Stórfjölskyldan Samankomin á sextugsafmæli Laufeyjar, eiginkonu Sigurbjörns, síðastliðið vor.
Stórfjölskyldan Samankomin á sextugsafmæli Laufeyjar, eiginkonu Sigurbjörns, síðastliðið vor.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurbjörn Þorkelsson fæddist 21. mars 1964 í Reykjavík og ólst upp í Laugarneshverfi. „Í Laugarnesinu var gott að búa og eignaðist ég þar fjölda vina.“ Hann gekk í Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla og síðan í Fjölbrautaskólann í Breiðholti

Sigurbjörn Þorkelsson fæddist 21. mars 1964 í Reykjavík og ólst upp í Laugarneshverfi. „Í Laugarnesinu var gott að búa og eignaðist ég þar fjölda vina.“

Hann gekk í Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla og síðan í Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Hann sótti m.a. námskeið í sálgæslufræðum á meistarastigi hjá Endurmenntun HÍ í samvinnu við guðfræðideild HÍ.

Á unglingsárum var Sigurbjörn í sumarvinnu hjá Kirkjugörðum Reykjavíkur. Hann var sölumaður hjá Heklu hf. árið 1982 og starfaði á skrifstofu KFUM og KFUK 1983-84. Þá hóf hann störf hjá Heildverslun Guðmundar Arasonar við innflutning á smíðajárni og sinnti þar skrifstofu-, innheimtu- og sölustörfum 1984-91, í fullu starfi fyrstu fjögur árin en síðan í hálfu starfi.

Sigurbjörn var jafnframt framkvæmdastjóri Gídeonfélagsins á Íslandi 1986-98, var forseti félagsins 2001-2004.

„Einnig var ég svo lánsamur að vera kallaður til starfa sem forstöðumaður í sumarbúðum KFUM í Vatnaskógi hluta úr 16 sumrum 1989-2004 og aftur 2011, var það sannarlega bæði þakkarvert og gefandi.“ Þá starfaði hann sem framkvæmdastjóri KFUM og KFUK í tengslum við 100 ára afmæli þeirra síungu æskulýðsfélaga 1998-2000.

„Enn ein blessunin var að vera kallaður til starfa sem framkvæmdastjóri og meðhjálpari í Laugarneskirkju 2000-2010 og fá að vera umsjónarmaður starfs eldri borgara þar 2006-2014.“ Hann var ráðgjafi og fyrirlesari á vegum Vinnumálastofnunar ríkisins frá miðju ári 2010 og 2011. Þá var hann fundarstjóri á einum 20 aðalfundum Vatnaskógar frá aldamótum. Á árunum 2013-2020 leysti hann stundum af við að prédika og leiða guðsþjónustur í Fríkirkjunni við Tjörnina í Reykjavík auk þess sem hann hefur verið ræðumaður í fjölmörgum kirkjum landsins og víðar í gegnum tíðina síðastliðin 35-36 ár. „Allt þetta hefur gefið mér mjög mikið og ég eignast fjölda dýrmætra vina í gegnum þetta allt saman fyrir lífstíð.“

Sigurbjörn hefur sinnt ritstörfum í fjölda ára og sent frá sér um 30 bækur. Þá hefur hann skrifað reglulega greinar í Morgunblaðið, en á þessu ári eru einmitt 40 ár frá því að hann hóf þá iðju og teljast greinarnar nú orðið tæplega 600. Þá má geta þess að a.m.k. 55 ljóða hans hafa birst tæplega 800 sinnum í minningargreinum hér á síðum blaðsins.

Meðal bóka hans má nefna ljóðabækurnar Lífið er ferðalag; Faðmlög; Lífið er ljóðasafn, sem einnig er til á hljóðbók, Lifi lífið, Þakklæti, Sjáðu með hjartanu; Eilíft líf; Ástríður; Sítenging; Svalt; Lífið heldur áfram og Aðeins eitt líf. Þá má nefna bænabækurnar Í fylgd frelsarans; Í skugga vængja þinna, og Vef mig vængjum þínum, og barnabækurnar Kærleikurinn mestur; Bjössi fer í Vatnaskóg; Prakkarastrik Bjössa; Ingi finnur jólin og Afmæli undirbúið.

Þá má geta þess að í apríl 2022 kom út geislaplatan Lifi lífið, sem hefur að geyma lög Jóhanns Helgasonar við 10 ljóða Sigurbjörns.

Í tilefni af sextugsafmæli Sigurbjörns hefur Skálholtsútgáfan/Kirkjuhúsið, útgáfufélag þjóðkirkjunnar, ákveðið að gefa út ljóða- og söngvabók, sem mun bera heitið Kærleikur og friður, á allra næstu vikum með 100 völdum ljóðum eftir Sigurbjörn sem hvað oftast hefur verið vitnað til ásamt nótum við 14 lög við ljóð hans. 11 laganna eru eftir Jóhann Helgason, eitt eftir Jónas Þóri, eitt eftir Helgu Þórdísi Guðmundsdóttur og eitt eftir Stefán Birkisson.

Sigurbjörn hefur flutt fjölda fyrirlestra og erindi, m.a. um vonina, mannleg samskipti, fyrirgefninguna, ellina, dauðann, bænina og margt fleira. Auk þess að lesa ljóð um lífið. „Einkunnarorð mín eru jú: Lifi lífið!“

Sigurbjörn hefur glímt við ólæknandi krabbamein frá því í júlí 2013 eða í að verða 11 ár og vill koma á framfæri ómetanlegu þakklæti til sinnar heittelskuðu eiginkonu og dásamlegu sístækkandi fjölskyldu fyrir stuðning og samveru alla, í öllum aðstæðum. Einnig til fjölmargra ómetanlegra skyldmenna og vina og eins lækna og hjúkrunarfólks í gegnum tíðina. „Barnabörnin eru orðin sjö og fjölskyldan auðgar lífið.“

Fjölskylda

Eiginkona Sigurbjörns er Laufey Geirlaugsdóttir f. 6.5. 1963, söngkona, kórstjóri og bókari. Þau eru búsett í Grafarholti í Reykjavík. Foreldrar Laufeyjar voru hjónin Geirlaugur K. Árnason, f. 24.8. 1926, d. 13.7. 1981, deildarstjóri hjá Sementsverksmiðju ríkisins, rakari, organisti og söngstjóri frá Akranesi, og Sveinbjörg H. Arnmundsdóttir, f. 15.2. 1927, d. 16.2. 2010, verslunarkona, húsfreyja og sumarbúðastjóri í sumarbúðum KFUM og KFUK í Ölveri, einnig frá Akranesi.

Synir Sigurbjörns og Laufeyjar eru: 1) Þorkell Gunnar, f. 23.4. 1986, íþróttafréttamaður. Eiginkona hans er Drífa Sveinbjörnsdóttir. Börn þeirra eru Sigrún Röfn, f. 2015, Bryndís Rut, f. 2019, og Margrét Rún, f. 2023; 2) Geirlaugur Ingi, f. 30.11. 1989, rafvirkjameistari, kerfisstjóri og sjúkraflutningamaður. Eiginkona hans er séra Þóra Björg Sigurðardóttir, prestur á Akranesi. Börn þeirra eru Laufey Lilja, f. 2016, og Viktor Þór, f. 2018, þau eiga von á sínu þriðja barni seinnipartinn í ágúst; 3) Páll Steinar, f. 26.1. 1995, sjúkraþjálfari hjá Sjúkraþjálfun Íslands. Eiginkona hans er Harpa Marín Þórarinsdóttir, tannlæknir í Mosfellsbæ. Synir þeirra eru Ísak Máni, f. 2021 og Davíð, f. 10.1. 2024, d. 10.1. 2024.

Foreldrar Sigurbjörns voru hjónin Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson f. 3.6. 1912, d. 28.11. 2006, verslunarmaður í Reykjavík, fyrsti forseti Gídeonfélagsins á Íslandi og heiðursfélagi KFUM, og Steinunn Pálsdóttir f. 3.8. 1924, d. 12.3. 2006, húsmóðir og bænakona með meiru. Hún sat m.a. í stjórn sumarbúða KFUK í Vindáshlíð í 18 ár.