Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Ég velti fyrir mér hvaða löggjafarþing í heiminum myndi leyfa aðra eins framkomu við helgasta reit lýðræðis hvers lands. Það er með ólíkindum hvernig Palestínumenn sem hér hafa leitað hælis sýna þjóðþinginu og Íslendingum þakklæti sitt,“ sagði Ásmundur Friðriksson alþingismaður í ræðu á Alþingi undir dagskrárliðnum störf þingsins.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Ég velti fyrir mér hvaða löggjafarþing í heiminum myndi leyfa aðra eins framkomu við helgasta reit lýðræðis hvers lands. Það er með ólíkindum hvernig Palestínumenn sem hér hafa leitað hælis sýna þjóðþinginu og Íslendingum þakklæti sitt,“ sagði Ásmundur Friðriksson alþingismaður í ræðu á Alþingi undir dagskrárliðnum störf þingsins.

Þar vakti hann máls á háværum mótmælum og skrílslátum sem Palestínumenn og stuðningsfólk þeirra hafa haft í frammi við Alþingishúsið undanfarið og spurði hvort ekki væri mál að þessu ástandi linnti.

„Dögum, vikum og nú mánuðum saman hefur hópur Palestínumanna og stuðningsfólks hælisleitenda frá Palestínu mótmælt við Alþingishúsið. Mótmæli hafa byrjað í upphafi hvers þingdags og staðið fram undir kvöld. Fjöldi Palestínumanna og stuðningsmanna þeirra hefur barið og lamið þinghúsið að utan, lamið á glugga og slegið á trumbur, blásið í flautur og valdið ónæði, ótta og óþægindum,“ sagði Ásmundur.

Sagði hann fólkið í landinu undrast þessa framkomu sem sé einkennileg birtingarmynd þakklætis þessa fólks fyrir hæli sem því er veitt hér.

„Það er með ólíkindum að þingmenn, ráðherrar og starfsfólk Alþingis skuli þurfa að þola þessa ömurlegu framkomu og óþægindi dag eftir dag, dögum og vikum saman. Hér bera skattgreiðendur kostnað af veru þeirra og húsnæði, heilbrigðisþjónustu og fjölskyldusameiningu og þetta er þakklætið sem þjóðinni er sýnt. Við erum að kalla yfir okkur fólk sem ber með sér þessa ógnarmenningu, fólk sem beitir hótunum til að ná fram kröfum sínum, hefur ráðist að þingmanni og gerir sig líklegt til að vinna okkur sem hér störfum líkamlegt tjón,“ sagði Ásmundur.

„Það er sjálfsögð krafa að vinnufriður og vernd okkar sem hér störfum sé tryggð,“ sagði hann og spurði hvort vilji væri til þess að innflutt reiði og hatur yrði fest í sessi hér á landi.