Óboðlegt uppreisnartal formanns VR

Greint var í gær frá ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að halda stýrivöxtum óbreyttum og m.a. vísað til endurskoðaðra þjóðhagsreikninga Hagstofu, sem sýna meiri hagvöxt en fyrri tölur og hitinn í hagkerfinu því meiri en áður var talið.

Tilkynningin varð sumum vonbrigði í ljósi nýgerðra kjarasamninga við þorra launþega á almennum vinnumarkaði og ólíklegt að samningar hins opinbera verði verulega frábrugðnir.

Þess var þó ekki að vænta að stýrivextir myndu samstundis lækka. Það hefði verið óvarlegt; nánast merki um að hætta væri liðin hjá og óhætt að spenna bogann á ný í einkaneyslu sem fjárfestingu. Svo er ekki og ákvörðun Seðlabankans er skynsamleg.

Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, sagði ákvörðunina skiljanlega. Blekið væri vart þornað og áhrif samninga ekki komin í ljós, t.d. hvort kostnaðurinn leiti út í verðlag.

Önnur og undarlegri hljóð heyrðust frá Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR.

Hann sagði að sér kæmi ákvörðunin ekki á óvart, en skildi ekkert í því að ekki væru hreinlega óeirðir á götum úti. Eitthvað yrði að gera og hvatti hann til uppreisnar ef stjórnvöld gripu ekki inn í!

Ekki er óþekkt að verkalýðsforingjar grípi til gífuryrða, en enginn þeirra hefur viðhaft slíka herhvöt, hvað þá sem hótun láti stjórnvöld ekki að vilja hans um að brjóta sjálfstæði Seðlabankans.

Mögulega eru átök innan VR ástæða ofstopans, en formaðurinn er sagður hafa glatað meirihlutastuðningi stjórnarinnar. Það gildir þó einu; slíkt ójafnvægi er stærsta launþegafélagi landsins ósamboðið.