Kate prinsessa Leit að henni stendur yfir.
Kate prinsessa Leit að henni stendur yfir. — AFP/Hannah McKay
Það er árið 2024 og mannkynið ætti að vera orðið sæmilega skynsamt. Alls kyns framfarir stuðla þó greinilega ekki að jafnvægi hugans hjá fjölmörgum sem sjá samsæri á ótrúlegum stöðum. Þegar falleg og góð bresk prinsessa, Kate Middleton, fór í…

Kolbrún Bergþórsdóttir

Það er árið 2024 og mannkynið ætti að vera orðið sæmilega skynsamt. Alls kyns framfarir stuðla þó greinilega ekki að jafnvægi hugans hjá fjölmörgum sem sjá samsæri á ótrúlegum stöðum.

Þegar falleg og góð bresk prinsessa, Kate Middleton, fór í veikindaleyfi eftir erfiða aðgerð og sást ekki opinberlega vikum saman stukku margir til og sögðust vita fyrir víst að hún væri í dái eða þegar látin. Aðrir fullyrtu að hún væri að jafna sig eftir lýtaaðgerð eða algjörlega misheppnaða klippingu, væri í felum af því hún þyldi ekki manninn sinn og svo framvegis. Þegar hún náðist svo á mynd á dögunum ásamt eiginmanni sínum voru ýmsir, þar á meðal fréttamenn, sem sögðu að þetta væri alls ekki hún.

Prinsessan hefur verið til umræðu á hverjum degi í breskum fréttatímum. Hver álitsgjafinn á fætur öðrum er dreginn fram í sviðsljósið en allir segja nokkurn veginn það sama, sem sagt að samsæriskenningar séu fáránlegar, prinsessan sé bara að jafna sig á veikindum. Það þarf svo sem ekki álitsgjafa til að segja manni það. Maður er þó óneitanlega nokkuð undrandi á því hversu óhemju mikil fáviska og vitleysisgangur þrífst í netheimum og ratar síðan út í opinbera umræðu.