Tilbúnir Íslensku leikmennirnir einbeittir í upphitun fyrir æfinguna á Szouza Ferenc-leikvanginum í gær.
Tilbúnir Íslensku leikmennirnir einbeittir í upphitun fyrir æfinguna á Szouza Ferenc-leikvanginum í gær. — Ljósmynd/Szilvia Micheller
Í annað skiptið í röð kemur Búdapest við sögu í baráttu íslenska karlalandsliðsins fyrir því að komast í lokakeppni EM í fótbolta. Flautað verður til leiks Íslands og Ísraels klukkan 19.45 að íslenskum tíma í kvöld

Í Búdapest

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Í annað skiptið í röð kemur Búdapest við sögu í baráttu íslenska karlalandsliðsins fyrir því að komast í lokakeppni EM í fótbolta.

Flautað verður til leiks Íslands og Ísraels klukkan 19.45 að íslenskum tíma í kvöld. Á sama tíma hefja Bosnía og Úkraína hinn undanúrslitaleikinn í Zenica.

Fyrir tæplega fjórum árum beið íslenska liðið lægri hlut í dramatískum úrslitaleik gegn Ungverjum á Ferenc Puskas-leikvanginum í Búdapest þar sem Dominik Szoboszlai, núverandi leikmaður Liverpool, skoraði sigurmark Ungverja í uppbótartíma, 2:1, eftir að Ísland hafði verið marki yfir nær allan leikinn.

Annar leikvangur

Nú er komið að undanúrslitunum í sams konar umspili, að þessu sinni í norðurhluta borgarinnar, því nú er spilað á Szouza Ferenc-leikvanginum í Újpest-hverfinu, sem eins og hinn er kenndur við einn af dáðustu fótboltamönnum Ungverja.

Ástæður þess að spilað er í Búdapest eru ekki skemmtilegar. Ísraelsmenn fá ekki að spila þennan heimaleik sinn á sínum heimaslóðum vegna stríðsástandsins á Gasa. Þeir eru hins vegar gestgjafar í kvöld og eru öllu vanir í Ungverjalandi eftir að hafa spilað þar tvo síðustu heimaleikina í undankeppni EM í október og nóvember.

En fyrir vikið ættu möguleikar íslenska liðsins að vera aðeins meiri og úrslitin í kvöld ráðast væntanlega af því hvoru liðinu tekst betur til við að ná upp réttu stemningunni og viljanum til að komast á stórmót frammi fyrir takmörkuðum stuðningi áhorfenda.

Í gær höfðu aðeins um 100 Íslendingar keypt miða á leikinn en um 900 Ísraelsmenn eru væntanlegir á leikinn frá heimalandinu. Þeir fá því einhverja heimavallarstemningu með sér.

Fágætt tækifæri

Til Þýskalands vilja að sjálfsögðu allir komast, Ísland hefur leikið einu sinni á EM og Ísrael aldrei þannig að þetta er fágætt tækifæri fyrir bæði lið til að komast í sjálfan úrslitaleikinn á þriðjudaginn.

Á pappírum virðist afar lítið skilja liðin að. Þau eru á svipuðu róli á heimslistanum, Ísland númer 73 og Ísrael númer 75. Liðin áttu að mörgu leyti áþekka undankeppni EM á síðasta ári, Ísrael endaði reyndar með 15 stig en Ísland með 10, og þau gerðu tvisvar jafntefli fyrir tveimur árum þegar þau voru saman í riðli í Þjóðadeildinni en leikar fóru 2:2 í bæði skiptin.

Það er einmitt frammistaðan í Þjóðadeildinni árið 2022 sem færði báðum liðum sæti í þessu umspili en Ísraelsmenn unnu þá riðilinn og Ísland hafnaði í öðru sæti. Ísraelska liðið er því fyrir vikið í A-deild Þjóðadeildarinnar 2024-2025 sem hefst í haust.

Margir möguleikar

Åge Hareide hefur ýmsa möguleika í liðsuppstillingu sinni fyrir leikinn í kvöld, sérstaklega á miðjunni og í sóknarstöðunum. Hákon Rafn Valdimarsson heldur vafalítið markvarðarstöðunni eftir góða frammistöðu í Portúgal í nóvember og vörnina skipa væntanlega þeir Guðlaugur Victor Pálsson, Sverrir Ingi Ingason, Hjörtur Hermannsson og Kolbeinn Birgir Finnsson.

Arnór Ingvi Traustason og Jóhann Berg Guðmundsson verða örugglega á miðjunni og líklega Hákon Arnar Haraldsson með þeim og þá er sennilegt að Albert Guðmundsson og Willum Þór Willumsson verði á köntunum og Orri Steinn Óskarsson fremsti maður.

Arnór Sigurðsson, Jón Dagur Þorsteinsson, Andri Lucas Guðjohnsen, Alfreð Finnbogason og Ísak Bergmann Jóhannesson gera einnig allir tilkall til sætis í liðinu. Þá má ekki gleyma því að Kristian Nökkvi Hlynsson er fastamaður í byrjunarliði hollenska stórveldisins Ajax.