Í toppbaráttunni Guðmundur Kjartansson er í 2.-19. sæti með 5½ v. Hann stendur vel að vígi ef til stigaútreiknings kemur í mótslok.
Í toppbaráttunni Guðmundur Kjartansson er í 2.-19. sæti með 5½ v. Hann stendur vel að vígi ef til stigaútreiknings kemur í mótslok. — Ljósmyndir/Ómar Óskarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alisher Suleymenov frá Kasakstan tók forystu á Reykjavíkurmótinu þegar hann vann Tyrkjann Vahap Sanal í sjöundu umferð á þriðjudaginn og hafði þar með hlotið 6 vinninga af sjö mögulegum, ½ vinningi meira en 18 skákmenn sem voru allir með 5½ vinning

Skák

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

Alisher Suleymenov frá Kasakstan tók forystu á Reykjavíkurmótinu þegar hann vann Tyrkjann Vahap Sanal í sjöundu umferð á þriðjudaginn og hafði þar með hlotið 6 vinninga af sjö mögulegum, ½ vinningi meira en 18 skákmenn sem voru allir með 5½ vinning. Þar af voru fjórir íslenskir stórmeistarar: Guðmundur Kjartansson, Héðinn Steingrímsson, Hannes Hlífar Stefánsson og Jóhann Hjartarson.

Í gærkvöldi fór fram áttunda og næstsíðasta umferð en úrslit lágu ekki fyrir þegar blaðið fór í prentun. Lokaumferðin hefst svo kl. 11 í dag.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu mótsins, Reykjavikopen.com. Búast má við því að mótið vinnist á 7½ vinningi sem þýðir að íslensku skákmennirnir eiga allir möguleika þó að róðurinn muni þyngjast á lokasprettinum.

Alisher Suleymenov er eini fulltrúi Kasakstan. Hann komst fréttirnar sl. haust þegar hann lagði Magnús Carlsen að velli á Opna mótinu í Katar.

Keppendur koma víða að

Tæplega 400 keppendur hófu keppni í Hörpu sl. föstudag. Koma þeir víða að. Sumir mæta til leiks ár eftir ár og má þar nefna Hollendinginn Eric Winter og indversku skákdrottninguna Taniu Sachdev. Hún fer fyrir hóp indverskra skákmanna sem í dag hafa náð forystuhlutverki í skákheiminum, sem kemur t.d. fram í áskorendakeppninni þar sem þrír indverskir skákmenn af átta eiga þátttökurétt. Flestir keppendur koma frá Englandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Norðurlandaþjóðirnar eiga fjölmarga fulltrúa. Áhrifavaldar setja skemmtilegan svip á keppnina en mér telst svo til að átta ungar konur „streymi“ skákum sínum frá mótsstað.

Lykilsigrar

Mótið í Hörpu er frekar stutt, níu umferðir, og í samhengi við hinn mikla fjölda þátttakenda verða þeir sem berjast um efsta sætið að vinna lykilskákir í baráttunni. Af íslensku þátttakendunum hafa Björn Þorfinnsson og Hilmir Freyr Heimisson náð að vinna skákmenn með yfir 2.500 elo-stig. Hilmi Frey tókst þetta í fimmtu umferð þegar hann vann einn öflugasta skákmann Tyrkja með glæsibrag:

Reykjavíkurskákmótið 2024, 5. umferð:

Cem Gokerkan – Hilmir Freyr Heimisson

Berlínarvörn

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 Rf6

Berlínarvörnin, ein af fjölmörgum leiðum svarts til að mæta spænska leiknum.

4. d3 Bc5 5. Rbd2 O-O 6. Bxc6 dxc6 7. Rxe5 He8 8. Rg4

Hann gat einnig hörfað til f3 en þá leikur svartur 8. …d5 og á góða stöðu.

8. … Rxg4 9. Dxg4 d5 10. Dh5

Sennilega hefur Gogkerkan búist við 10. … f5 sem er raunar ágætis leikur en svartur á enn beittara framhald.

10. … dxe4!?

Fórnar biskupinum.

11. Dxc5 exd3+ 12. Kd1 dxc2+ 13. Kxc2 Df6! 14. a4 Hb8!?

Hann vildi halda því opnu að leika Bf5+ eða – Dg6. „Vélarnar“ mæla með 13. … Bf5 því nú gat Tyrkinn leikið 14. Kd1 sem svara mætti með 14. … Ba6 með flókinni stöðu.

15. Ha3 Dg6+ 16. Kc3?

Feigðarflan. Best var 16. Kd1 Dxg2 17. Hf1 og hvítur getur varist.)

16. … Dxg2 17. Hd1 Bg4 18. f3 De2!

Eftir þennan öfluga leik verður stöðu hvíts vart bjargað, hróknum á d1 er ógnað og e3-reiturinn er laus fyrir svarta hrókinn.

19. Hg1 He5! 20. Dxa7 He3+ 21. Kd4 Hd8+ 22. Kc5 Hxa3 23. Dxc7 De3+ 24. Kb4 Hd4+ 25. Rc4 Db3+

– Óverjandi mát í þrem leikjum. Hvítur gafst upp.