Fossvogur Í boði eru átta fermetra kassar til ræktunar matjurta í sumar.
Fossvogur Í boði eru átta fermetra kassar til ræktunar matjurta í sumar. — Ljósmynd/Róbert Reynisson
Opnað var fyrir umsóknir Reykvíkinga um matjurtagarða í borginni föstudaginn 15. mars síðastliðinn. Borgin hefur um árabil boðið Reykvíkingum að leigja matjurtagarða og hafa þeir notið mikilla vinsælda hjá fólki sem vill rækta sitt eigið grænmeti

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Opnað var fyrir umsóknir Reykvíkinga um matjurtagarða í borginni föstudaginn 15. mars síðastliðinn.

Borgin hefur um árabil boðið Reykvíkingum að leigja matjurtagarða og hafa þeir notið mikilla vinsælda hjá fólki sem vill rækta sitt eigið grænmeti.

Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að um 600 matjurtagarðar verði leigðir út á vegum borgarinnar á þessu sumri. Þar af eru tæplega 200 í Skammadal. Garðarnir eru í boði í Vesturbæ, Fossvogi, Laugardal, Árbæ, Grafarvogi og við Fólkvang á Kjalarnesi. Þeir verða opnaðir 1. maí.

Í fyrra voru 520 garðar leigðir út og þá voru 32 manns á biðlista. Það voru biðlistar við Þorragötu, Fossvog, Laugardal og Árbæ og fullt var við Logafold þótt biðlisti hafi ekki myndast. Það voru lausir garðar í Skammadal í Mosfellsbæ í fyrra. Það gæti skýrst af því að garðarnir þar eru stærri en garðarnir í borginni og þangað er lengra að fara.

Vatn er aðgengilegt á öllum svæðum en garðáhöld, plöntur og útsæði fylgja hins vegar ekki með.

„Fyrir byrjendur má geta þess að algengast er að fólk rækti kartöflur og alls konar kál og rófur. Einnig er gott að hafa í huga að hægt er að nálgast forræktað grænmeti í allflestum gróðrarstöðvum,“ segir á vef borgarinnar.

Leigugjöld ársins 2024 eru 7.200 krónur fyrir garðland í Skammadal (u.þ.b. 100 fermetrar) og 6.000 kr. fyrir garð (u.þ.b. 20 fermetrar). Kassar í Grafarvogi, Árbæ, Fossvogi og Kjalarnesi verða á kr. 4.800 kr. kassinn (8 fermetrar).

Umsóknir sendist á netfangið matjurtagardar@reykjavik.is.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson