Fræðimenn Már Jónsson og Jón Torfason hafa tekið saman merka bók.
Fræðimenn Már Jónsson og Jón Torfason hafa tekið saman merka bók. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Töluvert hefur verið fjallað um morðin á Sjöundá og Illugastöðum og aftökurnar í kjölfarið. Frumgögnin, skráðir dómar í dómabók, koma nú í fyrsta sinn fram í bókinni Þessi frægu glæpamál: Morðin á Sjöundá og Illugastöðum, sem Jón Torfason,…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Töluvert hefur verið fjallað um morðin á Sjöundá og Illugastöðum og aftökurnar í kjölfarið. Frumgögnin, skráðir dómar í dómabók, koma nú í fyrsta sinn fram í bókinni Þessi frægu glæpamál: Morðin á Sjöundá og Illugastöðum, sem Jón Torfason, fyrrverandi skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands, og Már Jónsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, tóku saman og Háskólaútgáfan gaf út 14. mars sl., sama dag og morðin á Illugastöðum voru framin 1828. Athygli vekur að meint afrit úr dómabók morðanna á Sjöundá stangast á við frumgögnin.

Bókin er númer 33 í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar. Már segist hafa haft áhuga á málinu á Sjöundá í 40 ár og lengi ætlað að taka saman efni í bók. Jón hafi í mörg ár rannsakað Illugastaðamálið og þeir hafi ákveðið að sameina krafta sína. „Okkur fannst kominn tími til að fólk gæti lesið textann, sem er næst þessum málum, yfirheyrslurnar.“

Tvenn hjón bjuggu ásamt börnum sínum á Sjöundá á Rauðasandi, þegar Guðrún Egilsdóttir, kona Bjarna Bjarnasonar, og Jón Þorgrímsson, maður Steinunnar Sveinsdóttur, voru myrt, hann 1. apríl og hún 5. júní 1802. Eftirlifandi makar voru dæmdir til dauða fyrir morðin. Steinunn lést í fangahúsinu í Reykjavík 31. ágúst 1805 og var dysjuð á Skólavörðuholti. Bjarni var hálshöggvinn í Noregi 5. október sama ár.

Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir voru tekin af lífi í Vatnsdalshólum í Austur-Húnavatnssýslu 12. janúar 1830 fyrir að myrða Natan Ketilsson, bónda á Illugastöðum, og Pétur Jónsson, vinnumann á bænum, aðfaranótt 14. mars 1828. Þetta var síðasta aftakan á Íslandi. Sigríður Guðmundsdóttir var einnig dæmd til dauða en dómi hennar var breytt í lífstíðarfangelsi. Daníel Guðmundsson vinnumaður og Þorbjörg Halldórsdóttir, móðir Friðriks, voru einnig dæmd.

Már segir að þróunin í umfjöllun um Illugastaðamálið hafi verið óheppileg. Gísli Konráðsson og Brynjólfur Jónsson hafi skrifað frásagnir á seinni hluta 19. aldar sem hafi að miklu leyti verið byggðar á munnmælum og sögusögnum auk þess sem þeir hafi bætt ýmsu við frá eigin brjósti. Aðrir hafi haft þær til hliðsjónar. Þorgeir Þorgeirsson hafi komist næst því að fara eftir dómskjölunum í bókinni Yfirvaldinu. Eggert Þór Bernharðsson og Þórunn Valdimarsdóttir hafi endursagt söguna mjög vel. Þeir Jón bæti staðreyndum við hana, segi til dæmis frá þjófnaðarmálum, og stækki þannig sviðið. Við lesturinn aukist skilningur á kjörum og aðstæðum hinna dæmdu.

Svartfugl skáldsaga

Talið hefur verið að afrit af dómabókinni vegna málsins á Sjöundá hafi verið sent Landsyfirrétti í Reykjavík eins og átti að gera í sambærilegum dómum. „Við samanburð sem ég gerði síðastliðið haust kemur í ljós að þetta eru tveir gjörólíkir textar,“ segir Már. „Þetta er því ekki afrit heldur endurgerð.“ Guðmundur Scheving hafi væntanlega skrifað endurgerðina, því dómurinn, eins og hann sé í dómabókinni, hafi ekki litið nógu vel út formlega séð. Hann lagi því ýmsa hluti, bæti við spurningum og geri málið skýrara. „Það er merkilegt að það sem við þykjumst hafa vitað um þessi mál er byggt á endurgerð eða fölsun á hinum eiginlega dómi.“ Gunnar Gunnarsson hafi gert sér grein fyrir þessu og sagt að önnur gerðin væri fölsuð en ekki gert meira með það við ritun Svartfugls sem skyggi algerlega á málsatvik. „Hann var skáld, notaði það sem hentaði og bætti við því sem hann taldi þurfa, bjó til allt aðra sögu, annað fólk og aðrar aðstæður en sjá má í dómunum.“ Tveir menn hafi skrifað þokkalega um þessi mál. Guðbrandur Jónsson 1951 og Jón Helgason 1963. „Þeir notuðu gögnin en samt með skáldlegum tilþrifum og dæmandi umfjöllun.“

Farið er ofan í saumana á þessari fölsun í löngum inngangi og niðurstaðan er skýr. „Endurgerðin, sem öll umfjöllun um málin er byggð á, er að talsverðu leyti skáldskapur,“ segir Már.