Valkvíði Helgi segir erfitt að velja lögin fyrir tónleikana enda á hann mörg frábær lög sem fólk vill heyra.
Valkvíði Helgi segir erfitt að velja lögin fyrir tónleikana enda á hann mörg frábær lög sem fólk vill heyra.
„Mér finnst skrýtið að það séu komin fjörutíu ár, mér finnst ég rétt að byrja,“ segir tónlistarmaðurinn Helgi Björnsson og hlær. Margt hefur gerst á löngum ferli, hann hefur meðal annars opnað stórleikhús í Berlín, nokkra skemmtistaði,…

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

„Mér finnst skrýtið að það séu komin fjörutíu ár, mér finnst ég rétt að byrja,“ segir tónlistarmaðurinn Helgi Björnsson og hlær. Margt hefur gerst á löngum ferli, hann hefur meðal annars opnað stórleikhús í Berlín, nokkra skemmtistaði, verið mikið í kringum leikhúsin og leiklist ásamt tónlistinni. Honum finnst langbest að vera með mörg járn í eldinum og prófa nýja hluti. Hann ákvað ungur að verða poppstjarna.

Á næstu mánuðum er von á nýrri tónlist frá Helga en nýverið gaf hann út lagið Himnasmiðinn. Helgi samdi lag og texta ásamt Þormóði Eiríkssyni tónlistarframleiðanda. Lagið er aðgengilegt á streymisveitunni Spotify.

Þegar þú byrjaðir á Ísafirði árið 1984, hafðir þú framtíðarsýn? Var þetta draumurinn?

Já, ég var svona tíu til tólf ára þegar ég tók ákvörðun um það að verða annaðhvort atvinnumaður í knattspyrnu eða poppstjarna. Svo kom það í ljós þegar ég var í kringum fimmtán ára að stelpurnar hefðu frekar áhuga á þeim sem voru með míkrófón en fótbolta,“ svarar Helgi.

„Þá einbeitti ég mér að því. Það var einbeittur brotavilji, ég fór beint í það og það tókst.“

Helgi hafði ekki ætlað sér að semja texta í upphafi en þegar hann byrjaði í hljómsveitinni Grafík breyttist það. „Þá sömdum við lögin saman. Síðan þurfti einhver að semja textana, ég fékk það verkefni og þá þurfti maður bara að takast á við það.“

40 ár í bransanum

Í nóvember heldur hann stórtónleika í Eldborg í Hörpu, 40 ár í bransanum. Miðasalan á tónleikana hefur gengið vonum framar.

„Það seldist upp í forsölu, miðarnir fóru aldrei í almenna sölu en svo voru settir á aukatónleikar og það gengur vel að selja á þá líka. Það er allt komið á fleygiferð,“ útskýrir Helgi.

„Það er ekki auðvelt að velja lögin. Það eru svona ákveðin lög sem maður veit að maður verður beðinn um og fólk verður kannski fyrir vonbrigðum ef þau eru ekki með. En þau eru orðin ansi mörg núna. Það eru lög sem mann langar að taka, lögin sem maður verður að taka. Til dæmis væri gaman að taka Kartöflur.“

Innblásturinn kom í Norður-Afríku

Lagið Himnasmiðurinn var samið fyrir um tveimur árum en það tók nokkra stund að klára lagið.

„Þá var ég strax með þá hugmynd að fá svona svörun við forsöngvaranum, vera með kór sem myndi svara mér. Það var einhver tilfinning sem ég fann fyrir. Síðan var ég að ferðast um Norður-Afríku síðasta haust og þá kynntist ég svona afrískum trommum, norðurafrískum áslætti, og fékk innblástur þaðan. Þá tók lagið völdin. Það má segja að það hafi haft áhrif á textann hvað maður er smár gagnvart náttúruöflunum. Það eru jarðhræringar og eldgos og við höfum ekkert um þetta að segja. Það er alltaf verið að leggja eitthvað á okkur til að takast á við. En svo eru gleðistundir, við komumst á toppinn og svo förum við aftur niður. Það er kannski kveikjan að textanum.“

Safnplata á leiðinni

Hann segir fullt af nýrri tónlist á leiðinni, hann ver dögunum nú í hljóðverinu, sem endar líklega með plötu. „Maður tekur bara lag og lag og safnar í sarpinn eins og hlutirnir eru í dag. Þetta er allt á veitum, fólk tekur bara eitt og eitt lag og spilar það bara,“ segir Helgi. „Maður er kannski búinn að gera tíu laga plötu en svo eru bara tvö lög spiluð. Þetta er ekki praktískt.“

Var þetta betra í gamla daga?

„Það er erfitt að segja betra og verra, þetta er öðruvísi. Þetta var svona „singles-market“ eins og það var kallað, einstaka lög, í gamla daga þegar þessi bransi er svolítið að byrja. Presley og allt þetta. Svo koma Bítlarnir, sjöundi áratugurinn og þá koma plötur. Listamennirnir fara að semja sjálfir, fara að gefa út heilar plötur og verk. Svo núna með öllum þessum veitum, Spotify og hvað þetta heitir allt saman, þá gefa menn út lag og lag. Átta mig ekki á því hvort þetta sé verra eða betra. Þú heldur ekki á neinu, það var annað þegar þú hélst á plötunni eða geisladisknum. En fólk er ekkert hætt að gefa út plötur, það er auðvitað skemmtilegra að gefa út heilt verk og vera með safn af lögum sem hafa eitthvað að segja,“ segir Helgi og bætir við að á leiðinni sé safnplata frá honum á vínil.

Næstu mánuði ætlar Helgi að taka hring um landið og hefst hann á heimaslóðum núna um páskana. Þar kemur hann fram á tuttugu ára afmælishátíð Aldrei fór ég suður. „Því miður, ég hvet auðvitað alla til að koma en það er vandræði með gistipláss,“ segir hann og hlær.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Helga í heild sinni á K100.is.

Fletta í greinum frá þessum degi