Hlíðarendi Gylfi Þór Sigurðsson mætti á sína fyrstu æfingu með Valsmönnum á þriðjudaginn en hann skrifaði undir tveggja ára samning við félagið.
Hlíðarendi Gylfi Þór Sigurðsson mætti á sína fyrstu æfingu með Valsmönnum á þriðjudaginn en hann skrifaði undir tveggja ára samning við félagið. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég er mjög spenntur að byrja að spila aftur,“ sagði knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson í samtali við Morgunblaðið á Hlíðarenda í gær. Gylfi Þór, sem er 34 ára gamall, skrifaði á dögunum undir tveggja ára samning við Val og mun…

Fótbolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Ég er mjög spenntur að byrja að spila aftur,“ sagði knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson í samtali við Morgunblaðið á Hlíðarenda í gær.

Gylfi Þór, sem er 34 ára gamall, skrifaði á dögunum undir tveggja ára samning við Val og mun hann leika með liðinu á komandi keppnistímabili í Bestu deild karla.

Miðjumaðurinn lék síðast með Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni en rifti samningi sínum í janúar á þessu ári.

Hann hefur dvalið á Spáni síðustu mánuði í endurhæfingu vegna meiðsla sem hafa verið að hrjá hann frá því hann sneri aftur á knattspyrnuvöllinn með Lyngby í september á síðasta ári eftir rúmlega tveggja ára fjarveru.

Gylfi hefur leikið með Reading, Shrewsbury, Crewe, Hoffenheim, Swansea, Tottenham, Everton og Lyngby á atvinnumannaferlinum en er nú mættur aftur heim til Íslands eftir 19 ár í atvinnumennsku.

„Það er góð stemning í hópnum, ég þekki marga leikmenn hérna og hef spilað með þeim áður. Þetta er frábært félag, aðstaðan og æfingatímarnir eru til fyrirmyndar og þetta hentaði mér mjög vel á þessum tímapunkti. Þeir eru búnir að vera á eftir mér í einhvern tíma og ég fann virkilega að þeir höfðu áhuga á mér. Það var eitthvað sem sagði mér að skrifa undir á Hlíðarenda og það er gott að vera búinn að klára það,“ sagði Gylfi þegar hann var spurður af hverju hann hefði ákveðið að semja við Val.

Gylfi er uppalinn hjá FH í Hafnarfirði og lék líka með Breiðabliki í yngri flokkunum en hann hafði áður gefið það út að ef hann myndi spila aftur á Íslandi yrði það með uppeldisfélaginu í Hafnarfirði.

„Ég heyrði ekkert frá Breiðabliki á meðan FH-ingar buðu mér að koma á æfingar hjá sér. Bæði síðasta sumar og mér var einnig boðið með liðinu í æfingaferð til Spánar þar sem það er statt núna. Mér var hins vegar aldrei boðinn samningur hjá þessum félögum.

Ég var ekki alveg á þeim buxunum að fara að hringja beint í þá og biðja um samning en svona er þetta stundum. Ég bjóst ekki við því að spila aftur á Íslandi og ég bjóst ekki við því að spila með öðru félagi en FH á Íslandi en það gerast stundum óvæntir hlutir í þessu lífi.“

Mikill Valsari í dag

Gylfi mætti á alla leiki Vals og Tindastóls í úrslitaeinvígi Íslandsmóts karla í körfuknattleik síðasta vor, þar sem Tindastóll hafði betur í oddaleik, og var þá strax byrjað að orða leikmanninn við Val.

„Ég er orðinn mikill Valsari í dag og í raun alveg frá því að maður upplifði þessa úrslitakeppni á síðustu leiktíð. Þetta var í fyrsta sinn sem ég mæti á leiki í úrslitakeppninni og í fyrsta sinn sem ég hef í raun haft einhvern tíma til þess.

Stemningin var algjörlega frábær og þarna upplifði ég stemninguna í kringum félagið af alvöru. Þetta er ein risastór fjölskylda, allir leikmennirnir í öllum þessum íþróttagreinum, og það heillaði mig mjög mikið.“

Gylfi spilaði síðast keppnisleik fyrir Lyngby í nóvember á síðasta ári og því verið fjarverandi frá knattspyrnuvellinum í rúma fjóra mánuði.

„Mér finnst ég vera í góðu formi og standi. Það er vissulega langt síðan ég spilaði síðast en ef ég miða þetta við landsleikina sem ég spilaði í október þá finnst mér ég í betra standi núna en þá. Ég er búinn að æfa mjög vel síðustu fjórar vikur og ég æfði líka mjög vel áður en ég meiddist.

Ég hef líka verið mjög samviskusamur í minni endurhæfingu og ég hef æft vel í frekar langan tíma. Ég geri mér samt grein fyrir því að ég er ekki að fara spila 90 mínútur í vikunni eða næstu viku. Það er samt ekki langt í að ég komist á þann stað.“ Valsmenn eru með eitt best mannaða lið Bestu deildarinnar, undir stjórn Arnars Grétarssonar, en liðið hafnaði í öðru sæti deildarinnar á síðustu leiktíð með 55 stig, ellefu stigum minna en topplið Víkings úr Reykjavík.

„Það er alltaf ákveðin pressa innan félagsins, bæði hjá leikmönnum, stjórninni, þjálfurum og stuðningsmönnum liðsins, að berjast um alla þá bikara sem í boði eru. Það hefur ekkert breyst með komu minni.

Fyrir mér er pressan af hinu góða og ég tel okkur geta nýtt hana á jákvæðan hátt. Víkingarnir unnu tvöfalt í fyrra og þeir eru búnir að vera mjög sigursælir undanfarin ár þannig að ég myndi segja að pressan væri mest á þeim, farandi inn í tímabilið, en við ætlum okkur klárlega að berjast á toppnum,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson.