Vindorkugarður Vindmyllurnar eru vel sýnilegar frá þjóðvegi 1 í Norðurárdal á samsettri mynd sem birt er í matsáætlun vegna umhverfismats.
Vindorkugarður Vindmyllurnar eru vel sýnilegar frá þjóðvegi 1 í Norðurárdal á samsettri mynd sem birt er í matsáætlun vegna umhverfismats. — Samsett mynd/ Hrjónur ehf. matsáætlun
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Ný áform hafa verið kynnt um að reisa vindorkugarð á Grjóthálsi á Holtavörðuheiði á jörðunum Hafþórsstöðum og Sigmundarstöðum í Borgarbyggð. Það er félagið Hrjónur ehf. sem hefur í undirbúningi að setja upp tíu til 14 vindmyllur á Grjóthálsi og er gert ráð fyrir að afl hverrar vindmyllu verði 6,6 til 7,2 MW. Uppsett heildarafl í vindorkugarðinum yrði þá á bilinu 66 til 100 MW.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Ný áform hafa verið kynnt um að reisa vindorkugarð á Grjóthálsi á Holtavörðuheiði á jörðunum Hafþórsstöðum og Sigmundarstöðum í Borgarbyggð. Það er félagið Hrjónur ehf. sem hefur í undirbúningi að setja upp tíu til 14 vindmyllur á Grjóthálsi og er gert ráð fyrir að afl hverrar vindmyllu verði 6,6 til 7,2 MW. Uppsett heildarafl í vindorkugarðinum yrði þá á bilinu 66 til 100 MW.

Hrjónur hafa lagt fram matsáætlun til Skipulagsstofnunar vegna umhverfismats fyrir vindorkugarðinn. Áætlanir hafa áður verið uppi um að setja upp vindmyllur á þessu framkvæmdasvæði sem kynntar voru í matsáætlun árið 2020 en breytingar hafa nú verið gerðar á fyrri áformum.

„Vindmyllur verða fleiri en áður var ætlað eða 10-14 í stað 2-6 og aflgeta á bilinu 66-100 MW í stað 9,8-30 MW.

Vindmyllur verða hærri en áður var ætlað eða um 180 m háar með spaða í efstu stöðu í stað 135-150 m. Í fyrri matsáætlun var fallið frá 180 m háum vindmyllum eftir greiningu á sjónrænum áhrifum. Síðan það var hefur verkefnið þróast og unnið frekar í nánari staðsetningu vindmylla innan svæðis. Greining sjónrænna áhrifa í fyrri matsáætlun miðaði við staðsetningu vindmylla á hæstu punktum á svæðinu en frekari greining hefur leitt í ljós að slíkt verður ekki raunin,“ segir í matsáætlun sem birt hefur verið í skipulagsgátt.

Bent er m.a. á að mikil framþróun eigi sér stað í tækni hvað vindmyllur varðar og einnig að eftir að fyrstu hugmyndir komu fram á sínum tíma hafi Landsnet lagt fram hugmyndir um uppfærða háspennulínu, Holtavörðuheiðarlínu 1. Hún gefi kost á aukinni framleiðslu og því var ákveðið að fjölga vindmyllunum þar sem hagkvæmara sé að reisa vindorkugarð með fleiri vindmyllum, einkum vegna fasts uppsetningar- og viðhaldskostnaðar.

Í ítarlegri lýsingu á verkefninu í matsskýrslunni, sem unnin var af COWI (áður Mannviti), er m.a. bent á að nálægð við raforkuflutningskerfið sé stór kostur og náttúruleg skilyrði til að virkja vind virðist vera með besta móti á þessu svæði. Borgarbyggð hafi á sínum tíma unnið könnun á hentugri nýtingu vindorku í sveitarfélaginu og Grjótháls verið einn af álitlegustu kostunum.

„Val á staðsetningu fyrirhugaðs vindorkugarðs er m.a. til komið vegna þess að náttúruleg skilyrði til þess að virkja vind virðast vera með besta móti á svæðinu. Svæðið stendur tiltölulega hátt og er mjög opið fyrir vindi. Samkvæmt líkanreikningum er vindhraði að jafnaði 9,2 m/s, úr NA-átt í um 50% tilvika og úr SV-átt í um 40% tilvika,“ segir í matsáætluninni.

Í umhverfismatinu á m.a. að meta ítarlega sýnileika vindorkugarðsins og birta ásýndarmyndir frá ýmsum stöðum í allt að 40 km fjarlægð.

Höf.: Ómar Friðriksson