Jóhannes Óli Garðarsson fæddist á Akureyri 12. október 1944. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 4. mars 2024.

Foreldrar hans voru Hildigunnur Magnúsdóttir, f. 28. mars 1915, og Garðar Jóhannesson, f. 17. desember 1904. Stjúpfaðir hans hét Helgi Hálfdánarson, f. 29. desember 1901.

Jóhannes Óli var þriðji í röð sex systkina, hin eru Ragnheiður Garðarsdóttir, f. 18. apríl 1939, Helga Garðarsdóttir, f. 8. ágúst 1940, Magnús Garðarsson, f. 23. febrúar 1950, d. 20. júlí 2017, Brynhildur Garðarsdóttir, f. 23. febrúar 1950, og Gerður Garðarsdóttir, f. 3. október 1951.

Jóhannes Óli kvæntist Ástu Þorsteinsdóttur árið 1971, þau skildu árið 1995. Seinni kona Jóhannesar Óla var Marina Molodykh, þau eru skilin.

Börn Jóhannesar Óla og Ástu eru 1) Þorsteinn Ólafsson, f. 12. maí 1970, kvæntur Maria Reuter, 2) Sif Jóhannesar Ástudóttir, f. 31. maí 1972, gift Sveini Aðalsteinssyni. Þau eiga fimm börn, Samúel Jón, Önnu Guðrúnu, Óðin, Jóhannes Óla og Þorstein. Þau eiga fjögur barnabörn. 3) Garðar Jóhannesson, f. 19. maí 1974, kvæntur Guðrúnu Björgu Eyjólfsdóttur. Þau eiga fjögur börn, Venusi Völu, Kristján, Tristan Máni og Róbert Smára. 4) Silja Jóhannesar Ástudóttir, f. 17. júní 1979.

Jóhannes Óli lauk landsprófi, lærði til rennismiðs og fór svo í nám í véltæknifræði í Noregi. Hann starfaði lengstum í Slippstöðinni á Akureyri, byrjaði sem rennismiður en tók fljótt við framleiðslustjórn og sinnti mismunandi stjórnendastöðum þar til hann hætti árið 2000. Þá varð hann kennari við Verkmenntaskólann á Akureyri og vann sem slíkur þar til hann hætti störfum um sjötugt.

Útför Jóhannesar Óla fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 21. mars 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Líf mannlegt endar skjótt sagði sálmaskáldið og svo fór um vin okkar Jóhannes Óla.

Við góðvinirnir þrír sátum saman eins og við oft gerðum í síðdegiskaffi á þriðjudögum. Þetta var hinn 27. febrúar og lék Jóhannes þá á als oddi. Daginn eftir fengum við slæma frétt þegar Garðar sonur Jóhannesar hringdi og sagði okkur að hann væri kominn á sjúkrahús. Viku síðar var hann allur. Vinátta okkar félaganna varði allt frá sex ára aldri. Um 1950 fluttist Jóhannes ásamt fjölskyldu sinni í Hríseyjargötu 1, „Steinöld“. Við hinir bjuggum við Strandgötuna, örskotsgang frá Steinöld. Á þessum tíma var mikill barnaskari á Eyrinni og léku börnin sér saman í ýmsum leikjum dagana langa og vináttutengsl mynduðust.

Jóhannes hóf að nema rennismíði hjá vélsmiðjunni Bjarma. Á þessum árum var neðsti hluti Oddeyrar allt norður að Glerá undirlagður ýmiss konar iðnaðarstarfsemi og því endaði það svo að við félagarnir þrír fórum í iðnnám. Jóhannes skaraði fram úr í sínu fagi eins og mörgu öðru er hann tók sér fyrir hendur.

Að iðnnámi loknu og undirbúningsnámi hélt Jóhannes til náms í tæknifræði í Noregi og lauk prófi í véltæknifræði. Þrátt fyrir að vík væri milli vina hélst vináttan óbreytt.

Heimkominn úr námi fór Jóhannes að vinna hjá Slippstöðinni og varð fljótlega meðal lykilstarfsmanna þar. Samstarfsmenn hans hafa sagt okkur, sem við raunar vissum vel, að hann hafi verið mjög skipulagður og nákvæmur í vinnubrögðum og vinsæll meðal starfsmanna.

Nú var komið að því að stofna fjölskyldu enda hafði hann þá kynnst Ástu sem varð eiginkona hans og eignuðust þau saman þrjú börn og ólu upp son Ástu, hverjum Jóhannes gekk í föðurstað. Við félagar hans vorum einnig fjölskyldumenn. Þrátt fyrir þetta voru samverustundirnar margar og ánægjulegar. Ekki má gleyma samverustundum í garðinum hjá Jóhannesi og Ástu í Eiðsvallagötunni þar sem meðal annars var þróuð ný íþróttagrein, fata, um fallega sumarnótt.

Síðustu um það bil 10 starfsár sín var Jóhannes vinsæll og virtur kennari við Verkmenntaskólann á Akureyri. Ástæða starfsloka hans hjá Slippstöðinni mun vera að á þeim tíma var verkefnastaðan slæm hjá Slippstöðinni og fækka þurfti starfsfólki. Jóhannes hélt þá á fund forstjórans og bað um að verða sagt upp frekar en yngri fjölskyldumönnum.

Eitt af því sem einkenndi Jóhannes var hversu auðvelt hann átti með að ræða við fólk og skiptast á skoðunum um hin ýmsu málefni. Hin síðari ár hittumst við félagarnir reglulega þrisvar til fjórum sinnum í viku til að njóta samvista og ræða málin. Okkur er hins vegar ekki grunlaust um að stundum hafi Jóhannes haldið fram skoðunum sem ekki voru endilega hans til þess eins að lífga upp á samkvæmið. Jóhannes var ágætur hagyrðingur og það kann að hafa hjálpað að hann kunni ógrynni af vísum og ljóðum. Hann hafði einnig yfirgripsmikla þekkingu á Íslendingasögunum og var ekki spar á þann fróðleik ef svo bar undir.

Við þökkum Jóhannesi alla vináttuna og hjálpsemina og sendum börnum hans, systkinum og öðrum aðstandendum innilegustu samúðarkveðjur.

Franz og Steindór.