Selfossfundur Frá vinstri: Elínborg, Guðmundur Karl og Guðrún.
Selfossfundur Frá vinstri: Elínborg, Guðmundur Karl og Guðrún. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Efling safnaðar- og grasrótarstarfs kirkjunnar og lausnir í samskiptum við ríkið, samanber að aðeins hluta af innheimtum sóknargjöldum er nú skilað til kirkjunnar. Þetta er meðal þeirra áherslumála sem frambjóðendur í væntanlegu kjöri til embættis biskups Íslands töluðu fyrir á sínum fyrsta sameiginlega kynningarfundi. Sá var haldinn í Selfosskirkju nú í vikunni, var fjölsóttur og í beinu streymi á netinu. Kandídatar í biskupskjöri, að afloknu tilnefningarferli, eru þrír: sr. Elínborg Sturludóttir, Guðmundur Karl Brynjarsson og Guðrún Karls Helgudóttir.

Eigi sér sjálfsagðan stað

Biskup þarf að sjá og heyra og nota innsæi og dómgreind í störfum sínum, sagði sr. Elínborg í kynningu sinni. Lýsti þar uppvexti sínum í Stykkishólmi þar sem jákvæð afstaða til kirkju og kristni hefðu einkennt bæjarbrag. Elínborg, sem er prestur við Dómkirkjuna í Reykjavík, sagði að væntanlega teldu margir að reglur um biskupskjör mættu vera rýmri en nú. Þau um 2.000 sem kjósa mættu biskup væru þó virkasta fólkið í starfi þjóðkirkjunnar. Engin fjöldahreyfing á Íslandi byggi yfir sama afli nema ef vera kynnu björgunarsveitirnar.

„Ég gef kost á mér til embættis biskups Íslands því ég vil leiða kirkju í sókn. Kirkju sem á sinn sjálfsagða stað í samfélaginu. Kirkju sem er virt vegna þess að hún býður upp á andlega næringu, dýpt og öruggt skjól í amstri hversdagsleikans,“ sagði Guðrún Karls Helgudóttir. Í söfnuðum landsins væri fjölbreytt og gott starf um allt land, helgihald, athafnir á stærstu stundum lífsins og sálgæslustarf.

„Kirkjan á ávallt að taka afstöðu með þeim sem minna mega sín í samfélaginu, hún á að vera vörður mannréttinda og réttlætis og þarf að gera það með sýnilegum hætti. Í dag eru það málefni flóttafólks, innflytjenda og hælisleitenda sem brenna á samfélaginu okkar, og þar þarf kirkjan að taka skýra afstöðu í ljósi kærleiksboða Krists,“ sagði Guðrún.

Af metnaði og kærleika

Kirkjan þarf að sýna sinn rétta svip, sagði sr. Guðmundur Karl Brynjarsson. Innan hennar er unnið mikið og öflugt starf bæði af metnaði og kærleika. Mikilvægt er að gera það starf sýnilegra sem ætti að vera auðvelt með tilkomu samfélagsmiðla.

Í Lindakirkju í Kópavogi, þar sem Guðmundur Karl starfar og þjónar, hefði verið hugsað út fyrir boxið um áherslur í safnaðarstarfinu í öllum þess fjölbreytileika. „Mín nálgun á mál sem biskup yrði að leggja áherslu á innra starf. Biskup á síðast en ekki síst að hvetja til dáða öll sem eru að störfum innan kirkjunnar og greiða veg þess. Kirkjan á að vera framsækin.“

Þrengt að söfnuðum

Margt flaug fyrir þegar kom að fyrirspurnum til frambjóðenda. Sr. Sigríður Kristín Helgadóttir, prestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð, gerði að umtalsefni þann vanda sem fámennir söfnuðir í sveitunum stæðu andspænis. Sóknargjöldin væru takmörkuð sem setti starfi hömlur. Stundum væri tæpast hægt að borga organistum laun svo velta þyrfti upp hvort hægt væri að messa á stórhátíðum. Sumar kirkjur væru að grotna niður, enda ekki til peningar í að sinna viðhaldi. Þetta sögðust biskupsefnin þekkja. Guðmundur Karl sagði mikilvægt að setjast niður með fólki og finna lausnir. Guðrún sagði að af þessari ástæðu væri mikilvægt að fá fleiri til að ganga í söfnuði kirkjunnar. Fara þyrfti í átak um slíkt; jafnvel með gömlum aðferðum eins og að taka upp símann eða ganga í hús.

Eínborg Sturludóttir sagði stöðuna einfaldlega þá að fámennu söfnuðirnir gætu ekki staðið undir neinu; svo mjög væri að þeim þrengt. Ótækt væri sömuleiðis að fámennar sóknir þyrftu einar að bera ábyrgð á dýrum viðgerðum á friðuðum húsum. Að ríkið skilaði ekki innheimtum sóknargjöldum nema að hluta væri að mergsjúga söfnuðina.

Með kristinni lífssýn

„Það er kristilegt að standa með þeim sem minna mega sín,“ sagði Guðmundur Karl þegar málefni hælisleitenda og flóttafólks voru rædd. Elínborg tók í sama streng og sagði Vesturlandabúa bera ábyrgð gagnvart fólki á flótta. Leysa þyrfti úr málum af kærleika, hlýju, umburðarlyndi og með kristinni lífssýn.
Guðrún sagði kirkjuna eiga alltaf að standa með þeim sem höllum fæti standa. Hún væri til dæmis ánægð með hvernig Lútherska heimssambandið stæði með fólki á stríðshrjáðu Gasasvæðinu.

Efla trúarbragðafræðslu

Vel var hlaðið í með spurningu þegar biskupsefnin voru spurð hvað þau ætluðu að gera til að rétta kristindómsfræðslu til skólabarna frá niðurlægingu af völdum stjórnvalda, eins og komist var að orði. Þessu svaraði Elínborg þannig að svo virtist sem uppi væru þau viðhorf að varhugavert væri að börn þekktu Jesú Krist. Efla þyrfti trúarbragðafræðslu, enda flytti nú til Íslands í stórum stíl fólk af erlendum uppruna. Mikilvægt væri að þekktar væru rætur íslensks samfélags; menningar sem kirkjan hefði tekið þátt í að móta á þúsund árum. Guðmundur Karl sagði að mikilvægt væri að ungt fólk öðlaðist læsi á menningu og sagnaheim trúarinnar. Svör Guðrúnar voru á svipaða lund en að þjóðkirkjan sjálf þyrfti að taka forystu með fræðslu og koma til móts við fólkið í landinu.