[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knatthús, baðlón, hótel og íbúðir koma við sögu í drögum að deiliskipulagi þriggja svæða í Borgarbyggð. Uppbyggingin mun setja mikið mark á Borgarnes. Stefán Broddi Guðjónsson sveitarstjóri Borgarbyggðar segir deiliskipulagið ná til þriggja svæða

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Knatthús, baðlón, hótel og íbúðir koma við sögu í drögum að deiliskipulagi þriggja svæða í Borgarbyggð. Uppbyggingin mun setja mikið mark á Borgarnes.

Stefán Broddi Guðjónsson sveitarstjóri Borgarbyggðar segir deiliskipulagið ná til þriggja svæða.

„Í fyrsta lagi stendur til að styrkja íþróttasvæðið með því að byggja knatthús með knattspyrnuvelli í hálfri stærð og síðar er ráðgert að stækka íþróttahúsið þannig að þar bætist við salur í fullri stærð.

Gert til að auka lífsgæði

Í öðru lagi er verið að vinna rammaskipulag fyrir Brákarey. Útgangspunkturinn er að nýta það svæði til að skapa lífsgæði fyrir íbúa og gesti. Þar eru hugmyndir uppi um hótel, baðlón, íbúabyggð og menningar- og þjónustustarfsemi.

Í þriðja lagi stendur til að skipuleggja svæðið við vestanverða Brákarbraut, en það er á vinstri hönd þegar ekið er í átt að Brákarey og Landnámssetrinu. Þar er nú gamalt atvinnu- og íbúðarhúsnæði og lítt skipulögð gata og bílastæði. Við ströndina er síðan lögreglustöð, safnahúsið okkar og skrifstofuhúsnæði,“ segir Stefán Broddi. Hann bætir við að hugmyndavinna sé að hefjast og hann vonast eftir blandaðri byggð en t.d. þurfi að huga vel að bílastæðum á svæðinu.

Stefán Broddi segir aðspurður að hugmyndir arkitektastofunnar Alternance um gerð torga nái yfir hluta síðastnefnda svæðisins.

Hanna torg í bænum

Fjallað var um þær hugmyndir í Morgunblaðinu 22. mars síðastliðinn. Fela þær í sér gerð tveggja nýrra almenningstorga í Borgarnesi sem ætlað er að fegra bæinn og styrkja hann sem sögustað. Jafnframt er þeim ætlað að efla bæinn sem ferðamannastað og laða að nýja íbúa.

Annars vegar með nýju miðbæjartorgi, Skallagrímstorgi/Kveldúlfstorgi milli Skallagrímsgarðs og Kveldúlfsvallar, og hins vegar með Landnámstorgi/Brákartorgi, norðan Brákareyjarbrúar.

Stefán Broddi segir hugmyndir Alternance eiga sér nokkurn aðdraganda en áformin séu hluti af Evrópuverkefninu Human Cities – SMOTIES sem unnið sé fyrir Borgarbyggð í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands. Heilmikil hugmyndavinna og íbúðasamráð sé að baki.

Hugsað sem innlegg

„Við erum að fara að ýta deiliskipulagsferli úr vör og er hugmyndavinna Alternance hugsuð sem innlegg í þá vinnu. Við eigum eftir að sjá hvert hún leiðir okkur en þetta eru mjög spennandi hugmyndir. Það eru svo sannarlega tækifæri til þess að gera neðri bæinn okkar enn meira aðlaðandi og bæta umhverfi fyrir bæði fótgangandi og akandi og gera Borgarnesi sem sögustað hærra undir höfði,“ segir Stefán Broddi.

Hann segir aðspurður að nú búi um 4.400 manns í Borgarbyggð og þar af um 2.300 manns í Borgarnesi.

„Síðustu þrjú ár hefur íbúum í Borgarbyggð fjölgað hraðar en gengur og gerist á Íslandi. Þannig hefur íbúum í sveitarfélaginu fjölgað um rétt tæplega 6% síðustu tvö ár, hvort ár fyrir sig. Við erum að búa okkur undir áframhaldandi íbúafjölgun. Það er samt ekki útgangspunkturinn að íbúum fjölgi heldur að bæta innviði, efla þjónustu og auka lífsgæði,“ segir Stefán Broddi. Hann segir það samræmast vel skilaboðum frá íbúum sem hafi í könnunum til dæmis lagt áherslu á að efla íþróttaaðstöðu og bæta skipulag í sveitarfélaginu.

Við strandlengjuna

Hann segir sveitarfélagið nú jafnt og þétt vera að auka framboð lóða.

„Í janúar voru auglýstar liðlega 30 lóðir fyrir atvinnustarfsemi við þjóðveginn efst í bænum og samþykkti sveitarstjórn í síðustu viku deiliskipulag fyrir einbýli, tvíbýli og fjölbýli í nýju hverfi við strandlengjuna í Bjargslandi. Þá eru lóðir til reiðu á Hvanneyri og brátt á Varmalandi og víðar.

Jafnframt opnar breytt aðalskipulag ýmsa möguleika á uppbyggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis í dreifbýli sem ekki var fyrir hendi áður. Við erum að reyna að finna rétta jafnvægið í framboði fjölbreyttra lóða fyrir almenning og atvinnulíf alls staðar í Borgarbyggð en um leið byggja upp og viðhalda góðri þjónustu fyrir íbúa og gesti,“ segir Stefán Broddi.

Grunnskóli endurbyggður

Loks vekur Stefán Broddi athygli á því að í síðustu viku hafi verið opnað fyrir tilboð í endurbyggingu grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum í Reykholtsdal.

„Það verkefni er lengst komið af stóru fjárfestingarverkefnunum sem eru fram undan hjá sveitarfélaginu en ráðgert er að framkvæmdir hefjist nú í vor,“ segir Stefán Broddi.

Fræðast má um hugmyndir Alternance um gerð torga í Borgarnesi á vefsíðunni sogutorgin.is. Þar er jafnframt fjallað um sögu Borgarness.