Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Gott framboð lóða í nýjum hverfum gæti lækkað íbúðaverð og stuðlað að lausn húsnæðisvandans.

Kjartan Magnússon

Aðgerða er þörf til lausnar á þeim húsnæðisvanda sem við er að glíma á höfuðborgarsvæðinu. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg stórauki lóðaframboð og standi þannig að sölu lóða að verð nýrra íbúða lækki verulega frá því sem nú er.

Sem betur fer ræður borgin yfir miklu landrými sem hægt er að breyta í byggingarlóðir á skömmum tíma. Á sama tíma og borgin glímir við fjárhagserfiðleika er land e.t.v. hið eina sem hún á nóg af.

Lóðaskortsstefna og ofuráhersla á þéttingu hefur þrýst upp húsnæðisverði í Reykjavík og stuðlað að því að verðbólga og stýrivextir hafa þróast á óhagfelldan hátt fyrir almenning. Stóraukið framboð lóða væri til þess fallið að svara mikilli spurn eftir húsnæði, lækka húsnæðisverð og draga úr verðbólgu.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa bent á ýmsar leíðir til að auka lóðaframboð í borginni. Svo mikil uppsöfnuð þörf er fyrir byggingarland að ljóst er að taka þarf ný hverfi til uppbyggingar sem fyrst. Smáskammtalækningar duga ekki lengur með takmörkuðu framboði dýrra íbúða á þéttingarsvæðum, sem venjulegt launafólk hefur ekki efni á.

Ákjósanleg uppbyggingarsvæði

Líta þarf til uppbyggingar í Úlfarsárdal, Keldnalandi, Kjalarnesi og Geldinganesi að þessu leyti. Sums staðar er hægt að breyta landi í lóðir á skömmum tíma. Annars staðar þarf að huga að framtíðarskipulagi enda ekki ráð nema í tíma sé tekið.

Í byrjun mars lögðum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að hafist yrði handa við skipulagningu Halla- og Hamrahlíðarlanda í Úlfarsárdal en þar rúmast með góðu móti byggð fyrir 3-4 þúsund íbúa. Tillögunni var vel tekið í borgarstjórn og vísað til átakshóps um húsnæðisuppbyggingu í borginni. Óvíst er þó hvort málið verði í forgangi hjá núverandi meirihluta.

Framtíðarbyggð í Geldinganesi

Í Geldinganesi má með góðu móti koma fyrir 7-10 þúsund manna byggð auk atvinnusvæðis.

Nesið er um 220 hektarar að flatarmáli eða svipað og svæðið sem afmarkast af Hringbraut og Snorrabraut. Best væri að vinna samhliða að skipulagi Sundabrautar og Geldinganess enda er brautin forsenda íbúðabyggðar þar.

Á fundi borgarstjórnar sl. þriðjudag lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að hafist yrði handa við skipulagningu íbúðahverfis í Geldinganesi. Tillagan var felld með atkvæðum meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar auk VG.

Í október 2022 lagði Sjálfstæðisflokkurinn fram svipaða tillögu um skipulagsvinnu vegna framtíðarbyggðar í Geldinganesi en hún var einnig felld með atkvæðum sömu flokka.

Borgarfulltrúar vinstri meirihlutans virðast þó hafa mismunandi afstöðu til framtíðarbyggðar í Geldinganesi ef marka má umræður í borgarstjórn. Margir þeirra viðurkenna að svæðið sé líklegt byggingarland til framtíðar en telja skipulagsvinnu ekki tímabæra. Sumir þeirra eru þó beinlínis andvígir íbúðabyggð á Geldinganesi og vilja helst nýta svæðið til grjótnáms og skógræktar.

Þá hefur komið fram það sjónarmið hjá fulltrúum meirihlutans að ekki megi byggja upp Geldinganes á sama tíma og Keldnaland. Eitt af markmiðum svonefnds samgöngusáttmála sé nefnilega að fá gott verð fyrir Keldnalandið enda sé því ætlað að fjármagna stóran hluta samgöngusáttmálans. Af þessari ástæðu sé óæskilegt að byggja annað stórt úthverfi samtímis.

Húsnæðismál í vítahring

Þetta viðhorf er lýsandi fyrir húsnæðisstefnu núverandi meirihluta. Lóðaskorti er viðhaldið til að sem best verð fáist fyrir byggingarlóðir í Keldnalandi, sem ætlað er að fjármagna hluta samgöngusáttmálans. Lóðaverði er haldið uppi til að tryggja sem mestan afrakstur hins opinbera við lóðasölu til almennings. Gott framboð lóða á hagstæðu verði í öðrum hverfum myndi lækka lóðaverð og ganga gegn áðurnefndri stefnu.

Slík lóðaskortsstefna gengur í berhögg við hagsmuni allra sem hyggja á íbúðarkaup, ekki síst ungs fólks sem vill fjárfesta í eigin húsnæði en hefur lítið á milli handanna. Lóðaskortur stuðlar að háu lóðaverði, sem leiðir af sér hátt húsnæðisverð. Húsnæðisvandinn verður ekki leystur á meðan húsnæðismál í Reykjavík eru föst í slíkum vítahring vinstri flokkanna.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Kjartan Magnússon