Einar Ólafsson fæddist 13. janúar 1928 í Reykjavík. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eir 12. mars 2024.

Foreldrar hans voru Ólafur Hermann Einarsson, f. 9. desember 1895, d. 8. júní 1992, og Sigurlaug Einarsdóttir, f. 9. júlí 1901, d. 23. júní 1985.

Einar var elstur sex systkina, en hin eru: Jósef Friðrik, f. 24. ágúst 1929, d. 15. febrúar 2021, Grétar, f. 3. nóvember 1930, d. 14. júní 2004, Sigríður, f. 14. júní 1935, Hilmar, f. 18. maí 1936, d. 28. desember 1986, og Sigurður Ólafsson, f. 7. maí 1942.

Eiginkona Einars var Guðfinna Kristín Kristjánsdóttir, f. 17. maí 1931, d. 15. desember 2021. Börn Einars og Guðfinnu eru: 1) Ólafur, f. 1963. Maki: Margrét Blöndal. Börn: Einar, f. 1991, Axel Pétur, f. 1995, Ísak, f. 1999. Barnabarn: Sonja Marey Einarsdóttir, f. 2020. 2) Kristján Börkur, f. 1965. Maki: Helga Jóhanna Bjarnadóttir. Börn: Bjarki Viðar, f. 1995, Margrét Kristín, f. 1998, Arnar Ágúst, f. 2001. Barnabarn: Ída Kolbrún Bjarkadóttir, f. 2023. 3) Sigurður, f. 1968. Maki: Sigrún Ragna Helgadóttir. Börn: Ragna, f. 1992, Sigrún Ninna, f. 1996, Sigurður Sölvi, f. 2000, Ingvi, f. 2004.

Einar ólst upp í Laugarási í Biskupstungum, þar sem faðir hans var héraðslæknir, og stundaði nám í barnaskólanum í Reykholti. Síðar fór hann í íþróttakennaranám við íþróttakennaraskólann á Laugarvatni. Eftir útskrift kenndi hann íþróttir og sund á þéttbýlisstöðum á Snæfellsnesi og á ýmsum stöðum í Reykjavík. Árið 1958 var Einar ráðinn íþróttakennari í Langholtsskóla í Reykjavík og kenndi þar til starfsloka. Er hann fluttist til Reykjavíkur fór hann að stunda körfubolta með ÍR og var fljótt ráðinn þar þjálfari. Stundaði Einar þjálfun hjá ÍR í nærri hálfa öld og fékk viðurnefnið „faðir körfuboltans“ hjá félaginu. Einar þjálfaði hjá ÍR bæði meistaraflokka og yngri flokka. Íslandsmeistaratitlar ÍR í karlaflokki eru 15 alls og var Einar þjálfari liðsins í 11 skipti þegar þeir urðu Íslandsmeistarar, á gullaldarárum félagsins. Einar var útnefndur heiðursfélagi ÍR, fékk heiðurskross KKÍ og einnig gullmerki KKÍ fyrir störf sín í þágu körfuboltans á Íslandi.

Auk körfuboltans var garðyrkja mikið áhugamál Einars. Stundaði hann hana í Laugarási í sumarfríum, þar sem foreldrar hans og systkini áttu sumarbústaði. Ræktaði hann þar gulrætur, agúrkur og annað grænmeti í áratugi, bæði í gróðurhúsum og í útirækt allt til 85 ára aldurs.

Útför Einars fer fram frá Seljakirkju í dag, 20. mars 2024, klukkan 13.

Við kveðjum í dag elskulegan tengdaföður minn. Einar var farsæll maður. Hann bjó yfir góðri blöndu af ákveðni sem birtist í seiglu, úthaldi og þreki og jafnvel þrjósku en enn fremur var hann svo ljúfur í lund og umhyggjusamur. Hann kunni að nýta sér að hafa tvö augu og eyru en einn munn. Hann hlustaði af athygli og las í aðstæður og lagði síðan eitthvað til mála þegar á þurfti að halda eða kom með hnyttin og jafnvel glettin tilsvör þegar sá gállinn var á honum. Hógværari maður verður vart fundinn og hans aðalsmerki var að láta verkin tala.

Einar ólst upp í Laugarási þar sem faðir hans var héraðslæknir. Gaman var að hlusta á frásagnir Einars af uppvaxtarárum sínum, þar sem breytingar á þjóðfélaginu hafa orðið svo stórstígar frá fyrri hluta 20. aldar. Héraðslæknirinn, pabbi hans, sinnti vitjunum á hesti, engin brú var yfir stórfljótið Hvítá við Laugarás og sjálfsagt var að hafa kýr við læknabústaðinn sem tryggði fjölskyldunni mjólkurvörur.

Ævistarf Einars var íþróttakennsla og körfuboltaþjálfun og kynntist hann Ninnu tengdamömmu í Langholtsskóla þar sem þau bæði kenndu. Þau voru einstaklega samhent og nutu þess bæði að umgangast börn alla daga. Einar hafði svo gaman af þjálfuninni að hann entist við hana vel fram á áttræðisaldurinn.

Á sumrin gafst frí frá erli kennslunnar og dýfði Einar fingrunum í moldina við gulrótarækt bæði í gróðurhúsum og útigörðum. Einar skilaði grænmetinu inn til Sölufélags garðyrkjubænda allt fram til 85 ára aldurs og síðasta árið uppskar hann 5 tonn af gulrótum. Hann bað aldrei nokkurn mann að hjálpa sér en einhvern veginn æxlaðist það þannig að bæði synir hans frá unga aldri og barnabörnin tóku virkan þátt í gulrótarævintýrunum með honum og lifa margar góðar minningar frá þeim tíma.

Einar snerti við hjörtum margra, bæði nemenda sinna og þeirra sem hann þjálfaði en ekki síst barnabarnanna. Myndin í minningunni er sú að hann situr með eitt þeirra í fanginu eða við hlið sér og er að leika við það, spila eða lesa. Umhyggja hans birtist á marga vegu m.a. í því að hann hringdi daglega til að vitja um börnin þegar þau veiktust og hann var alltaf boðinn og búinn í æfingaskutlið sem sjálfsagt nálgast fimm hringi umhverfis landið.

Einar var ekki aðeins frumkvöðull í körfuboltanum heldur var hann einnig á undan sinni samtíð í jafnréttismálum. Í því samhengi minnist ég þess þegar hann sleppti að lesa ákveðna kafla í barnabókinni „Benni og Bára“ fyrir dóttur okkar þar sem honum fannst lítið gert úr stúlkunni Báru sem var lýst sem klaufa, en Benni upphafinn sem vaskur og duglegur drengur. Þessi innræting fannst honum ekki góð fyrir barnið. Hann sagði mér nýverið þegar ég bað hann að rifja upp körfuboltaárin að gaman hefði verið að þjálfa stúlkur á upphafsárum körfuboltans, en ekki hefði verið vinsælt að þjálfa þær á þeim tíma.

Það þarf vissulega heilt þorp til að ala upp barn og er ég ævinlega þakklát fyrir að hafa haft Einar í okkar þorpi og að við fjölskyldan fengum að njóta hans yndislegu nærveru í öll þessi ár.

Hvíl í friði, elsku Einar.

Helga Jóhanna
Bjarnadóttir.

Afi var maður fárra orða. Hjá sumum finnur maður fyrir innri manni án þess að hafa þurfi mörg orð um það.

Hann vann sleitulaust án þess að ræða það neitt sérstaklega. Þegar ég vaknaði á morgnana sem barn og unglingur í Laugarási, sveitinni sem afi deildi með allri fjölskyldunni, hafði hann verið í nokkra klukkutíma að slá, tína gulrætur, reyta arfa.

Synir hans höfðu orð á því stuttu áður en hann lést að þeir hefðu helgina áður unnið í gamla gróðurhúsinu hans, sem þeir hafa verið að gera upp, og skipst á að taka rispur. Þetta er erfiðisvinna og þeir bræður í ágætis formi en þurftu samt að taka pásur inn á milli. Afi sinnti verki þeirra beggja í einum rykk án þess að taka sér pásu og sagði aldrei nokkrum manni frá því.

Já, orð eru stundum óþörf. Maður skynjar með nærveru fólksins sem maður elskar væntumþykju þeirra og afi tjáði ást sína með gjörðum. Með því að vera til staðar. Þegar við flettum í gegnum gamlar myndir sjáum við afa, þennan hljóðláta mann í horni myndarinnar alltaf með barnabarn í kjöltunni eða fanginu. Þegar yngsti sonur hans fótbrotnaði og var rúmliggjandi í nokkra mánuði rétti hann honum bækur til að lesa reglulega svo hann hefði eitthvað fyrir stafni. Þegar barnabörnin veiktust hringdi hann stutt, en daglegt, símtal í foreldrana til að athuga hvernig þau hefðu það. Hann passaði upp á sína án stórra yfirlýsinga. Alltaf var hægt að treysta á hann.

Síðustu árin á hjúkrunarheimilinu var afi greindur með heilabilun. Hann vissi samt betur en ég hvað hver væri að gera um helgina, hver væri í Laugarási á hverjum tíma eða hvaða barnabarn væri úti á landi hverju sinni. Afi var dýravinur og það var ekkert sem gladdi hann eins og að fá hundana Kóp, Gorm og Húna í heimsókn þó hann hafi oftast kallað þá Spora (Spori var hundur Kristjáns bróður pabba svo þetta er skiljanlegur misskilningur).

Í afmælum, matarboðum og á jólunum fylgdumst við með honum setjast niður í sófa eftir að hafa heilsað okkur í anddyrinu og fljótlega umkringdu kettir og hundar hann. Hann klappaði þeim með sínum stóru vinnufúsu höndum og samtímis braust fram bæði bros og hlátur sem var svo innilegur frá þessu fámála andliti. Afi og dýrin.

Sumt breytist seint þrátt fyrir allt sem fylgir ellinni. Væntumþykjan hverfur aldrei en sumt snýst við, þau sem hafa stutt okkur í gegnum ævina þurfa á okkar stuðningi að halda. Þegar að því kemur er gott að geta veitt pínulítið af þeim stuðningi til baka. Takk fyrir allt, elsku afi.

Hvíldu í friði.

Ragna Sigurðardóttir.

Elsku Einar afi.

Það er alltaf erfitt að kveðja en við vitum að þú hvílir nú á góðum stað með ömmu Ninnu. Við munum sakna þín og aldrei gleyma öllum samverustundunum sem við áttum með þér.

Þú hafðir mikinn áhuga á því sem við vorum að gera, horfðir á íþróttaleiki, skutlaðir okkur hingað og þangað og hringdir alltaf í foreldra okkar þegar við vorum veik til að athuga hvernig við hefðum það.

Þú kenndir iðjusemi og dugnað með því að leyfa okkur að vera með í gulrótaupptöku í Laugarási á sumrin þegar við vorum bara krakkar. Iðulega vorum við í gulrótunum fyrir hádegi og lékum okkur í fótbolta eða öðrum leikjum eftir hádegi. Þú fylgdist alltaf áhugasamur með okkur í leikjunum, með þínu þjálfaraauga. Á kvöldin spiluðum við sjóræningja-bridds. Það endaði yfirleitt þannig að þú sigraðir, enda gafstu ekkert eftir. Svo varstu líka furðulega oft með spaðaásinn.

Þú varst oft þögull en hlustaðir vel. Hins vegar þegar þú tókst til máls varstu alltaf hnyttinn og allir fóru að hlæja.

Hógværari og rólyndari mann er erfitt að finna. Barngóður og ljúfur en einnig mjög eljusamur. Þú varst mikil fyrirmynd fyrir okkur barnabörnin á flestum sviðum og eigum við þér margt að þakka, elsku afi.

Þín barnabörn,

Bjarki, Margrét og Arnar.

Afi var þolinmóður, blíður og hafði góða nærveru. Hann var okkur alltaf mikil fyrirmynd. Hann hugsaði vel um heilsu sína, stundaði líkamsrækt til áttræðisaldurs, borðaði hollan mat og drakk ekki. Þau amma Ninna sýndu okkur mikilvægi þess að láta gott af sér leiða og að koma vel fram við aðra. Margir nemendur hafa sagt frá góðum áhrifum sem þau höfðu á líf þeirra. Afi var fámáll og lágróma á seinni árum en ætíð hnyttinn og skarpur. Ef maður lagði við hlustir þegar hann fékk orðið mátti heyra góða brandara eða fróðleiksmola. Afi var mikill dýravinur og hann sagði okkur sögur af dýrunum sem hann ólst upp með. Hundarnir og börnin í fjölskyldunni vöktu hjá honum gleði alla tíð og það var dýrmætt að sjá hann brosa og hlæja við þeim. Hann sýndi ávallt umhyggju í verki, til dæmis skutlaði hann okkur barnabörnunum hvert sem áhugamálin leiddu okkur. Hann mætti einnig á íþróttaviðburði og almenna viðburði hjá barnabörnunum. Hann var frábær maður en fyrst og fremst duglegur maður. Þegar fjölskyldan fór í Laugarás til að slappa af, þá var hann mættur út að vinna í gróðrinum snemma morguns. Hann sýndi okkur því gott fordæmi og erum við afar þakklát fyrir hann. Takk fyrir allt elsku afi, hvíldu í friði.

Sigrún Ninna, Sigurður Sölvi og Ingvi.

Einar bróðir minn er látinn. Hann var elstur af okkur systkinunum, en ég yngstur, og var hann sá af bræðrum mínum sem ég hafði mest samskipti við.

Við ræktuðum saman tómata í nokkur ár í gamla daga í Laugarási í Biskupstungum í gróðurhúsum og dvöldum þar á sumrum, ég unglingurinn og hann var verkstjórinn. Nokkru síðar ræktuðum við gulrætur í þessum húsum í um 20 ár. Þá áttum við margar ferðir að vetri austur yfir fjall eins og sagt var, í alls konar veðrum því það þurfti að vökva reglulega. Bílarnir okkar voru allavega en umferð var ekki eins mikil og nú er. Það var minna skafið þá, og þurfti stundum að nota keðjur til að komast leiðar sinnar.

Við vorum oft saman á gæsaveiðum í nágrenni Laugaráss og það eru margar minningar um fallega kalda haustmorgna að bíða eftir gæsum fyrir löngu.

Einar var einn af frumkvöðlum körfuboltans á Íslandi og tók virkan þátt á árum áður. Stundum fór ég með til að sjá ÍR keppa í Hálogalandi sem einu sinni var helsta íþróttahús Reykjavíkur. Aðalandstæðingurinn var þá að mig minnir ÍKF, eða íþróttafélag Keflavíkurflugvallar, en tímarnir breytast.

Ég kveð þig hér, kæri bróðir, með þökk fyrir allt.

Sigurður.

Einar Ólafsson íþróttakennari og körfuknattleiksþjálfari er látinn og með honum er genginn einn af frumkvöðlum körfuknattleiks á Íslandi og handhafi heiðurskross KKÍ.

Einar, sem var íþróttakennari í Langholtsskóla, var þjálfari ÍR um margra ára skeið, bæði yngri flokka sem og meistaraflokks og er án efa maðurinn að baki ótrúlegri sigurgöngu ÍR í flestum flokkum karla og kvenna í 20 ár á árunum 1958-1977.

Ég kynntist Einari fyrst er ég byrjaði iðkun körfubolta 15 ára hjá ÍR í gamla ÍR-húsinu við Túngötu.

Helgi Jóhannsson, sem átti eftir að hafa mikil áhrif á mig, var reyndar þjálfari minn en Einar kom oft og var óspar á góð ráð fyrir unglinginn. Leiðir okkar skildi reyndar tveimur árum seinna er ég gekk til liðs við nýstofnaða deild í KR og nafni minn var ekki ánægður með það!

Samskipti okkar voru ekki mikil næstu árin enda andstæðingar á leikvellinum en í lok árs 1964 fór ég með landsliðinu í þriggja vikna keppnisferð í Bandaríkjunum þar sem við kepptum við háskólalið á austurströndinni undir styrkri stjórn Einars sem var þjálfari liðsins.

Við spiluðum 12 leiki á 20 dögum og keyrðum með rútu langar vegalengdir á milli skóla í sex ríkjum. Ekki unnum við mikla sigra en öllu stjórnaði Einar af röggsemi og hlýju sem einkenndi þjálfun hans alla tíð.

Síðar kynntist ég honum enn betur er ég þjálfaði ÍR í tvö ár og þar á meðal Kristján son hans. Einar var aufúsugestur á mörgum æfingum og hjálpaði mér mikið með þetta unga ÍR-lið.

Ég tel að á engan sé hallað þótt ég telji Einar einn mesta frumkvöðul og áhrifavald körfuboltans á Íslandi og mun minning hans lifa um ókomin ár.

Fjölskyldu hans sendi ég mínar einlægu samúðarkveðjur um leið og ég kveð frábæran þjálfara og góðan dreng í hvívetna.

Einar Gunnar Bollason.

Það var mikil himnasending fyrir okkur drengina í Langholtsskóla að fá snillinginn Einar Ólafsson sem íþróttakennara haustið 1958. Einar var kennari af guðsnáð, á þessum tíma voru margir íþróttakennarar mjög strangir, þótt ekki sé meira sagt. Einar var andstæðan við þessa ströngu kennara. Hann var alltaf pollrólegur með sína mjúku rödd, það voru ekki skammir eða læti frá honum. Framkoma hans gagnvart okkur var ómetanleg. Ef einhverjum varð heitt í hamsi í hita leiksins, þá æsti hann sig aldrei upp, heldur tók í höndina á viðkomandi og sagði, jæja, vinur, komdu með mér og fáðu þér sæti hérna og róaðu þig. Hann kom svo aftur eftir stutta stund og sagði, jæja, vinur, nú skaltu halda áfram. Þessi aðferð hans svínvirkaði á okkur, hann var í fyllstu merkingu besti vinur okkar allra.

Á þessum tíma kunnu fæstir íþróttakennarar körfuknattleik en Einar var leikmaður í meistaraflokki ÍR og kunni því góð skil á leiknum. Hann kenndi okkur körfubolta í leikfimistímunum og svo bauð hann okkur að mæta í æfingatíma hjá ÍR. Það var ótrúlegur fjöldi sem mætti í æfingatíma hjá honum. Við vorum ekki bara með eitt lið í Íslandsmótinu í yngri flokkunum heldur A-B-C-D-lið, samtals fjögur lið og stundum urðum við í fjórum efstu sætum Íslandsmótsins.

Til marks um áhuga Einars á körfubolta útbjó hann 10 körfuboltaþrautir fyrir 10-11 og 12 ára bekk. Þær enduðu á skoti á körfuna. Þessar þrautir lét hann okkur æfa yfir veturinn, um vorið prófaði hann okkur í þeim og skráði niður stigin sem hver og einn skoraði. Hann lét útbúa verðlaunapeninga fyrir 1., 2. og 3. sætið í 10-11 og 12 ára bekk og afhenti sigurvegurunum verðlaunin við hátíðlega athöfn.

Einar gerði meira en þetta. Hann fór með okkur drengina á Keflavíkurflugvöll tvisvar á vetri til að spila við amerísku drengina í alvöru íþróttahúsi, með alvöru körfubolta og hvorki meira né minna en með ameríska dómara. Fyrir okkur var þetta eins og að keppa á Ólympíuleikunum. Það var ekkert í æsku minni sem toppaði þessar ferðir. Við mættum við Langholtsskóla á laugardegi kl. 12.00. Þangað mætti meistarinn á sínum station-bíl og við tróðum okkur inn í hann, tveir sátu í framsætinu, 4-5 í aftursætinu og svo hinir í skottinu.

Einar Ólafsson er sannkallaður faðir körfuboltans hjá ÍR, hann er sigursælasti þjálfari íslenskrar körfuboltasögu.

Þegar ég lít yfir farinn veg sé ég að Einar var einn mesti áhrifavaldurinn í lífi mínu, ég er undir hans handleiðslu í u.þ.b 10 ár, fyrst í öllum yngri flokkunum og síðan í meistaraflokki. Fyrir alla hans þjálfun verð ég honum ævinlega þakklátur. Þegar ég hóf íþróttakennslu kornungur var Einar fyrirmynd mín. Ég ætlaði að reyna að vera vinur nemanda minna eins og Einar.

Einar minn, takk og aftur takk fyrir mig, þegar ég hætti að anda og fer yfir móðuna miklu verður mitt fyrsta verk að pakka niður æfingadótinu og mæta á æfingu til þín.

Anton Bjarnason ÍR-ingur.