Kannski að ég geti hughreyst lesendur, og sjálfan mig um leið, með því að minna á að stjórnmálamenn fyrr á tímum voru ekkert mikið betri – og stundum miklu verri – en þeir sem við sitjum uppi með í dag.
Þegar er t.d. litið yfir hópinn sem gegnt hefur embætti Bandaríkjaforseta er þar enginn hörgull á fordómafullum rugludöllum, athyglissjúkum smásálum og vitleysingum sem voru jafn valdagráðugir og þeir voru vanhæfir.
Meira að segja sómamenn eins og John Adams, sem ég held alveg sérstaklega upp á, áttu sínar slæmu hliðar og þegar hann komst til valda beitti hann ríkisvaldinu af fullri hörku til að þagga niður í andstæðingum sínum. Er ágætt að rifja þetta upp, þar eð greinin hér að neðan er uppfull af ófallegum skrifum um þá Biden og Trump og raunar allt bandaríska valdabatteríið eins og það leggur sig.
Sumarið 1798 setti bandaríska þingið lög sem Adams samþykkti með glöðu geði en lögin settu tjáningarfrelsinu verulegar skorður og boðuðu þungar refsingar fyrir að bera út óhróður um stjórnvöld. Líkt og svo oft vill verða með slæma löggjöf voru skorðurnar réttlættar með vísan til þjóðaröryggis, en á þessum tíma voru samskipti Bandaríkjanna og Frakklands á suðupunkti og þótti líklegt að stríð myndi brjótast út – en við slíkar aðstæður þurfa þeir sem fara með völdin auðvitað að hafa góðan vinnufrið og landsmenn alla á bak við sig.
Lögin voru aðeins í gildi í skamman tíma en voru notuð til að fangelsa allmarga útgefendur, prentara og málsmetandi menn sem höfðu leyft sér að skrifa eitthvað neikvætt um æðstu ráðamenn. Meðal þeirra sem lentu í sigti stjórnvalda var barnabarn og nafni Benjamíns Franklíns en hann ritstýrði dagblaði í Fíladelfíu og notaði útgáfuna til að væna George Washington um vanhæfni og peningasóun, en að hinn „blindi, sköllótti, bæklaði, tannlausi og nöldurgjarni Adams“ raðaði góðvinum sínum í opinberar stöður og dreymdi um að krýna sjálfan sig konung.
Kappsemi Adams og samflokksmanna hans var svo mikil að ritstjórinn ungi var handtekinn áður en lögin höfðu verið samþykkt, en áður en hægt var að rétta í málinu smitaðist hann af gulusótt og lést aðeins 29 ára gamall.
Biden á lokametrunum
Er ég nokkuð einn um að þykja það skrítið að 330 milljóna manna þjóð skuli ekki geta teflt fram betri forsetaefnum? Hvenær fór bandaríska lýðræðiskerfið eiginlega út af sporinu? Eigum við að kenna Nixon um að hafa dregið Bandaríkin niður í svaðið, eða var það typpalingurinn á Bill Clinton sem kom bandarísku þjóðinni í þá afleitu stöðu sem núna blasir við?
Var það kannski George Bush yngri? Ég var ekki orðinn tvítugur þegar hann náði kjöri og man að ég hugsaði sem svo að ef svona óefnilegur maður gæti orðið Bandaríkjaforseti þá hlytu mér að vera allir vegir færir. Í tvö kjörtímabil hífði Obama stjórnmálin upp á ögn hærra plan, en ef frammistaða hans fær krítíska skoðun og persónutöfrarnir eru teknir út fyrir sviga þá lendir hann í hópi ofmetnustu Bandaríkjaforseta í seinni tíð.
Og nú liggur fyrir hverjir mætast í forsetakosningunum í nóvember. Pólitíska kerfið teflir fram 81 árs Joe Biden og 77 ára Donald Trump og er erfitt að sjá hvor þeirra er með fleiri lausar skrúfur.
Það að hafa lifað lengi er í sjálfu sér engin ástæða til að afskrifa hæfa menn og konur, og starfsgeta fólks á efri árum er mjög breytileg, en það segir sína sögu að þeir Trump og Clinton eru jafnaldrar. Clinton þótti orðinn lúinn þegar hann kvaddi Hvíta húsið 54 ára gamall – fyrir nærri aldarfjórðungi – og þá sjaldan sem sést til hans í dag virkar hann afskaplega aldraður. Karlhróið má eiga það að hárið hefur haldið sér einkar vel, en röddin er rám og fingurnir titra. Trump er eins og unglamb í samanburði, enda duglegur í golfinu og betur giftur.
Biden er svo lífsreyndur að ef miðað er við töflur tryggingastærðfræðinga eru 7% líkur á að hann lifi ekki út þetta ár, og um það bil helmingslíkur á að hann muni ekki tóra eitt kjörtímabil til viðbótar. Mér þykir svolítið vænt um gamla karlinn, þrátt fyrir að finnast hann vera á kolrangri hillu í lífinu, og vona auðvitað að Biden lifi sem lengst – þó ekki væri nema til þess að forða bandarísku þjóðinni frá því að sitja uppi með hina afleitu Kamölu Harris í embætti forseta.
En hvar eru hæfu frambjóðendurnir, og hvers vegna virðist besta fólkið ekki fá neitt brautargengi? Af hverju tókst ekki Demókrötunum að fá Sheryl Sandberg eða jafnvel Michelle Obama til að taka við keflinu af Biden? Hvers vegna hlaut Ron DeSantis ekki meiri meðbyr í forkjöri Repúblikana?
Og af hverju eru bandarískir kjósendur svona viljugir að styðja Donald Trump með alla sína augljósu bresti?
Traustið er á þrotum
Í febrúar birti hagfræðingurinn snjalli John Cochrane afburðagóða greiningu á ástandinu í Wall Street Journal. Þar bendir hann á að vinsældir Trumps séu eðlileg afleiðing þeirrar stefnu sem bandarísk stjórnmál hafa tekið undanfarin tíu til tuttugu ár.
Nær allar skoðanakannanir benda til að Trump hafi mikið forskot á Biden og á meðan klórar bandaríska vinstrið sér í kollinum og ályktar sem svo að samlandar þess hljóti að vera upp til hópa illa upplýstir og fordómafullir fautar sem vilja traðka á réttindum kvenna og minnihlutahópa. Cochrane bendir á hið augljósa: kjósendur Trumps sjá að vinstrið er löngu komið út í algjörar öfgar og að rugludallurinn Trump sé þrátt fyrir allt sá frambjóðandi sem líklegastur er til að skapa eitthvað sem kalla mætti eðlilegt ástand í bandarískum stjórnmálum.
Cochrane minnir á að margar helstu stofnanir bandarísks samfélags séu rúnar trausti: Ófáar fjölskyldur misstu ástvini í Írak og Afganistan og í dag virðist það allt hafa verið til einskis. Elítunni sem stýrt hefur utanríkisstefnu Bandaríkjanna virðist ekki treystandi og hinn venjulegi Bandaríkjamaður er órólegur yfir hættunni á að fleiri hermönnum verði fórnað í átökum í Úkraínu, Íran eða Taívan.
„Þetta fólk missti ofan af sér þakið, missti vinnuna og fyrirtæki þeirra fóru í þrot í fjármálakreppunni, og það sá að fólkið sem stýrir fjármálakerfinu veit ekki hvað það er að gera. Þau fengu sjúkratryggingaskírteini, í boði ObamaCare, en það virðist koma að litlu gagni þegar þau veikjast. Þau hugsa með sér: ætli nokkrir þeirra pólitíkusa sem beittu sér fyrir sjúkraskírteininu noti það sjálfir? Þau sáu hvað Hillary Clinton var óeinlæg, hvernig hún rakaði til sín milljónum dala í gegnum góðgerðafélög sín, og kallaði svo stuðningsmenn Trumps „fyrirlitlegt undirmálslið“,“ skrifar Cochrane.
Svona heldur sagan áfram: Alríkislögreglan var virkjuð gegn Trump og bandamönnum hans, og stjórnsýslan öll virtist líta á það sem hlutverk sitt að leggja stein í götu lýðræðislega kjörins forseta. Þá kom faraldurinn og ekki leið á löngu þar til vanhæfni heilbrigðisyfirvalda blasti við. Embættismenn skálduðu upp nýjar reglur og bæði fjölmiðlar og tæknirisar lögðust á eitt með stjórnvöldum við að ritskoða ósköp eðlilega umræðu um eðli og uppruna kórónuveirunnar. Þegar fyrstu fréttir láku út um fartölvu Hunters Bidens, og innihaldið á henni, náðu ritskoðunartilburðirnir nýjum hæðum.
„Og þegar skólakennslan færðist yfir á netið sáu foreldrarnir hvað var í raun að eiga sér stað í skólastofunum. Þar var börnunum innrætt að fyrirlíta bæði sig sjálf, landið sitt og trúarhefðir sínar, og kynferðislegt efni borið á borð fyrir yngstu hópana,“ ritar Cochrane. „Eftir hryðjuverkaárásirnar 7. október sáu stuðningsmenn Trumps að háskólarnir voru óstarfhæfir og orðnir að pólitískum stofnunum sem líta niður á fólk af þeirri gerð sem gæti hugsað sér að kjósa Trump.“
Ólöglegir innflytjendur streyma inn, heimilislaust fólk blasir við hvert sem farið er og glæpatíðnin er svo há að heilu borgirnar eru í lamasessi. Þá er búið að virkja dómskerfið gegn Trump og á sumum stöðum var meira að segja reynt að meina honum að bjóða sig fram.
Niðurstaða Cochranes er að stuðningsmenn Trumps vilji einfaldlega að grunnstofnunum bandarísks samfélags verði komið aftur á rétta braut og að stjórnkerfið þjóni sínu hlutverki án þess að vanhæfnin og flokkadrættirnir blasi við. Til að svo verði þarf djúphreinsun að eiga sér stað.
„Og hvaða leið er þá betri til að láta valdaelítuna kenna á því en að kjósa manninn sem espir hana upp meira en nokkur annar?“