Hælisleitendur Kostnaður vegna talsmannaþjónustu er umtalsverður.
Hælisleitendur Kostnaður vegna talsmannaþjónustu er umtalsverður. — Morgunblaðið/Eggert
Rauði krossinn fékk greidda tæpa 1,6 milljarða króna úr ríkissjóði á árunum 2018 til aprílmánaðar 2022, vegna réttargæslu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Lögum samkvæmt á umsækjandi um slíka vernd rétt á að Útlendingastofnun skipi honum…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Rauði krossinn fékk greidda tæpa 1,6 milljarða króna úr ríkissjóði á árunum 2018 til aprílmánaðar 2022, vegna réttargæslu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Lögum samkvæmt á umsækjandi um slíka vernd rétt á að Útlendingastofnun skipi honum talsmann við meðferð máls viðkomandi hjá stjórnvöldum, þ.e. Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála. Rétturinn tekur þó ekki til málsreksturs fyrir dómstólum.

Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar alþingismanns sem dreift hefur verið á Alþingi.

Í svarinu kemur fram að árið 2018 hafi samningur verið gerður á milli ráðuneytisins, Útlendingastofnunar og Rauða krossins um aðstoð og þjónustu við einstaklinga sem sótt höfðu um alþjóðlega vernd hér á landi. Samningurinn var gerður að undangengnu útboði og gilti til þriggja ára. Hann rann út í febrúar 2021 og var þá framlengdur til eins árs og síðan út apríl 2022.

Á grundvelli samningsins fékk Rauði krossinn greiddan fastan kostnað við 15 stöðugildi lögfræðinga sem sinntu hlutverki talsmanna, auk kostnaðar vegna 6,25 stöðugilda vegna félagsþjónustu. Miðuðust árlegar greiðslur við þjónustu við allt að 1.200 umsækjendur um vernd á ári. Alls nutu um 4.000 manns þessarar þjónustu.

Eftir að samningurinn við Rauða krossinn rann út var talsmannaþjónusta fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd boðin út og hámarksfjöldi vinnustunda tilgreindur í útboðsskilmálum. Um 100 talsmenn eru að jafnaði skráðir á lista Útlendingastofnunar. Miðað er við að umfang þjónustu talsmanns sé 7-15 klukkustundir fyrir fullorðinn einstakling og þóknun fyrir hverja byrjaða klukkustund 16.500 krónur án vsk. Kostnaður vegna þessa nam um 180 milljónum 2022.

Greitt til RKÍ eftir árum

Kostnaður við réttargæslu umsækjenda um alþjóðlega vernd:

2018 419.635.729

2019 366.939.109

2020 319.128.326

2021 338.782.949

2022 123.305.752

Samtals 1.567.791.865

Greiðslur árið 2022 taka til janúar til og með apríl

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson