Framkvæmdir Árni Stefánsson, framkvæmdastjóri Húsasmiðjunnar, segir að hægt hafi á eftirspurn undanfarið.
Framkvæmdir Árni Stefánsson, framkvæmdastjóri Húsasmiðjunnar, segir að hægt hafi á eftirspurn undanfarið. — Morgunblaðið/Eggert
Árni Stefánsson, framkvæmdastjóri Húsasmiðjunnar, segir að byggja þurfi mun meira en virðist vera gert nú. Árið 2022 gerðu ríkið og sveitarfélögin rammasamkomulag um aukið framboð íbúða og að byggja þyrfti að lágmarki 35.000 íbúðir til ársins 2032 og þar af 4.000 á ári fyrstu fimm árin

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Árni Stefánsson, framkvæmdastjóri Húsasmiðjunnar, segir að byggja þurfi mun meira en virðist vera gert nú.

Árið 2022 gerðu ríkið og sveitarfélögin rammasamkomulag um aukið framboð íbúða og að byggja þyrfti að lágmarki 35.000 íbúðir til ársins 2032 og þar af 4.000 á ári fyrstu fimm árin.

„Nú liggja fyrir tölur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) um að í fyrra hafi verið lokið byggingu á tæplega 3.000 íbúðum og nýjasta spá frá HMS gerir ráð fyrir að í ár verði aðeins lokið við byggingu um 2.600 íbúða. Nú er ríkið líka að bjóðast til að kaupa allt að 1.200 fasteignir af Grindvíkingum og það mun skapa viðbótareftirspurn á íbúðamarkaði. Þannig að í því ljósi er sannarlega tímabært að staldra við og spá í stöðuna,“ segir Árni í samtali við Morgunblaðið.

Spennandi tímar á byggingamarkaði

Framkvæmdaþing Húsasmiðjunnar verður haldið í dag en tíu ár eru síðan staðið var fyrir slíkum viðburði.

„Okkur finnst tími til kominn að endurtaka þetta þar sem það eru spennandi tímar á byggingavörumarkaði og margar spurningar uppi um þróunina,“ segir Árni.

Árni bætir við að í ljósi íbúðaskorts sé mikilvægt að stjórnvöld dragi til baka aðgerðir sem stuðlað hafa að samdrætti á markaðnum í fyrra þegar endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað var lækkuð verulega ásamt því að lóðarútboð sveitarfélaga hafi hleypt lóðarverði verulega upp.

„Sú aðgerð hefur haft neikvæð áhrif á kostnað við byggingar og aukið kostnað verulega. Einar Þorsteinsson borgarstjóri mun á framkvæmdaþinginu í dag meðal annarra fjalla um lóðaframboð í Reykjavík og ætlar að kynna aðgerðir til að hraða byggingarferli nýframkvæmda.“

Nokkuð hagfelld verðþróun

Árni segir að eftirspurnin eftir byggingarefni hafi verið góð í fyrra en hægt hafi á henni undanfarið. Þar spili inn í háir stýrivextir og hár fjármögnunarkostnaður sem hafi reynst byggingaraðilum erfiður. Hann heyri það að framkvæmdaraðilar séu að halda að sér höndum og fresta verkum vegna óvissu.

Árni bætir við að verðþróun að undanförnu á markaðnum hafi verið nokkuð hagfelld.

„Við höfum ekki hækkað verð á vörum á þessu ári og hráefnaverð er mun stöðugra en það var í faraldrinum og eftir að stríðið í Úkraínu skall á. Markaðurinn er nú í meira jafnvægi en þó hefur verð á timbri erlendis hækkað nýverið en það hefur ekki enn skilað sér á innlenda markaðinn.“

Spurður hvort viðskiptavinir Húsasmiðjunnar sæki meira í ákveðið byggingarefni umfram annað segir Árni að mikil eftirspurn sé nú eftir umhverfisvænum byggingarvörum.

„Við erum einmitt að fjalla sérstaklega um nýjungar þar,“ segir Árni að lokum. Fyrir utan framangreint verður jafnframt fjallað um þróun og horfur á fasteignamarkaðinum, áhrif væntanlegra breytinga á byggingarreglugerðum og skipulagsmál.

Höf.: Magdalena Anna Torfadóttir