Helgi Hjörvar
Helgi Hjörvar
Að vera framarlega í olíuútskiptunum verður líka mikilvægt markaðsmál ef við ætlum að halda áfram að selja fisk og ferðaþjónustu sem hágæðavöru.

Helgi Hjörvar

Við Íslendingar framleiðum talsverða græna orku. Samt brennum við svo mikilli olíu að jafngildir átta lítrum á dag á hvern Íslending. Lífskjör okkar byggjum við að verulegu leyti á þessari olíubrennslu í sjávarútvegi, ferðaþjónustu, inn- og útflutningi og margs konar annarri starfsemi. Þetta er meiri olíubrennsla en flestar aðrar þjóðir heims brenna á hvern íbúa.

Góðu fréttirnar

Eru þær að við getum í fyrirsjáanlegri framtíð sjálf framleitt rafeldsneyti og notað í stað allrar þessarar olíu. Það verður stærsta skref Íslands til sjálfbærni. Sparar líka ótrúlegar fjárhæðir í gjaldeyri. En eins og hver manneskja sér í hendi sér þarf að virkja nokkuð mikið til að koma í stað átta olíulítra á dag á hvert okkar.

Getum við virkjað minna?

Skipafélög hafa þegar sjósett rafeldsneytisskip og minni flugvélar knúnar grænni orku eru þegar komnar fram. Spurningin er því ekki hvort þetta gerist, heldur hvernig og hve hratt. Oft eru breytingar til skamms tíma ofmetnar en vanmetnar til lengri tíma. Vonandi verður orkunýtni góð í þessum lausnum og það gæti dregið úr virkjanaþörf. Vonandi spörum við líka orku og nýtum betur. En það þarf samt alltaf mikið til að losna við átta olíulítra á dag á hvert okkar.

Sum spyrja hvort við getum þá ekki bara lokað einu álveri og virkjað þess minna? En við megum ekki leysa eigin loftslagsvanda með því að ýta framleiðslu yfir á fátæk ríki þróunarlandanna sem öllum verksmiðjum taka fagnandi. Þá hefur enginn vandi verið leystur heldur bara enn einu sinni fluttur til þróunarlanda.

En við framleiðum svo ógurlega mikið ál hugsa sum eðlilega. En í staðinn framleiðum við ekkert stál, gler, steinsteypu, timbur, járn, áburð o.fl. sem aðrar þjóðir framleiða fyrir okkur í sínu kolefnisspori.

Just stop oil

Það er nafnið á beinskeyttustu samtökunum til lausnar loftslagsvandanum. Því þótt ýmislegt geti hjálpað í loftslagsmálum þá snýst lausnin fyrst og fremst um að stöðva notkun jarðefnaeldsneytis.

Við Íslendingar erum í þeirri öfundsverðu stöðu að geta það. Við eigum enn góða virkjunarkosti í vatni og jarðhita og nýting vindorku er að langmestu leyti afturkræf hvað umhverfisáhrif varðar. Fámenn þjóð nýtur ekki stærðarhagkvæmni í samkeppni þjóðanna, en hún getur verið fljót til og framarlega í þróun. Það erum við ekki lengur. Næstu nágrannar okkar, Norðmenn, hafa eins og fjölmargar aðrar þjóðir þegar hafið fjárfestingar í rafeldsneytisframleiðslu. Jafnvel Færeyingar hafa komið sér upp vindorkuverum. En hér eru þetta bara hugmyndir á blaði. Samt er gríðarlega spennandi nýsköpun í þróun nýrra orkulausna fyrir loftslagið. Þar eru áhugaverð þekkingarstörf og ört vaxandi fjárfestingar í grænu hagkerfi. Þekking þeirra sem framarlega standa í þeim lausnum er eftirsótt vara um allan heim.

Að vera framarlega í olíuútskiptunum verður líka mikilvægt markaðsmál ef við ætlum að halda áfram að selja fisk og ferðaþjónustu sem hágæðavöru. Því hágæðavöru kaupa kröfuharðir neytendur sem gera munu kröfu um að fiskur og ferðalög þeirra skaði ekki umhverfið. Þar verður einfaldlega krafist vottana.

Það er ekki nóg að tala um loftslagsmál. Það þarf að sýna árangur í jafn mikilvægu verkefni og þetta er fyrir okkur sem þjóð og heiminn allan.

Höfundur vinnur að loftslagsverkefnum.