Kolbrún Halldórsdóttir
Kolbrún Halldórsdóttir
Týr Viðskiptablaðsins ræðir um sjónarmið sem Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, stéttarfélags háskólamenntaðs fólks, hafi sett fram um að launamunur sé of lítill hér á landi. Týr dregur þá ályktun að formaðurinn vilji auka misskiptingu en sé þar á villigötum.

Týr Viðskiptablaðsins ræðir um sjónarmið sem Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, stéttarfélags háskólamenntaðs fólks, hafi sett fram um að launamunur sé of lítill hér á landi. Týr dregur þá ályktun að formaðurinn vilji auka misskiptingu en sé þar á villigötum.

Kjör manna eigi fyrst og fremst að endurspegla þau verðmæti sem þeir koma að því að skapa, segir Týr, ekki prófgráður.

Og hann bætir við: „Mikill meirihluti félagsmanna BHM starfar á opinbera markaðnum. Óumdeilt er að starfsmenn hjá hinu opinbera hafa verið leiðandi í launahækkunum um árabil. Í raun og veru hefur einhvers konar spekileki verið til staðar. Lögfræðingar í fjármálageiranum eiga þann draum heitastan að komast í starf í ráðuneytum svo dæmi sé tekið.

Sé litið til áranna 2014 til 2021 sést að grunnlaun ríkisstarfsmanna og starfsmanna sveitarfélaga hækkuðu um 56% annars vegar og 61% hins vegar. Á sama tíma hækkuðu laun á almenna markaðnum um 43%. Þegar litið er til heildarlauna hækkuðu laun opinberra starfsmanna um 54% en 44% á almenna vinnumarkaðnum.“

Þessi launaþróun er mjög óeðlileg. Hið opinbera og starfsmenn þess eiga ekki að leiða launahækkanir. Fram undan eru samningar þessara aðila. Þeir verða meðal annars að taka mið af fyrrgreindri þróun síðustu ára.