Hörður Þorsteinsson fæddist 4. september 1952 í Reykjavík. Hann lést á Landspítalanum 29. febrúar 2024.

Foreldrar hans voru Unnur Guðmundsdóttir húsmóðir, f. 1929, d. 2016 og Þorsteinn Lárus Pétursson vélstjóri, f. 1925, d. 2006.

Hörður var næstelstur fjögurra systkina, hin eru Rut, f. 1948, Hafdís, f. 1957 og drengur, f. 1961, d. 1961.

Eftirlifandi eiginkona Harðar er Kristín Gunnarsdóttir ljósmóðir/hjúkrunarfræðingur, f. 1954. Foreldrar hennar voru Gunnar Hafsteinn Valdimarsson, bóndi og sjómaður, f. 1928, d. 1996 og Elsa Kjartansdóttir, bóndi og verkamaður, f. 1937, d. 2011. Þau hófu búskap árið 1982.

Börn Harðar og Kristínar eru: 1) Unnur Heiða, f. 1986, eiginmaður Bjarni Kristinn Gunnarsson, f. 1985, þeirra börn eru Kormákur Bragi, f. 2014, Þorbjörn Kjartan, f. 2016 og Úlfhildur Brák, f. 2020. 2) Gunnar Guðni, f. 1991, kærasta Elizabeth Christina Greasley, f. 1986. Barn hans með Lindu Rós Alfreðsdóttur er Guðný Gerður, f. 2014.

Hörður ólst upp í Kópavogi og bjó þar í mörg ár. Hann bjó á nokkrum stöðum í Reykjavík þangað til þau fluttu á Selfoss 1990.

Þau fluttu aftur til Reykjavíkur árið 2015 og til Mosfellsbæjar í ágúst 2019 þar sem hann bjó þar til hann lést.

Hann fór snemma á sjó og vann sem sjómaður í mörg ár, bæði á togurum og millilandaskipum. Hann fékk vinnu hjá Vatnsveitu Reykjavíkur fljótlega eftir að hann kom í land. Vatnsveitan varð síðar að Orkuveitu Reykjavíkur þar sem hann vann til ársins 2010. Hörður sneri ekki aftur til vinnu sökum heilsuleysis.

Útförin fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 21. mars 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Það kom að því að hjartað gaf sig, enda kannski ekki skrítið eftir öll þessi ár.

Ég og pabbi áttum gott samband. Við vorum mjög oft ósammála en það var líka gott mál. Ég hef alltaf verið hvött til að hugsa fyrir mig sjálfa enda vorum við sennilega sammála um grundvallaratriðin.

Ég á margar góðar minningar úr æsku. Þær sem tengjast pabba eru margar hverjar tengdar bókum eða bíómyndum. Pabbi var ekkert sérstaklega þolinmóður og í raun ekki ég heldur. Við gátum þó eytt löngum stundum saman á vídeóleigum (aðallega af því að ég var með valkvíða) eða á bókamörkuðum. Ef ég stakk upp á að fara á einhvern markað þá var hann fljótur að segja já.

Pabbi sagði reyndar sjaldan eða bara mögulega aldrei nei við mig. Enda sá mamma bara um þann part í uppeldinu. Ég var svo sem ekki að biðja oft um eitthvað en sá eiginleiki hjá honum hélt beint áfram til barnabarnanna. Ein lítil dæmisaga: Það var bara í desember síðastliðnum einn daginn að ég var ein að elda kvöldmat, Bjarni var með strákana einhvers staðar að heiman og amma Stína var heldur ekki heima. Ég sagði Úlfhildi að hún ætti að sinna sér sjálf. Þegar maturinn er svo tilbúinn finn ég hana niðri hjá pabba. Þá situr hún á móti afa við eldhúsborðið og er að borða kornflex úr skál með vænum skammti af íssósu. „Pabbi! Ertu að gefa henni þetta núna!?“ „Já, hvað? Hún bað mig um þetta.“ Hún skælbrosti svo bara framan í afa sinn og fyllti aðra skeið. Pabbi var svo innilega hneykslaður á mér að finnast þetta eitthvað athugavert að ég gat bara ekkert sagt.

Ég held að hann hafi notið þess virkilega að verða afi. Ef hann hefði ekki lifað af aðgerðina 2012 þá hefði hann ekki kynnst þeim. Því erum við mjög þakklát fyrir tímann sem við fengum og ég tel þá ákvörðun okkar Bjarna að flytja inn með mömmu og pabba haustið 2019 með þeim betri sem við höfum tekið.

Þó svo að það sé erfitt að kveðja þá er líka gott að vita til þess að hann sé laus við þetta heilsubras. Ef til er annað tilverustig, þá sé ég pabba fyrir mér sitjandi, beran að ofan, kaffibrúnan, utandyra í sólinni með sólgleraugu. Hann er með kaffibolla á borði við hliðina á sér og leysir krossgátu. Tónlist ómar, ekki gamalmennatónlist heldur Neil Diamond eða Kinks og svo liggur Kátur við fæturna á honum. Þannig að ekki er hann einn á meðan.

Að lifa kátur líst mér máti bestur.

Þó að bjáti eitthvað á

að því hlátur gera má.

(Sigurður Breiðfjörð)

Hvíl í friði pabbi minn.

P.s. Skilaboð frá Kormáki Braga Bjarnasyni: „Afi var góður maður og ég mun sakna hans.“

Þín dóttir,

Unnur Heiða
Harðardóttir.

Jæja elsku pabbi minn. Ég er búinn að sitja og byrja að skrifa þessi síðustu raunverulegu orð mín til þín oft. En ég hef átt erfitt með að byrja. Mig grunar að það sé vegna þess að stór hluti trúir því ekki að ég eigi ekki meiri tíma með þér.

Hugsandi um tímann verður mér hugsað til texta Brians May:

There's no time for us

There's no place for us

What is this thing that builds our dreams, yet slips away from us.

Who wants to live forever

Við hlustuðum saman á þetta lag þegar ég sat og hélt í höndina á þér á hlaupársdagsnótt. Nokkrum mínútum eftir að laginu lauk fóru lífsmörkin þín og þú kvaddir þetta tilverustig og fannst ekki lengur til. Átján mínútur yfir eitt, sem er táknrænt, því átján dögum eftir að hljómsveitin Queen gaf út þetta lag fæddist Unnur systir.

Tíminn sem við fengum saman hefði getað verið styttri, bæði vegna allra skiptanna sem þú fórst á spítalann en komst samt aftur heim og einnig stundarinnar þegar mamma gaf þér erfiðan valkost á erfiðum tíma, þá valdir þú börnin.

Fyrir vikið á ég mun fleiri minningar með þér. Góðar og slæmar. Þú sást mig syngja og spila og þótt þú hafir ekki sagt það við mig oft, þá fann ég að þú varst stoltur af mér. Við rifumst ekki mikið og við urðum stundum reiðir hvor út í annan, en við höfðum tíma til að fyrirgefa hvor öðrum.

En mikilvægast er að ég hafði tíma til að kynnast pabba mínum og þú hafðir tíma til að kynnast mér.

Fyrsta minningin sem ég á með þér einum er þegar ég var kannski fimm ára og þú varst úti í bílskúr að setja plötur í spilarann. Ég spurði hvað þetta væri og þú skaust frá þér „Zeppelin“ og hneykslaðist á því að barnið vissi ekki hvað Zeppelin væri, en fyrst svo væri þá þyrfti ég að heyra „Stairway to Heaven“ fyrst. Þá tengdumst við eins og við gerðum svo alltaf í gegnum tónlistina.

Við töluðum ekki mikið saman þegar ég var barn, en það breyttist svo þegar ég varð eldri. Ég man það greinilega, að einhvern veginn vissir þú allt sem mér datt mögulega í hug að spyrja þig um. Mig grunar núna að forvitnina, sem ég hélt ég hefði frá Steina afa, hafi ég raun fengið frá þér. Húmornum fékk ég brot af, enda varst þú með einstakt skopskyn. Þú fórst svo langt, lengra en flestir, en sjaldan þurftir þú að biðjast afsökunar, því þú varst með þá náðargáfu að geta sagt hér um bil hvað sem er við (eða um) hvern sem er og fólk vissi að þú værir að grínast eða ögra þótt þér hafi fundist það öllu öðru fyndnara þegar fólk tók þig alvarlega, því þá birtist brosglampi í auganu á þér sem ég man svo vel. Ég hló með þér í tíma og ótíma.

Núna er tíminn farinn frá okkur pabbi minn, en ég þakka þér fyrir hann allan, hið góða og hið slæma. Ég þakka fyrir tímann sem okkur fjölskyldunni auðnaðist, ég þakka fyrir aukatímann sem við fengum eftir seinni opnu hjartaaðgerðina sérstaklega, því á þeim tíma kynntist þú öllum afkomendum þínum sem komnir eru þegar þessi orð eru rituð.

Því í okkur lifir þú að eilífu.

Takk fyrir tímann pabbi. Ég elska þig. Hvíl í friði.

Þinn sonur,

Gunnar Guðni Harðarson.