Vel hermannað sjúkrahús

Undarlegt er að fylgjast með því, að fréttastofur hérlendis, og ýmsar slíkra ytra, láta einatt eins og fréttir frá „yfirvöldum“ á Gasa-svæðinu séu jafn áreiðanlegar um mannskaða þar og gengur og gerist í sambærilegum stofnunum í lýðræðisríkjum.

Vandinn í umræðunni um það sem gerist í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafsins um þessar mundir er ekki síst sá, að á þessu svæði er aðeins eitt lýðræðisríki og býr við það aðhald sem lýðræðislegum stofnunum er almennt ætlað að tryggja.

En eins og sagan hefur löngum sýnt, þá er stjórnarandstaðan í Ísrael mjög aðhaldssöm gagnvart þeirri ríkisstjórn, sem situr á hverjum tíma. Fréttastofa „RÚV“ á Íslandi tekur allar fréttir þar sem vitnað er í „yfirvöld“ á Gasa, og oftast „heilbrigðisyfirvöld“ á Gasa, eins og þar sé farið með heilagan sannleik. Þó vita flestir, sem eitthvað vita, að einu yfirvöldin á Gasa, og þar með talin þau sem fara með heilbrigðismál, er hermdarverkasveitin Hamas, og að þau yfirvöld voru „kosin til valda“ fyrir tæpum 20 árum og hafa talið óþarft að endurtaka þær kosningar, enda hafi þessar gömlu dugað prýðilega, að mati hers Hamas, sem eru einu yfirvöldin á svæðinu!

Nýlega var sagt frá því að hermenn Ísraels hefðu gert árás inn í Al Shifa-sjúkrahúsið, sem er það stærsta á Gasa. Samkvæmt fréttum frá hernaðaryfirvöldum í Ísrael síðustu daga féllu tveir úr liði hersins.

Þá hafi 90 byssumenn verið felldir og 160 teknir höndum í sjúkrahúsinu og færðir til yfirheyrslu, en tugir þeirra voru sagðir heyra til hryðjuverkasveita Hamas, en aðrir þeirra voru færðir í yfirheyrslur til að ganga úr skugga um stöðu þeirra.

Stofnun SÞ, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, fordæmdi árásina á sjúkrahúsið harðlega og fullyrti að slíkar aðgerðir settu sjúklinga og starfsmenn í augljósa hættu og eins almenna borgara, sem leitað höfðu skjóls í sjúkrahúsinu. Talsmenn WHO töldu ekki ástæðu til að fjalla um alla þá sem höfðu komið sér fyrir í sjúkrahúsinu, rækilega vopnaðir í bak og fyrir.