Nöfn Nú má bera millinafnið Snæfellsjökuls, ekki sem eiginnafn.
Nöfn Nú má bera millinafnið Snæfellsjökuls, ekki sem eiginnafn. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Mannanafnanefnd kom nýverið saman til fundar til að úrskurða um nokkrar beiðnir um eiginnöfn og millinöfn. Meðal nafna sem nefndin hafnaði eru Universe, Byte, Aftur og eiginnafnið Snæfellsjökuls. Hins vegar var Snæfellsjökuls samþykkt sem millinafn

Mannanafnanefnd kom nýverið saman til fundar til að úrskurða um nokkrar beiðnir um eiginnöfn og millinöfn. Meðal nafna sem nefndin hafnaði eru Universe, Byte, Aftur og eiginnafnið Snæfellsjökuls. Hins vegar var Snæfellsjökuls samþykkt sem millinafn.

Beiðni um Aftur sem eiginnafn og millinafn var hafnað. Nefndin segir nafnið ekki uppfylla skilyrði um íslenskt málkerfi, það geti orðið nafnbera til ama og engin hefð sé fyrir því að leiða eiginnafn út frá atviksorði eins og aftur.

Meðal þeirra nafna sem voru samþykkt er karlkynsnafnið Luka. Segir í úrskurðinum að níu einstaklingar beri þetta nafn í Þjóðskrá, sá elsti fæddur 2005. Um er að ræða króatískt eða serbneskt tökunafn og telur mannanafnanefnd að hefð sé fyrir þessum rithætti, miðað við vinnureglur nefndarinnar. Kvenkynsnafnið Náttrún var samþykkt. Nefndin segir nafnið taka íslenskri beygingu í eignarfalli og telst það að öðru leyti uppfylla ákvæði laga um mannanöfn. Einnig voru eiginnöfnin Eymir og Terra samþykkt. Eitt millinafn var samþykkt, eða Konn, sem nefndin segir komið af íslenskum orðstofni af nafninu Konráð.

Nefndin taldi engin skilyrði uppfyllt til að leyfa Snæfellsjökuls sem eiginnafn en hins vegar uppfyllti það skilyrði sem millinafn. Ekki væri um ættarnafn að ræða.