Námsstyrkir Þeir sem leggja fyrir sig leigubílstjóranám geta fengið styrki úr atvinnuleysistryggingasjóði fyrir 75% kostnaðar að skilyrðum uppfylltum.
Námsstyrkir Þeir sem leggja fyrir sig leigubílstjóranám geta fengið styrki úr atvinnuleysistryggingasjóði fyrir 75% kostnaðar að skilyrðum uppfylltum. — Morgunblaðið/Ómar
Alls hafa 48 manns þegið styrk frá Vinnumálastofnun til að sækja námskeið hjá ökuskólum til öflunar réttinda til leigubílaaksturs og meiraprófs sl. fimm mánuði, þ.e. frá október 2023. Styrkfjárhæðin nemur tæpum fjórum milljónum króna á þessu tímabili

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Alls hafa 48 manns þegið styrk frá Vinnumálastofnun til að sækja námskeið hjá ökuskólum til öflunar réttinda til leigubílaaksturs og meiraprófs sl. fimm mánuði, þ.e. frá október 2023. Styrkfjárhæðin nemur tæpum fjórum milljónum króna á þessu tímabili. Tæplega 70% styrkþega eru útlendingar. Þetta kemur fram í svari Vinnumálastofnunar við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Spurt var um fjölda þeirra sem fengið hafa fjárstyrk til að sækja námskeið sem veita réttindi til leigubílaaksturs frá árinu 2020, fjárhæð styrkja og þjóðerni styrkþega.

Í svari stofnunarinnar kemur fram að umbeðnar upplýsingar séu einungis til frá október 2023 þar sem styrkgreiðslur þessar hafa ekki verið sundurliðaðar eftir tegund námskeiða eða upprunalandi styrkþega fyrr en nýlega.

Þegar litið er til þjóðernis styrkþega kemur í ljós að tæplega 70% þeirra eru útlendingar, flestir frá Póllandi eða 12 manns. Alls er fjöldi þeirra sem eru frá Austur-Evrópu 17, 11 koma frá Mið-Austurlöndum og fimm frá Vestur-Evrópu utan Íslands. Íslendingar voru 15 talsins á fyrrgreindu tímabili.

Reglur kveða á um að Vinumálastofnun sé heimilt að greiða styrki til atvinnuleitenda til að sinna starfstengdu námi eða námskeiði sem líklegt sé að skila viðkomandi styrkþega árangri við að finna sér starf. Þeir einir eigi rétt á þessum styrkjum sem hafa áunnið sér rétt til atvinnuleysistrygginga og teljast tryggðir samkvæmt lögunum. Styrkur þessi er greiddur úr atvinnueysistryggingasjóði á grundvelli reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr sjóðnum. Styrkurinn getur verið 75% að hámarki af námskeiðsgjaldi en þó aldrei hærri en 80.000 kr. á ári til hvers atvinnuleitanda.

Frá 2020 hefur handhöfum leyfa til leigubílaaksturs fjölgað stórlega. Nemur fjölgunin 54% og leyfishöfum fjölgað um 313. Meirihluti þeirra er útlendingar, en þeir eru 163 talsins. Að nokkru má ráða af nöfnum þeirra hvaðan þeir koma og virðast flestir eiga uppruna sinn í Mið-Austurlöndum, en einnig allnokkrir frá löndum í Austur-Evrópu.

Samkvænt yfirliti um leyfishafa til leigubílaaksturs sem finna má á vef Samgöngustofu sést að margir leyfishafar eru ekki skráðir á leigubílastöð, heldur reka þjónustuna í eigin nafni. Síðan eru allnokkrir skráðir á fleiri en einni stöð, bæði sinni eigin og svo annarri til viðbótar, jafnvel á þremur.

Fyrrgreindar tölur um fjáræð styrkja taka aðeins til sl. fimm mánaða, en sé litið til þess fjölda sem aflað hefur sér réttinda til leigubílaaksturs frá 2020, og stundum með óréttmætum hætti, er ljóst að upphæð styrkjanna er mun hærri.