nýta húsnæði bensínstöðvarinnar, sem brátt mun víkja, sem einhvers konar samfélagsmiðstöð eða samkomustað og að svæðið í kringum bensínstöðina og dekkjaverkstæðið geti nýst til ýmiss konar útivistar.

Í tillögunum kemur fram að 500 fermetra hús dekkjaverkstæðisins gæti nýst til fyrirlestrahalds, listsýninga, kennslu og jógaiðkunar svo dæmi séu tekin. Skálinn þar sem afgreiðsla bensínstöðvarinnar er í dag gæti orðið móttaka og lítið kaffihús.

Festi þarf ekki neina umbun

Sólveig segir að íbúum á svæðinu hafi brugðið árið 2021 þegar áform um að bensínstöðin ætti að víkja voru kynnt og Festi birti frumáætlun um byggingar á reitnum. „Þær voru náttúrlega stjarnfræðilegar, fleiri tugir íbúða á litlum reit. Þá fóru að vakna áhyggjur hjá íbúum og við skoðuðum málið. Auðvitað vorum við steinhissa að sjá að borgin gerði samninga við einkafyrirtæki um að afhenda lóðina endurgjaldslaust þegar stutt var í að leigusamningur rynni út. Sér í lagi þegar Festi fær í staðinn dælusvæði úti á Granda. Þar er meiri umferð og betri staðsetning fyrir bensíndælur. Þetta fyrirtæki þarf ekki neina umbun.“

Sólveig segir aðspurð að fólk á svæðinu vonist til að hægt sé að bakka út úr umræddum samningum og framtíðaráform umræddrar lóðar verði endurskoðuð. „Við viljum ekki sjá það sem hefur gerst víða í borginni þar sem farið hefur verið fram í óþökk íbúa með framkvæmdir. Vesturbærinn er nú þegar næstþéttbýlasta svæði borgarinnar og við þurfum ekki á fleiri íbúðum að halda. Það er engin reynsla komin á þéttinguna sem nú stendur yfir og auk þess liggur fyrir að byggt verður við KR-völlinn og á bensínstöðvarlóð við Birkimel. Á meðan eru skólarnir að springa og endalaus skortur á leikskólaplássum,“ segir Sólveig.

Rými fyrir alls konar útiveru

Hún segir að sárlega vanti græn svæði í Vesturbæinn. „Við höfum bara Ægisíðuna. Þar er gaman að ganga en þú staldrar ekki við. Hún er ekki samkomu- eða dvalarstaður. Á þessari lóð er góður staður fyrir alls konar útiveru sem getur til dæmis nýst hlaupahópum og hjólreiðafólki. Svo getur verið einhver starfsemi í húsinu. Það væri gaman að sjá það fæðast hjá íbúunum sjálfum hvað eigi að vera þarna.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon