Skaðvaldur Laxalús getur verið þrálátt vandamál í sjókvíaeldi og eru nokkrar tegundir lyfja notaðar í fóðri eða með böðun til að losna við hana.
Skaðvaldur Laxalús getur verið þrálátt vandamál í sjókvíaeldi og eru nokkrar tegundir lyfja notaðar í fóðri eða með böðun til að losna við hana. — Ljósmynd/Havforskningsinstituttet
Umhverfisstofnun svarar því ekki hvenær standi til að skoða hver áhrif lyfja sem beitt er til að meðhöndla eldislax gegn laxalús eru á lífríki sjávar. Ekki hefur þeirri spurningu verið svarað hvort stofnunin telji forsvaranlegt að lyfin séu í notkun …

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Umhverfisstofnun svarar því ekki hvenær standi til að skoða hver áhrif lyfja sem beitt er til að meðhöndla eldislax gegn laxalús eru á lífríki sjávar. Ekki hefur þeirri spurningu verið svarað hvort stofnunin telji forsvaranlegt að lyfin séu í notkun á meðan áhrif þeirra á lífríki í þeim fjörðum þar sem þau eru notuð eru óþekkt.

Í umfjöllun Morgunblaðsins í janúar 2022 um notkun lyfja gegn laxalús í sjókvíaeldi upplýsti Umhverfisstofnun að hún hygðist taka til skoðunar notkun fiskilúsalyfja, nánar tiltekið emamectins, vegna mögulegra skaðlegra áhrifa á umhverfið. Eru nú liðin tvö ár og hefur skoðunin enn ekki farið fram. Hversu lengi málinu verður frestað hefur ekki fengist upplýst.

Um mitt síðasta ár gerði blaðamaður tilraun til að fá svar við fyrrnefndum spurningum og svaraði Umhverfisstofnun þá: „Vegna mikilla anna og annarra verkefna hefur því miður ekki verið lokið við þetta verkefni. Í ljósi boðaðrar stefnumótunar matvælaráðuneytisins í lagareldi mun stofnunin skoða málið heildstætt með öðrum stofnunum sem koma að fiskeldismálum.“

Stefnumótun yfirvalda fyrir eldis- og ræktunargreinar lauk á síðasta ári með kynningu frumvarps að nýjum heildarlögum fyrir lagareldi. Til stóð að flytja frumvarpið fyrir Alþingi 26. febrúar síðastliðinn samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Ekki er vitað hvenær megi búast við því að það hljóti þinglega meðferð.

Töluvert af lyfjum í fyrra

Óvenju mikið var um laxalús í íslensku eldi á síðasta ári og gaf Matvælastofnun út heimildir fyrir 21 lyfjameðhöndlun á tíu eldissvæðum í fimm fjörðum á Vestfjörðum að undangenginni jákvæðri umsögn fiskisjúkdómanefndar og Hafrannsóknastofnunar.

Samkvæmt ársskýrslu dýralæknis fiskisjúkdóma var heildarmagn virkra efna sem notuð voru gegn lúsinni í fyrra 1,3 kíló af AlphaMax, 138 kíló í formi Salmosan og 2,2 kíló af Slice-fóðri.

Virka efnið í AlphaMax er deltamethrin og þarf að meðhöndla lyfið með gát þar sem það getur haft neikvæð áhrif á menn og umhverfi og þá sérstaklega krabbadýr, að því er segir í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um virkni, áhrif og notkun lyfja gegn laxalús sem birt var 2019. Getur lyfið haft veruleg áhrif á ýmsar dýrategundir og er í skýrslunni meðal annars bent á neikvæð áhrif á hreyfigetu og fæðuöflun krabbaflóa.

Virka efnið í Salmosan er azamethiphos sem hindrar ensímvirkni á taugamótum sem leiðir til þess að taugaboð eru send í sífellu og leiðir að lokum til dauða laxalúsa. Lyfið getur haft áhrif á humar og rækju, en neikvæðu áhrifin eru mun minni en í tilfelli annarra lyfja, sem talið er mikill kostur. Regluleg notkun lyfsins veldur því hins vegar að lúsin myndar ónæmi gegn því og því er mælt með að nota það til skiptis við önnur lyf. „Azamethiphos er vatnsleysanlegt og því líklegt að það haldist í sjónum en falli ekki til botns eftir að meðferð lýkur,“ segir í skýrslu Hafró.

Varað við áhrifum

Slice er sagt hafa áhrif á hamskipti evrópskra humra. „Afmyndanir humra hafa áhrif á hreyfigetu og fæðuöflun og líklegt að þeir einstaklingar verði afræningjum að bráð eða drepist úr fæðuskorti.“ Slice er einnig talið hafa neikvæð áhrif á hamskipti og eggjaframleiðslu krabbaflóa.

„Innfjarðarrækjustofnar í Noregi hafa minnkað verulega, sérstaklega í fjörðum þar sem fiskeldi er stundað,“ segir í skýrslunni. Ekki hefur þó verið sýnt fram á bein tengsl milli minnkunar innfjarðarrækjustofna í Noregi og notkunar lúsalyfja, en skýrsluhöfundar segja notkun lyfjanna „án efa“ hafa neikvæð áhrif á rækju.