Inger Johanne Arnórsson fæddist í Þrándheimi í Noregi 6. september 1925. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sólvangi 11. mars 2024.

Foreldrar hennar voru Peder Olsen, bryti í verslunarflota Noregs, f. 30.3. 1901 í Þrándheimi, d. 16.3. 1975, og Karen Ester húsmóðir, f. 3.9. 1901 í Þrándheimi, d. 7.4. 1982. Þau skildu.

Hinn 20.12. 1952 giftist Inger Einari Arnórssyni verkfræðingi, f. 27.5. 1921, d. 27.11. 2004. Foreldrar hans voru Arnór Aðalsteinn Einarsson bóndi, f. í Garpsdal í Reykhólasveit 9.10. 1880, d. 27.3. 1969, og Ragnheiður Grímsdóttir húsmóðir, f. á Tindum í Kirkjubólshreppi 2.12. 1893, d. 3.1. 1971.

Börn Inger og Einars eru: 1) Tór, prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands, f. 9.11. 1953. 2) Linda, fyrrverandi skrifstofustjóri og fjármálafulltrúi, f. 29.5. 1956, maki Jóhann Gíslason, tannlæknir, f. 18.6. 1952. Dætur þeirra eru: a) Hafdís Magnea, líffræðingur, f. 11.10. 1984, sambýlismaður Ísak Maron Hannesson, f. 20.12. 1996; b) Jóhanna Mjöll sálfræðingur, f. 29.11. 1990, maki Gísli Óskarsson sölumaður, f. 29.1. 1988. Dóttir þeirra er Linda Kristín, f. 2.10. 2020. Sonur Lindu og Björgvins Björgvinssonar, f. 4.10. 1943, er Einar Már, rafeinda- og tölvutæknifræðingur, f. 7.4. 1974, maki María Skúladóttir markaðsstjóri, f. 28.8. 1976. Synir þeirra eru: i) Björgvin Skúli, f. 29.4. 2002, og ii) Huginn Lindar, f. 25.3. 2006. Sonur Jóhanns er Torfi Birkir rafeindavirki, f. 16.1. 1973. Dóttir hans er Steinunn Lilja, f. 31.3. 2012. 3) Hannes útvarpsvirkjameistari, MCSA MS, f. 25.1. 1959, maki Hermie Tabanag, BSc í hótel- og veitingastjórn, f. 24.3. 1965. Börn hans eru: a) Sigurður Ási, f. 27.12. 1977. Synir hans eru: i) Dayman, f. 16.9. 1998, og ii) Hjálmar, f. 11.10. 2003, búsettir í Texas, Bandaríkjunum; b) Karen, f. 26.12. 1985, sambýlismaður Magnús Kristmundur Birgisson, f. 8.7. 1993. Dóttir þeirra er Katla Sigríður, f. 9.12. 2023. Fyrir á Karen soninn Gunnar Elí Ingvarsson, f. 27.5. 2008.

Inger ólst upp í Þrándheimi hjá móður sinni, Karen Ester. Þar kynntist hún tilvonandi eiginmanni sínum, Einari Arnórssyni, sem þá nam vélaverkfræði við NTH. Fluttu þau til Íslands árið 1954. Sumt var henni framandi í byrjun. Eitt var skógleysið, sem tók tímann sinn að venjast, en vandist síðar mjög vel. Annað var, að í þá daga var alsiða að vinir og vandamenn kíktu óboðnir í kaffi, jafnvel á síðkvöldum. Það þekktist varla í Noregi. Hefur þetta reyndar breyst mjög hérlendis hin seinni ár. Inger var alla tíð heimavinnandi húsmóðir, starf sem hún sinnti af miklum myndarbrag.

Útför Inger fer fram frá Fossvogskapellu í dag, 21. mars 2024, klukkan 15.

Það var árið 1981 sem ég kom fyrst í Langagerði 11 og hitti tilvonandi tengdaforeldra mína, Inger og Einar.

Heimilið bar þess vott í ýmsum húsmunum að húsfreyjan væri norskrar ættar. Allt var þar til mikillar fyrirmyndar, hver hlutur á sínum stað og allt hreint og fágað. Þannig var það alltaf í kringum Inger. Hún lagði mikinn metnað í að halda heimilinu fallegu og sjálf var hún alltaf vel tilhöfð og gilti þá einu hvort hún var að fara í fína veislu eða út í búð.

Einari kynnist hún þegar hann var við nám í vélaverkfræði við Tækniháskólann í Þrándheimi. Þau giftu sig 20. desember 1952. Hann útskrifaðist 1953 og bar hún þá frumburðinn undir belti sem fæddist svo 9. nóvember það ár. Inger vildi að Einar yrði um kyrrt í Noregi en út vildi Einar. Það varð að samkomulagi að hún færi með honum til Íslands í eitt ár til prufu og ef henni líkaði ekki skyldi Einar flytja til Noregs. Þetta eina ár varð að sjötíu. Inger lærði fljótt íslensku og var opin fyrir ýmsum skrýtnum nýjungum sem hún kynntist á Íslandi svo sem í matarmenningu. Tók hún slátur, borðaði þorramat og skötu ásamt fleiru. Hún hélt tryggð við föðurlandið og fylgdist alla tíð vel með því sem var að gerast í Noregi. Fáum dögum fyrir andlátið þegar hún átti orðið erfitt um mál spurði hún Lindu hvort hún vissi hvernig líðan Haralds konungs væri.

Margar skemmtilegar samverustundir áttum við, svo sem ferðir í bústað Fjarhitunar í Húsafell, hringferð um landið 1985 að ógleymdum veiðiferðunum í Gljúfurá, en þangað var farið sjö ár í röð og ávallt sá Inger um matinn sem var í engu síðri því sem best gerðist í fínustu laxveiðiám.

Ófáar voru stórveislurnar og matarboðin í Langagerði. Var Inger oft upptekin í eldhúsinu, stundum syngjandi, en gestir mættir og var stundum þungt að halda uppi samræðum í stofunni. Þegar Inger sá sér fært að skjótast augnablik frá pottunum léttist andrúmsloftið á svipstundu þegar hún birtist með sitt glaðlega fas.

Inger var stjórnsöm kona og hennar orðum þýddi ekki að andmæla. Ég reyndi eitt sinn að koma í veg fyrir að hún gæfi þriggja ára dóttur minni Hafdísi karamellu. „Hvað er þetta maður, ert þú ekki tannlæknir?“ sagði hún ákveðið og rétti barninu sælgætið. Ég varð að játa mig sigraðan.

Fjölskyldan var henni allt, börnin og ekki síður barnabörnin nutu ástar og umhyggju hennar í ríkum mæli og einlæg var gleði hennar yfir barnabarnabörnum. Ef eitthvað bjátaði á var Inger ætíð reiðubúin að koma til aðstoðar, var undirritaður þar engin undantekning.

Með þakklæti í huga kveð ég kæra tengdamóður.

Þó í okkar feðrafold

falli allt sem lifir

enginn getur mokað mold

minningarnar yfir.

(Bjarni Jónsson frá Gröf)

Jóhann Gíslason.

Eftir góða og langa ævi er hún elsku amma og höfuð fjölskyldunnar komin í faðm afa, hartnær 20 árum frá því hann kvaddi okkur.

Amma, eða amma Inger eins og hún var oft kölluð, var alveg einstaklega hugulsöm og traust manneskja sem gaf mikið af sér. Stuðningur og klettur í lífi margra okkar sem gerði okkur kleift að ná góðri fótfestu og gaf hún gott veganesti út í lífið. Fyrir það verð ég að eilífu þakklátur. Þetta eru því mikil tímamót og marka ákveðin kaflaskil í okkar fjölskyldusögu að amma skuli nú hafa kvatt okkur, því tilveruna þekki ég ekki án hennar. Einhvern veginn vonaðist maður til að hún myndi vera hér að eilífu.

Bernskuárin mín mótuðust mikið af veru minni á heimili þeirra ömmu og afa í Langagerði. Þangað var alltaf gott að koma og oft mikið um að vera. Heimilishaldið var í föstum skorðum og engan skorti neitt, það var mikil öryggistilfinning sem fylgdi því. Einnig gaf hún amma sér góðan tíma í að sinna mér og öðrum í fjölskyldunni. Mér er það sérstaklega minnisstætt þegar við sátum við borðstofuborðið heima í Langagerði með opna kennslubók og norska amma mín að kenna mér íslenskulestur áður en ég byrjaði í sex ára bekk.

Einnig man ég eftir strætóferðunum með henni niður í miðbæ Reykjavíkur þar sem hún fór reglulega í bókabúð eða Norræna húsið til að skoða Norsk Ukeblad og önnur blöð frá Norðurlöndum. Hún var áskrifandi sumra þessara blaða allt fram á síðasta dag, í nærri 70 ár. Aldrei tók hún bílpróf heldur fór allra sinna ferða með strætó og það vel fram yfir nírætt. Aldrei kvartaði hún yfir því né nokkru öðru, enda með alveg ótrúlega seiglu og metnað í að gera það vel sem hún tók sér fyrir hendur, hvort sem það voru veiðiferðir, veislur og bakstur eða bara að vera glæsileg. Því það verður ekki annað sagt en að amma hafi verið glæsileg og mikill dugnaðarforkur.

Einnig eru það skemmtilegar minningar þegar vinkonur frá Noregi heimsóttu hana og þá flökkuðu þær um allt land og gerðu sér glaðan dag. Einnig fékk maður líka tækifæri á að spreyta sig aðeins á norskunni, þó að íslenskan hafi oft bara dugað. Hún hélt ávallt góðu sambandi við vini og ættingja frá Noregi og voru reglulega dregnar upp myndir og annað sem hún hafði fengið sent með pósti frá Noregi. Það var alltaf skemmtilegt að vita til þess að maður ætti ættingja í útlöndum.

Það er líka ein minning sem er algjörlega greypt í huga okkar allra og það er eldhúsbjallan góða. Hún hljómaði alltaf þegar það var kominn matur, þá var eldhúsbjöllunni hringt nokkrum sinnum og kallað „það er kominn matur“.

Ég tel mig einstaklega lukkulegan að hafa átt ömmu eins og hana Inger. Þakklætið og væntumþykjan mun aldrei hverfa. Vertu blessuð í síðasta sinn elsku amma mín þar til við hittumst aftur. Farvel mor-mor.

Einar Már Björgvinsson.

hinsta kveðja

Nú opnar fangið fóstran góða

og faðmar þreytta barnið sitt;

hún býr þar hlýtt um brjóstið móða

og blessar lokað augað þitt.

Hún veit, hve bjartur bjarminn var,

þótt brosin glöðu sofi þar.

(Þorsteinn Erlingsson)

Takk fyrir allt,

þín dóttir,

Linda.